Grein

Hermann Níelsson | 15.04.2005 | 16:03Sannleikurinn um ósannindi

Mikið hefur verið rætt og ritað um dómsmál Ingibjargar Ingadóttur enskukennara gegn Ólínu Þorvarðardóttur f.h. Menntaskólans á Ísafirði. Málið er rekið til að fá áminningu hnekkt sem Ólína veitti Ingibjörgu fyrir ónákvæmni í yfirferð á jólaprófi í ENS 103 og að hafa gefið nemendum of háar einkunnir. Undirritaður hefur fylgst með málinu í návígi frá fyrstu hendi og átt að vissu leyti hlut að máli sem sambýlismaður Ingibjargar. Ekki verður lengur setið undir ósannindum sem fram hafa komið í umræðunni að mati undirritaðs.

Byrjum á yfirlýsingu stjórnenda „Hafa skal það sem sannara reynist" sem er að finna á heimasíðu Menntaskólans fvi.is. Stjórnendur fullyrða þar að milli stjórnenda og annarra starfsmanna ríki eðlilegir samskiptahættir. Þegar öll stjórn kennarafélags skólans segir af sér vegna yfirgangs og ofríkis skólameistarans hlýtur eitthvað að ganga á. Í afsagnarbréfi stjórnarmanna segir eftirfarandi: „Framkoma skólameistara undanfarna daga gagnvart kjörnum trúnaðarmönnum kennara skólans hefur verið ágeng, ógnandi og fjarri meðalhófi góðrar stjórnsýslu". Er það kannski það sem skólameistari telur eðlilega samskiptahætti? Að vísu lýsti skólameistari yfir að hún vissi ekki til þess að nokkur sá ágreiningur hafi verið uppi sem leitt gæti til afsagnar stjórnarmanna. Það sýnir að mínu áliti að skólameistari skeytir ekkert um viðhorf annarra starfsmanna skólans.

Í sömu yfirlýsingu skólastjórnenda segir einnig: „jafnframt lýsum við því yfir að engin stjórnsýslukæra hefur verið lögð fram". Upplýst hefur verið að minnst fimm stjórnsýslukvartanir hafi borist menntamálaráðuneytinu. Þar við bætist svo áðurnefnt dómsmál.

Stjórnendur halda því fram að bylting hafi orðið í atgerfissókn kennara að skólanum í tíð Ólínu Þorvarðardóttur sem skólameistara. „80% réttindakennarar nú en 20% áður" sem eftir athugasemd fyrrverandi kennara breyttist eins og hendi væri veifað í 70% og 30%. Þær tölur eru þó enn fjarri sanni. Í grein fyrrverandi kennara í DV og á bb.is kom fram að fjöldi réttindakennara síðasta vorið hjá Birni Teitssyni hefði verið 12 og án réttinda 6 eða 60% með kennsluréttindi og 40% án réttinda. Nú á vorönn 2005 eru 15 kennarar með kennsluréttindi og 15 án réttinda sem verða 50% hjá hvorum hópi. Stjórnendur hafa þrátt fyrir þetta ekki séð ástæðu til að birta gögn að baki sínum upplýsingum. Auðvitað bendir það sterklega til þess að þeir hafi ekki farið með réttar tölur í þessum efnum. Er það ekki siðferðilega ámælisvert af stjórnendum skólans að láta frá sér fara augljóslega rangar tölur um þessi efni?

Guðjón Ólafsson fyrrverandi enskukennari við MÍ var valinn af Ólínu sem hlutlaus aðili til að fara yfir prófúrlausnir í ENS 103. Guðjón hafði á starfstíma sínum við MÍ samið það próf sem Ingibjörg lagði fyrir nemendur. Guðjón studdist við sinn eigin leiðréttingarstuðul við sína yfirferð en hann ræddi ekkert við Ingibjörgu um forsendur hennar fyrir einkunnagjöf.

Í greinargerð Guðjóns gerir hann athugasemdir við yfirferð 15 prófúrlausna og einkunnadreifingin verður meiri en hjá Ingibjörgu. Enginn nemandi var þó nálægt því að falla í áfanganum. Rifjum nú upp að skólameistari og aðstoðarskólameistari breyttu 9 einkunnum eftir þeirra yfirferð í desember. Guðjón segir í skýrslu sinni sem lögð hefur verið fram í Héraðsdómi Vestfjarða að misræmis hafi gætt í yfirferð hjá skólameistara og aðstoðarskólameistara milli prófúrlausna og villur verið í yfirferð þeirra. Ef við rifjum einnig upp ástæðuna fyrir áminningunni sem Ólína veitti Ingibjörgu þá var það fyrir samskonar ónákvæmni og misræmi og skólameistari og aðstoðarskólameistari gerðu sig sek um, þó í minna mæli væri.

Auk þess er auðvelt að sanna og sýna fram á að 2 einkunnir af 9 sem þau breyttu hjá nemendum Ingibjargar voru rangt reiknaðar með tilliti til 60% prófseinkunnar og 40% vetrareinkunnar. Nemendur sitja uppi með rangar tölur á skírteinum sínum. Eru þetta ekki ámælisverð vinnubrögð?

Hvað segja nemendur Ingibjargar?

Nemendur í ENS 203, þeir sömu og voru í 103 fyrir jól, svöruðu kennslukönnun 4. og 5. apríl s.l. sem trúnaðarmaður kennara fór yfir. Hver kennari mætti vera hreykinn af því mati nemenda sinna sem þar kemur fram. Sem dæmi í 18 manna bekk í ENS 203 svöruðu nemendur spurningunni: „Hvernig myndir þú lýsa Ingibjörgu Ingadóttur sem enskukennara"? Mjög góð, 15 stig, - Góð 3 stig - Hvorki góð né slæm 0 stig - Léleg 0 stig - Mjög léleg 0 stig. Svipuð útkoma var hjá öðrum bekkjum.

Ingibjörg er af nemendum talin góður enskukennari, öfugt við það sem Ólína hefur haldið fram og fram kemur í skýrslu hennar fyrir Héraðsdómi.

Með bréfi dagsettu 23. febrúar 2005, hálfum mánuði eftir að Ingibjörg stefndi Menntaskólanum á Ísafirði vegna áminningarinnar, er Ingibjörgu sagt upp stöðu sviðsstjóra í erlendum málum. Það var gert á þeirri forsendu eins og segir í uppsagnarbréfinu: „Í ljós hefur komið nýlega að þú uppfyllir ekki skilyrði..." ákveðinna lagagreina um kennsluréttindi í ensku.

Hvernig getur ábyrgur skólameistari ráðið starfsmann í tvígang 2002 og 2004 til sviðsstjórastarfa án þess að vita hvaða menntun viðkomandi kennari hefur? Slíkt er ámælisvert. Ingibjörg er með BA próf í hótel- og ferðamálafræðum og kennsluréttindi frá KHÍ. Á starfsmannafundi í áheyrn allra starfsmanna skólans fullyrti Ólína aðspurð, að hún hefði ekki vitað að Ingibjörg starfaði án réttinda sem enskukennari. Er það trúverðugt? Ingibjörg á hins vegar aðeins eftir 30 einingar til BA prófs í ensku.

Ólína hélt ræðu á starfsmannafundi nýlega og lagði út af hugtökunum heiðarleiki, traust og kurteisi. Sagði það lágmarks kurteisi starfsmanna að bjóða góðan daginn þegar mætt væri til vinnu. Einhver hefði nú talið óþarft að halda langar tölur á starfsmannafundum í framhaldsskóla um svo sjálfsagða mannasiði. Hún sjálf hefur þó ekki heilsað Ingibjörgu og sjaldan tekið undir kveðjur hennar síðan stefnan var birt. Aftur á móti hefur hún orðið uppvís að því ítrekað í vitna viðurvist að nafngreina þá sem staðið hafa við hlið Ingibjargar um leið og hún bauð þeim góðan daginn án þess að yrða á Ingibjörgu. Hvernig á að flokka slíka „kurteisi"?

Í sjónvarpsviðtali á RÚV hótaði Ólína Félagi framhaldsskólakennara lögsókn vegna ummæla Elnu Katrínar Jónsdóttur f.v. formanns í kvörtunarbréfi til menntamálaráðuneytisins. Þar kom fram að fimm kennarar við MÍ hefðu orðið fyrir barðinu á „ógnarstjórn" skólameistarans. Í bréfinu stóð m.a. „Gögn sem afhent hafa verið ráðuneytinu sýna svo ekki verður um villst að hrein ógnarstjórn ríkir í samskiptum skólameistarans við kennarana".

Í sjónvarpsviðtalinu gaf hún stjórn KÍ viku frest til að biðja sig afsökunar á ummælunum, að öðrum kosti íhugaði hún málssókn á hendur FF. Síðar framlengdi hún frestinn um þrjá daga en ekkert bólar á lögsókninni.

Í öðru viðtali á Stöð 2 „Ísland í bítið" baðst Ólína „griða" af hálfu fjölmiðla því nóg væri komið af fjölmiðlaumfjöllun um málefni Menntaskólans á Ísafirði. Óskaði eftir því að fá frið til að leysa málin í rólegheitum innan skólans. Nú hefur hún sjálf haft samband við fjölmiðla til að koma sínum málflutningi á framfæri við þjóðina og brotið eigin griðaboðskap. Í stað þess að vinna af heilindum við að koma málum í eðlilegt horf beitir skólameistari að mínu mati fáfengilegum vinnubrögðum stjórnmálamanns í einhvers konar árróðursstríði. Eru það heiðarleg vinnubrögð?

Í sama þætti talaði Ólína um að átökin við kennara sína væru eins og „taumaskak" við tamningar á góðhestum svo spyrja má hvort MÍ sé hesthús. Hvar er virðingin fyrir starfsmönnum skólans?

Með samstöðu fyrir baráttu verkamannsins til að ná rétti sínum og starfsvirðingu,
Hermann Níelsson,
kennari við Menntaskólann á Ísafirði.


E.s. Undirritaður hefur kennt við Menntaskólann á Ísafirði s.l. 5 vetur með ágætum árangri að eigin mati og vonandi fleiri. Ég reikna með að sinna áfram starfi sínu af kostgæfni nema þessi skrif verði til þess að mér verði veitt áminning sem síðar gæti svo leitt til uppsagnar. Menntaskólinn á Ísafirði er frábær skóli, nemendur meiriháttar og kennarar mjög góðir. Telst það eðlilegt að skólameistari eigi í erjum við nemendur og kennara?


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi