Grein

Hermann Níelsson.
Hermann Níelsson.

Hermann Níelsson | 24.04.2005 | 14:16Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Ólínu Þorvarðardóttur sést ekki fyrir í hamagangi sínum í fjölmiðlum. Það á bæði við í svari hennar við grein minni í Bæjarins besta og Morgunblaðinu sem og í Kastljósþætti s.l. miðvikudag. Ekki var meiningin að skrifa meira um málið en svo má lengi brýna deigt járn að bíti. Flest atriðin í grein minni eru í fullu gildi og voru ekki sett fram með ,,digrum yfirlýsingum” það geta lesendur staðfest.

Það var eftir öðru hjá Ólínu að kenna mér um að rjúfa friðinn við Menntaskólann á Ísafirði. Þann vafasama heiður vil ég ekki af henni taka. Hún kennir mér um flest ummæli sem birst hafa í fjölmiðlum um stjórnunarhætti hennar og framkomu. Blaðamenn hafa hins vegar vitnað til fjölmargra einstaklinga í umfjöllunum sínum. Heldur Ólína því fram að þeir ljúgi þeim ummælum upp á viðmælendur sína?

Í grein sinni á bb.is 22. apríl og í Morgunblaðinu segir Ólína: ,,Allar þær nafnlausu rangfærslur og persónuárásir í fjölmiðlum fá á sig nafn og andlit í grein Hermanns Níelssonar”. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur. Skoðum hvaða fullyrðingar mínar voru í ,,besta falli villandi, í versta falli ósannindi” eins og ÓÞ kemst að orði í svargrein sinni en þar svarar hún aðeins 4 léttvægum atriðum af fjölmörgum.

Um stjórnsýslukvartanirnar 5 segir ÓÞ: ,,Hið rétta er að ein kvörtun hefur borist ráðuneytinu frá Félagi framhaldsskólakennara.” En, í yfirlýsingu frá FF 1. apríl 2005 segir: ,,á árunum 2003 – 2004 fjölgaði mjög fyrirspurnum og umkvörtunum félagsmanna við MÍ vegna framgöngu og embættisfærslu skólameistara” einnig segir þar ,,þrátt fyrir fullyrðingar skólameistara um hið gagnstæða er staðreyndin sú að flest þessara mála eru óleyst.” Eitt þeirra er orðið að dómsmáli. Og, í bréfi Elnu Katrínar Jónsdóttur þ.v. formanns FF til Guðmundar Árnasonar ráðuneytisstjóra þann 15. febrúar s.l. segir: ,,stjórn félagsins lítur svo á að rökstuddar kvartanir þess og einstakra félagsmanna séu þess efnis að óhjákvæmilegt sé að menntamálaráðuneytið láti málið til sín taka.” Þessu verður Ólína Þorvarðardóttir að kyngja.

Það er rétt hjá Ólínu að allir fjórir nústarfandi sviðsstjórar við MÍ hafa fagleg réttindi í einu fagi af 3 -5 á sviði hvers og eins. Rétt skal vera rétt og leiðréttist hér með. Sú fullyrðing mín að einn sviðsstjóra hefði ekki haft fagréttindi á sviðinu var á misskilningi byggð enda leiðrétti ég það strax á bb.is og kemur því ekki fram í Bæjarins besta. Leiðréttingin náði ekki inn í Morgunblaðið, ritstjórnarfulltrúinn sagði mér að birting greinarinnar yrði eftir helgina, leiðréttingin mín fór til þeirra á laugardag en viti menn, þar fannst mönnum greinin svo góð að þeir birtu hana strax í sunnudagsblaðinu.

,,Varðandi leiðréttingar yfirstjórnenda og fjölda einkunna sem breytt var í 1. umferð fer Hermann með rangt mál,“ skrifar skólameistarinn. Varaðu þig nú Ólína. Þú baðst mig að útvega þér vetrareinkunnir 9 nemenda sem þið Guðbjartur aðstoðarskólameistari breyttuð prófseinkunnum hjá og ritari skólans færði inn. Þú ert að vitna í breytingar á 15 einkunnum við yfirferð Guðjóns Ólafssonar, fyrrverandi enskukennara við MÍ þess sem samdi prófið og er af þér talinn hlutlaus aðili málsins. Hvenær voru einkunnagjafir Guðjóns færðar inn á skírteini nemenda? Það var engin 2. umferð eins og þú ert að gefa í skyn.

Þetta með réttindakennarana er orðin hálfgerð vitleysa eftir ummæli þín í Kastljósinu. Þar talaðir þú um að hafa auglýst 8 stöður vegna réttindalausra kennara. Þú auglýstir stöðu Ingibjargar enskukennara, Arndísar dönskukennara og Friðgerðar stærðfræðikennara án vitundar þeirra en hafðir ekki auglýst þessar stöður síðustu tvö til þrjú árin. Þær Arndís og Friðgerður höfðu skoðanir sem féllu þér ekki í geð en allar þrjár hafa kennsluréttindi og fagleg réttindi á öðrum sviðum. Þær eiga það einnig sammerkt að vera meðal bestu og vinsælustu kennara þessa skóla. Spyrjið nemendur.

Í grein minni stendur: „Nú á vorönn 2005 eru 15 kennarar með kennsluréttindi og 15 án“ Það hefur þú ekki dregið í efa enda reiknar þú með fjölda kennara allan veturinn út frá 35 kennurum. Starf framhaldsskóla skiptist í sjálfstæðar haust og vorannir og kennaraskipti verða oft milli anna. Útkoman fer eftir þeim forsendunum sem útreikningarnir byggjast á.

Vegna umræðu um sviðsstjórastöður við MÍ verður að upplýsa lesendur um eftirfarandi: Sviðsstjóri raungreinasviðs hefur umsjón með líffræði, efnafræði, eðlisfræði, hjúkrunargreinum og íþróttum og er menntaður líffræðingur. Sviðsstjóri stærðfræðisviðs er viðskiptamenntaður og fer einnig með sviðsstjórn viðskiptagreina. Sviðsstjóri íslensku- og samfélagssviðs er sagnfræðingur. Sviðsstjóri verkgreina er vélstjórnarmenntaður og sér um rafiðngreinar, málmiðngreinar, trésmíði og vélstjórnargreinar. Eins og kom fram áður hafa allir kennsluréttindi og próf í sinni grein. Sviðsstjóri erlendra mála hefur umsjón með ensku, frönsku, dönsku og þýsku.

Ingibjörg Ingadóttir fyrrverandi sviðsstjóri í erlendum málum hefur kennsluréttindi og próf í hótel- og ferðamálagreinum. Hún hefur þó sérhæft sig í ensku með 9 ára kennslureynslu, stundaði háskólanám og bjó í Englandi í 5 ár. Hún kenndi áður frönsku við framhaldsskóla, bjó í Svíþjóð í 2 ár, starfaði þar sem kennari og lauk síðar 15 einingum við HÍ í bókmenntum og sænsku og hefur þar með gott vald á norrænum málum. Þá er þýskan eftir en Ingibjörg er stúdent af málasviði frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þrátt fyrir full kennsluréttindi og þessa menntun og reynslu í tungumálum sem falla undir sviðsstjóra erlendra mála sagði Ólína Ingibjörgu upp starfinu á þeirri forsendu að hún hefði ekki BA próf í ensku. Lesendur muna væntanlega að Ólína hélt því fram eftir að hafa ráðið Ingibjörgu til sviðsstjórastarfa í tvígang að hún uppgötvaði allt í einu að hana vantaði BA prófið hálfum mánuði eftir að Ingibjörg stefndi Ólínu f.h. MÍ. Ólína hefur margsagt ósatt um þetta atriði í vitna viðurvist sem og í uppsagnarbréfinu til Ingibjargar. Enginn sviðsstjóri erlendra mála er nú starfandi við skólann.

Í lokin get ég ekki stillt mig um að vekja athygli á nokkrum atriðum í málflutningi Ólínu Þorvarðardóttur skólameistara í Kastljósi sjónvarpsins í síðustu viku. Þar sagðist hún hafa boðið Ingibjörgu að leysa málið (áminningarmálið) í þrígang í friðsemd. Hvílík fjarstæða, hún afhenti Ingibjörgu boðaða áminningu aðeins vegna þess að hún vogaði sér að biðja trúnaðarmann kennara um að koma með sér í viðtal við Ólínu um jólaprófin. Á þeim fundi fengu Ingibjörg og trúnaðarmaður kennara yfirlestur sem þau munu lengi í minnum hafa.

Ólína sagðist ekki hafa skipt sér af störfum stjórnar kennarafélags skólans! Hvernig stóð þá á því að stjórn kennarafélagsins sagði af sér einmitt af þeirri ástæðu. Hún talaði einnig um örfáa óánægða kennara sem mætti telja á fingrum annarar handar en virðist ekki gera sér ekki grein fyrir að fingur beggja handa duga ekki til, slík er óánægjan með stjórnunarhætti hennar.

Þá sagðist hún í þættinum aldrei hafa öskrað, hvorki á nemendur né kennara. Hvað þarf mörg vitni til að sannfæra konuna um hennar eigin framkomu?

Ólína sagði í viðtali á Talstöðinni að 20 kennarar við MÍ hefðu farið í sálfræðimeðferð. Ég spyr, hvað á konan við? Steinunn I. Stefánsdóttir vinnusálfræðingur sem Ólína fékk að skólanum og kynnti sem ,,bjargvætt skólans” fyrir kennurum, ræddi við mig í 50 mínútur. Mestur tíminn fór í að SVÓT- greina skólameistarann, styrkleika hennar, veikleika, ógnanir og tækifæri. Þegar ég gagnrýndi Ólínu sem skólameistara var eins og sálfræðingurinn reyndi að verja hana og draga úr en það merkilegasta fannst mér hve mikla áherslu hún lagði á að fyrirgefa, passa sig á að vera ekki haldinn innibyrgðri reiði, það væri mjög slæmt. Ég er ekki reiður maður að öllum jafnaði. Hins vegar get ég ekki liðið að láta fólk komast upp með að traðka á öðrum og snýst þá til varnar þótt það kosti mig óþægindi. Þannig er mér í ætt skotið og get ekki annað.

Áður var skammast út af nafnlausum heimildarmönnum fjölmiðla sem fjölluðu um átökin í Menntaskólanum á Ísafirði. Núna, þegar kennari við skólann sem vel þekkir til mála skrifar undir nafni, er viðkomandi talinn aðal sökudólgurinn í þeim ófriði sem ríkt hefur um stjórnunarhætti skólameistarans. Eins og Ólína segir: ,,Allar þær nafnlausu rangfærslur og persónuárásir í fjölmiðlum fá á sig nafn og andlit í grein Hermanns Níelssonar.” Er nema von að fólk vilji ekki láta nafn síns getið þegar það leyfir sér að viðra skoðanir sínar um vinnuaðferðir og framkomu skólameistara Menntaskólans á Ísafirði.

Hermann Níelsson, íþróttakennari við Menntaskólann á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi