Grein

Ásbjörn Björgvinsson.
Ásbjörn Björgvinsson.

Ásbjörn Björgvinsson | 19.04.2005 | 13:08Hvalveiðar hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna!

Vegna greinar Jóhanns Magnúsar Elíassonar í BB 13. apríl síðastliðinn vill undirritaður benda á eftirfarandi villur sem þar koma fram: Arctic Experience er stærsta einkarekna ferðaskrifstofan í Bretlandi sem sérhæfir sig í ferðum til Íslands (ekki regnhlífasamtök fyrirtækja á norðurslóðum eins og Jóhann fullyrðir). Fyrir liggur staðfesting frá fyrirtækinu að fækkun ferðamanna í sérstakar hvalaskoðunarferðir hafi verið 75% á milli áranna 2003 og 2004. Við höfum jafnfram upplýsingar um að fækkun hafi orðið hjá fleiri erlendum ferðaskrifstofum vegna hvalveiða hér við land.

Það er rangt hjá Jóhanni að Ferðamálaráð hefði getað nálgast upplýsingar um áhrif hvalveiða á ferðaþjónustunna á vefsíðum Ferðamálasamtaka Íslands og Samtökum ferðaþjónustunnar og þar með vikið sér undan því að afla upplýsinga með því að tala við forssvarsmenn Hvalaskoðunarsamtaka Íslands eða fyrirtækja sem selja ferðir í hvalaskoðun. (benda má á að Ferðamálasamtök Íslands eru, t.d. ekki með heimasíðu).

Jóhann vill vita hvaðan ég hafi þær upplýsingar að hvalaskoðun sé ein vinsælasta afþreying erlendra ferðamanna hér á landi. Ég vísa í gögn Ferðamálaráðs í því sambandi. Þar kemur fram að yfir sumartímann, júní til ágúst hafi u.þ.b. 37% erlendra ferðamanna farið í hvalaskoðun (ekki 20% eins og Jóhann heldur fram í grein sinni). Hvalaskoðun er reyndar stunduð frá apríl til október. Árið 2004 fóru ríflega 81.000 ferðamenn í hvalaskoðun hér við land, ekki 72.000 eins og Jóhann gefur upp.

Hvalaskoðunarsamtökin hafa ítrekað skorað á samgönguráðherra að láta fara fram hlutlausa úttekt á áhrifum hvalveiða á ferðaþjónustuna. Á ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs haustið 2003 var samþykkt ályktun þar sem skorað var á stjórnvöld að gerð verði ítarleg og fagleg úttekt á áhrifum hvalveiða á ferðaþjónustuna. Einungis einn þingfulltrúi greiddi atkvæði gegn tillögunni: Einar K. Guðfinnsson, formaður ráðsins og alþingismaður.

Mér sýnist enn að skýrsla Ferðamálaráðs snúist um að verja ákvörðun stjórnvalda um að halda áfram hvalveiðum og ákafan stuðning Einars K. Guðfinnssonar við þá ákvörðun.

Ásbjörn Björgvinsson, formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi