Grein

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir | 22.04.2005 | 13:29Ósannindin um málefni Menntaskólans á Ísafirði

Málefni Menntaskólans á Ísafirði hafa mjög verið til umræðu í fjölmiðlum að undanförnu – um of myndi einhver segja. Stór orð hafa fallið og digrar yfirlýsingar um stjórnunarhætti, stöðuveitingar, samskipti og fleira. Því miður hefur sú umræða öll einkennst meira af kappi en forsjá og margar rangfærslur verið hafðar í frammi sem æra myndi óstöðugan að elta allar uppi. Skólans vegna get ég þó ekki látið hjá líða að leiðrétta nokkur atriði sem fram hafa komið síðustu daga – um leið og ég harma það að þurfa þar með að eiga orðastað við einn af kennurum skólans í fjölmiðlum. Við því er þó ekkert að gera.

Í greinarskrifum Hermanns Níelssonar, íþróttakennara, sem birst hafa í BB og sunnudagsblaði Morgunblaðsins, eru hafðar í frammi fjölmargar fullyrðingar sem í besta falli eru villandi, í versta falli ósannindi. Að svo stöddu læt ég nægja að leiðrétta augljósustu rangfærslurnar í greinum Hermanns, en þær eru eftirfarandi:

(1) Að „minnst fimm stjórnsýslukvartanir hafi borist menntamálaráðuneytinu“ vegna stjórnarhátta í Menntaskólanum á Ísafirði. Hið rétta er að ein kvörtun hefur borist ráðuneytinu frá Félagi framhaldsskólakennara þar sem höfð eru uppi gífuryrði í garð undirritaðrar. Kvörtun þessi nær ekki máli sem stjórnsýslukæra, en þar er vísað til fimm starfsmannamála, þ.e. fyrirspurna sem starfsmenn skólans hafa beint til lögfræðings KÍ til þess að kanna réttindi sín. Flest eru málin útkljáð innan skólans og ekkert þeirra varðar samskiptahætti heldur er um að ræða stjórnunarákvarðanir sem hafa haft áhrif á starfsskilyrði viðkomandi kennara. Stjórn Skólameistarafélags Íslands hefur sérstaklega kynnt sér mál þessara fimm starfsmanna sem vísað er til og komist að þeirri niðurstöðu að þar hafi verið um mál að ræða sem hver einasti skólameistari hefði séð ástæðu til að taka á með sambærilegum hætti.

(2) Hermann fullyrðir í Morgunblaðinu, og segir alkunnugt, að einn af nústarfandi sviðsstjórum við skólann hafi ekki réttindi til að gegna stöðu sviðsstjóra „og ætti því að hafa verið sagt upp“. Þetta er rangt, allir nústarfandi sviðsstjórar skólans hafa kennsluréttindi í faggrein á sínu sviði.

(3) Í skrifum sínum rekur Hermann aðdraganda þess að sambýliskonu hans, Ingibjörgu Ingadóttur, var veitt áminning fyrir vanrækslu við yfirferð prófa í ENS 103, en hún hefur nú höfðað mál á hendur skólanum til ógildingar áminningunni. Fer Hermann þar með rangt mál, einkum varðandi leiðréttingar yfirstjórnenda og fjölda einkunna sem breytt var í fyrstu yfirferð. Er skemmst frá því að segja niðurstaða óháðs aðila sem fór yfir prófin kom heim og saman við niðurstöður stjórnenda, eins og koma mun á daginn þegar dómur er fallinn og málsögn verða birt.

(4) Því hefur verið haldið fram í tvígang af málsaðilum að við Menntaskólann á Ísafirði séu 15 réttindalausir kennarar að störfum og jafnmargir með réttindi yfirstandandi skólaár. Þetta er rangt. Í vetur eru 24 réttindakennarar ráðnir að skólanum í námskrárbundnum greinum en 11 án réttinda. Til samanburðar má nefna að haustið 2001, þegar undirrituð kom til starfa að skólanum voru 22 kennarar án réttinda í námskrárbundnum greinum en 10 með réttindi. Er velkomið að senda fjölmiðlum gögn þessu til staðfestingar verði þess óskað.

Því miður er það yfirleitt svo að sá sem rýfur friðinn, hann stjórnar umræðunni, eins og dæmin sanna. Það er athyglisvert að sjá í fyrrnefndri grein hvernig allar þær nafnlausu rangfærslur og persónuárásir sem hafa verið hafðar í frammi á undirritaða, einkum í DV, eru nú að fá á sig nafn og andlit í grein Hermanns Níelssonar. Ég harma það mjög, en veit jafnframt að Hermann talar ekki fyrir munn margra.

Yfirgnæfandi meirihluti kennara við Menntaskólann á Ísafirði fer með friði í samskiptum við yfirstjórn skólans og vill halda þann frið. Í sameiningu höfum við áorkað miklu á undanförnum árum. Okkur hefur tekist að auka aðsókn að skólanum um þriðjung, stórfjölga réttindakennurum, minnka brottfall nemenda og auka námsframboð. Ekki síst höfum við staðið vörð um gæði skólastarfs og náð markverðum árangri á því sviði. Þessum ávinningi er nú ógnað með þeirri niðurrifsumræðu sem staðið hefur eins og linnulaust hret á skólanum undanfarna tvo mánuði, til skaða fyrir alla hlutaðeigandi og ekki síst hið vestfirska samfélag sem á svo mikið undir því að þar sé haldið uppi öflugu og metnaðarfullu skólastarfi.

Umræða undanfarinna vikna hefur engu skilað til góðs, ekki fyrir málsaðila og síst af öllu fyrir skólann. Er mál að linni.

Ólína Þorvarðardóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi