Grein

Óðinn Gestsson | 18.04.2005 | 09:31Samgönguáætlun veldur gífurlegum vonbrigðum

Það eru gífurleg vonbrigði að skera eigi niður framkvæmdir á Vestfjörðum um rúma 4 milljarða einsog virðist vera raunin ef skoðuð er samantekt Kristins H Gunnarssonar á bb.is nú fyrir nokkrum dögum. Reyndar er það svo í mínum huga, að það hlyti að koma að því að menn færu með niðuskurðahnífinn á loft og létu undan blæða, ef skoðaðar eru í samhengi aðrar aðgerðir ríkistjórnar Halldórs Ásgrímssonar undanfarið. Þar á ég við ákvarðanir sem teknar voru um skattalækkanir. Það lá fyrir frá upphafi að það þyrfti að skera niður á móti þeim skattalækkunum þannig að niðurskurðurinn sem slíkur átti ekki að koma neinum á óvart. Margsinnis hefur verið varað við skattalækkunum á þenslutímum og okkar helstu sérfræðingar eru sammála um að það hafi verið glapræði. Samt var það gert og almenningur virtist ekki mótmæla því af neinum krafti, að minnsta kosti ekki sama krafti og menn hafa lagt í mótmæli við hinni nýju samgönguáætlun.

Samkeppnisstaða Vestfjarða versnar

Hvaða hætta fylgir því fyrir almenning og fyrirtæki á Vestfjörðum, ef þessi áætlun nær fram að ganga óbreytt? Mesta hættan í mínum huga er að samkeppnishæfni svæðisins minnkar og var hún ekki burðug fyrir. Almenningur á Vestfjörðum gæti lesið þessi skilaboð stjórnmálamanna á þann hátt að segja; þeim er alveg sama um þetta svæði, látum þau bara basla áfram, þau hljóta að gefast upp að lokum. Séu það skilaboðin þá er tilganginum náð hjá ráðamönnum að skapa vonleysi og upplausn á svæðinu.

Þekki ég mitt fólk rétt mun það bregðast við á þann hátt að segja, hingað og ekki lengra, svæðið er langt á eftir hvað varðar samgöngur. Þá er átt við allar samgöngur. Ekki aðeins vegi. Þrátt fyrir að heilmikið hafi áunnist í þeim efnum, við viljum fá þá leiðréttingu sem okkur ber og við viljum fá samgöngur til jafns við aðra þegna þessa lands. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa þessa lands, sem að sitja við stjórnvölinn að skapa okkur þau skilyrði að við getum keppt við önnur lönd og svæði um val á búsetu og afkomu í víðri merkingu.

Samgönguráðherra hlustar ekki

Ég á hinsvegar ekki von á því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar muni hlusta á þessi rök. Hinsvegar ætla ég að vona að þingmenn geti haft vit fyrir þeim í þessu máli og geri þeim ljóst að það séu hagsmunir Íslands að samgöngur á Vestfjörðum séu í góðu lagi. Ég vil minna á að það styttist í kosningar og Norðvesturkjördæmi er kjördæmi samgönguráðherra. Ekki er víst að umboð hans til þingsetu verði endurnýjað ef fer sem horfir og ekki verði gerðar þær leiðréttingar á þessari áætlun. Leiðréttingar sem tryggja að Vestfirðir sitji við sama borð og aðrir landshlutar í samgöngumálum. Þetta er þreytandi barátta og til þess fallin að draga kjark úr fólki. Ef það er tilgangurinn stjórnvalda þá er þetta rétt aðferð og virkar væntanlega vel sem slík.

Vestfirsk fyrirtæki í samkeppni á heimsvísu

Stærstu fyrirtækin á Vestfjörðum eru í sjávarútvegi og eru þar af leiðandi í samkeppnisumhverfi sem nær til alls heimsins. Fyrirtækin selja vörur sínar til útflutnings og eru þar af leiðandi háð því að samgöngur séu í lagi. Það er órjúfanlegur hluti af framleiðslukeðjunni og verður ekki tekið út úr henni. Það eitt að sá kostnaður sem kemur á vöruna við að koma henni til útflutningshafnar geti í mörgum tilfellum numið allt að helming af kostnaði við að koma vörunni til kaupanda er með öllu óásættanlegt. Sífellt fleiri aðilar sem að flytja út vöru frá Íslandi segja við okkur sem rekum fyrirtækin hér á Vestfjörðum „þið komið vörunni til Reykjavíkur því það er svo dýrt að taka hana frá ykkur” en þetta er einmitt kjarni málsins. Leggurinn Vestfirðir- Reykjavík kostar allt of mikið og ekki mun hann sá kostnaður lækka ef lítið sem ekkert er gert í vegamálum. Þvert á móti mun hann hækka, vegna þess að þeir vegir sem að þessir flutningar fara fram á eru ekki byggðir fyrir þungaflutninga. Á þessum vegum eru sífelldar þungatakmarkanir, sem gera það að verkum að dýrara verður að reka þau flutningstæki sem til þarf.

Lélegir vegir-hærri flutningskostnaður

Við skulum taka dæmi af fyrirtæki sem er í flutningum til og frá Vestfjörðum í dag. Kostnaður á hvern ekinn km á leiðinni Vestfirðir-Reykjavík er um 170 kr á km. Ef þessu fyrirtæki er gert að minnka magnið í bílnum um 20% þá minnka þær tekjur sem að eru til þess að mæta kostnaðinum um 20%. Hvernig á að mæta þessum tekjumissi öðruvísi en að kaupandi þjónustunnar fái hærri reikning. Á þessu dæmi sést að mikilsvert er að þeir vegir sem við notum séu byggðir þannig að þeir beri þá flutninga sem fara þurfa um þá.

Það sést líka að ef hægt er að stytta leiðina til útflutningshafna um 70 km eins og verið er að tala um með þverun Mjóafjarðar og vegi um Arnkötludal þá þýðir það væntanlega lækkun á flutningskostnaði um c.a 10-15%. Er þá ónefnd Vesturleiðin, þar sem sennilega er raunhæfur möguleiki að koma vegalengdinni Ísafjörður- Reykjavík niður fyrir 400 km. Það er hægt að færa ótal rök fyrir því að það séu hagsmunir Íslands að vegir til Vestfjarða beri þá flutninga sem að um þá þurfa að fara.

Landflutningar raska samkeppnisstöðu landsbyggar

Fyrir nokkrum árum voru teknar ákvarðanir af þeim aðilum sem að flytja vörur til og frá landinu að fækka svokölluðum útflutningshöfnum. Í þeirra huga var hagkvæmara að safna vörum saman á einn stað eða tvo og flytja frá landinu þaðan. Það má til sannsvegar færa að það sé skynsamlegt að gera hlutina á þennan hátt, en fyrir hvern var þetta hagkvæmara? Var það fyrir fólkið og fyrirtækin sem eru vítt og breytt út um landið? Nei, það var hagkvæmara fyrir þá sem að bjuggu næst útskipunarhöfninni., Þeir nutu ávinningsins af breytingunni, þó svo að hagkvæmnin af breytingunni væri vegna vöru sem kom frá öðrum stöðum, ekki síður en þeirri vöru sem tilheyrði þeim sem næstir voru útskipunarhöfn.

Þessi eina aðgerð raskaði samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja vítt og breytt um landið gagnvart þeim sem að voru næst útskipunarhöfn. Mér finnst það ekki einkamál flutningafyrirtækja að geta tekið ákvarðanir sem þessar. Vítt og breytt um landið standa eftir ónotuð hafnamannvirki sem fáum nýtast sem byggð voru vegna krafna frá þessum sömu flutningafyrirtækjum. Í þessar framkvæmdir var ráðist til þess að gera flutninga hagkvæmari. Því er þarna um að ræða eilífðarhring, þar sem menn reyna að ná í skottið á sjálfum sér. Því ná þeir aldrei því að sýnin er ekki skýr. Í þessum efnum ráða skammtímahagsmunir einatt ferðinni. Það eru síðan notendur þjónustunnar sem að fá reikninginn og þurfa að borga allt bruðlið. Þessa þróun hafa stjórnvöld látið viðgangast án þess að bregðast við á nokkurn hátt þrátt fyrir ýmis tækifæri.

Sjóflutningar hefjist komi ekki nothæfir vegir

En greinilega þarf að halda vitleysunni áfram og við sem búum á Vestfjörðum þurfum að taka þátt í henni allri einsog aðrir landsmenn. Því er það krafa okkar sú, fyrst vilji er til þess að flytja allt á vegunum, að vegir séu með þeim hætti að þeir geti borið þessa flutninga, þannig að kostnaður fyrirtækja og almennigs verði viðunandi.

Á meðan verið er að koma samgöngumálum Vestfirðinga í það horf að viðunandi þykir, geri ég tillögu um að stjórnvöld hlutist til um að hefja rekstur á strandflutningum frá þeim höfnum (vítt og breytt um landið) sem ekki eru útflutningshafnir og geri fyrirtækjum kleyft að vera samkeppnisfær hvað varðar flutningskostnað.Með því nýta stjórnvöld fjárfestingar sínar vítt og breytt um landið öllum til hagsbóta og um leið taka þau hluta af þeim þungaflutningum sem eru á vegunum.

Um leið eru stjórnvöld að kaupa sér tíma til fjármögnunar á vegakerfinu sem að sönnu ber ekki þennan þunga. Það er ljóst að ekki gæti öll vara farið þannig því á tímum meiri hraða þurfa að vera til leiðir til þess að koma vöru fljótt á milli staða. Hins vegar væri þó valkostur því það er jú alltaf þannig að hluta af vöru þarf ekki að flytjast samdægurs á milli staða. Þessi leið væri örugglega hagkvæmari í það minnsta hvað þá vöru snertir sem færi þessa leið. Væntanlega yrði þó dýrara að flytja þá vöru sem þarf að komast á milli strax.

Nú kann einhver að segja að þetta sé afturhvarf til fortíðar. Vel má vera að svo sé. Vilji þeir aðilar sem flytja vöru til og frá landinu ekki nota þá aðstöðu sem fyrir er þá finnst mér allt í lagi að við gerum það þá bara sjálf og nýtum þannig þær fjárfestingar sem til staðar eru og við erum búin að fjárfesta í.

Óðinn Gestsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi