Grein

Jón Páll Halldórsson.
Jón Páll Halldórsson.

| 20.09.2001 | 10:10Fýkur yfir hæðir

Fallegt torg, sem nú er komið við enda Skutulsfjarðarbrautar, gleður augu vegfarenda, þegar þeir aka inn í Ísafjarðarbæ. Þökk sé öllum þeim, sem þar hafa lagt hönd að verki.
Þegar Ísfirðingar fögnuðu 100 ára afmæli bæjarstjórnar Ísafjarðar sumarið 1966, færðu fulltrúar Reykjavíkurborgar Ísfirðingum að gjöf fallegt listaverk eftir Ásmund Sveinsson, myndhöggvara. Það kom í hlut frú Auðar Auðuns, sem þá var forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, að afhenda gjöfina. Í ræðu, sem frú Auður flutti þá í veizlu bæjarstjórnar, sagði hún, að Ásmundur hefði ekki sjálfur valið styttunni nafn. Það gerði ungur drengur, vinur listamannsins og heimagangur á vinnustofu hans. Drengurinn sagði, er hann sá listaverkið í fyrsta sinn: Þessi myndastytta á að heita Fýkur yfir hæðir. Hann hefir sennilega, sagði frú Auður, verið nýbúinn að lesa eða heyra kvæði Jónasar og fundizt myndin minna á það.

Nú eru liðin þrjátíu og fimm ár síðan frú Auður Auðuns færði fæðingarbæ sínum þetta fallega verk Ásmundar. Ég er einn þeirra bæjarbúa, sem finnst að bæjaryfirvöld hafi oft sýnt þessari gjöf takmarkaðan sóma. Árum saman var verkið á hálfgerðum flækingi frá einum stað til annars. Fyrsta sumarið stóð það við Gagnfræðaskólann, síðan var það sett niður úti í horni á Austurvelli, þar sem það var falið undir tré og enginn veitti því athygli. Fyrir nokkrum árum var það svo flutt nær götunni, þar sem vegfarendur njóta þess betur, en þá var platan með nafni verksins og nafni gefanda glötuð. Þeirri hugmynd er hér með varpað fram, hvort ekki færi vel á því, þegar fallegt torg er komið við innkeyrsluna til bæjarins, að setja verkið niður á torgið. Þar yrði verkið bæjarprýði og vegfarendum til yndisauka.

Og meðal annarra orða, hvernig væri að lýsa upp hið fallega listaverk Einars Jónssonar, Úr álögum, sem sr. Jón Auðuns gaf fæðingarbæ sínum, til minningar um foreldra sína, Margréti Jónsdóttur og Jón Auðunn Jónsson, alþingismann? Það myndi örugglega njóta sín betur á kyrrum haustkvöldum, ef það væri upplýst.

Þessum hugmyndum er varpað hér fram í þeirri von, að bæjaryfirvöld taki þær til vinsamlegrar athugunar og skoðunar.
– Jón Páll Halldórsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi