Grein

Jóhann Magnús Elíasson | 13.04.2005 | 09:38Hafa hvalveiðar áhrif á ferðaþjónustuna?

Eftir að hafa lesið grein Ásbjörns Björgvinssonar í Morgunblaðinu sjöunda apríl sl. blöskraði mér alveg, því greinin er full af rangfærslum, órökstuddum fullyrðingum og ósannindum. Hér á eftir á eftir mun ég taka greinina hans Ásbjarnar fyrir lið fyrir lið og benda á þær rangtúlkanir og ósannindi sem hann hefur í frammi.

Hann talar um skýrslu, sem Ferðamálaráð vann fyrir samgöngumálaráðherra, um áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu á Íslandi. Niðurstaða skýrslunnar var sú að hvalveiðar hefðu engin áhrif á ímynd Íslands. Þessi niðurstaða var sko formanni Hvalaskoðunarsamtaka Íslands ekki að skapi og greip hann til þess að gera eins og litlu krakkarnir að segja bara að það sé ekkert að marka þessa niðurstöðu, aðallega fyrir það að formaður Ferðamálaráðs sé einarður fylgismaður hvalveiða og þar af leiðandi geri starfsmenn Ferðamálaráðs það sem honum sé þóknanlegt. Þessi málflutningur er að mínu mati ákaflega dapurlegur og segir meira um þann sem þau viðhefur heldur en þá sem þau eru um, þarna brigslar hann starfsmönnum heillar stofnunar um að vinna af óheilindum og þætti mér það vera algjört lágmark, að hann bæði, þessa starfsmenn, afsökunar á þessum ummælum sínum. Hann nefnir einnig að þeir sem unnu skýrsluna, hafi ekki haft fyrir því að leita eftir gögnum hjá Samtökum ferðaþjónustunnar eða Ferðamálasamtökum Íslands. Í því sambandi vil ég minna formann Hvalaskoðunarsamtaka Íslands á að bæði þessi samtök halda úti vefsíðum og þar er hægt að nálgast allar upplýsingar sem á þarf að halda, hvenær sem er. Hann kvartar yfir því að Ferðamálaráð hafi ekki leitað eftir áliti Hvalaskoðunarsamtaka Íslands. Þetta þykir mér vera ósköp eðlilegt og hefði verið í hæsta máta óeðlilegt að fá álit frá þessum samtökum því það hefði stofnað hlutleysi og trúverðugleika skýrslunnar í voða og jafnvel hefði þetta getað „litað“ niðurstöðuna og hvaðan hefur Ásbjörn Björgvinsson þær upplýsingar að hvalaskoðanir séu ein vinsælasta afþreying erlendra ferðamanna á Íslandi? Þess skal getið að hingað til lands komu árið 2004, 350.340 erlendir ferðamen og af þeim fóru 72.200 í hvalaskoðunarferðir, en þetta eru 20,6086% þeirra erlendu ferðamanna sem komu til landsins í fyrra (skv. gögnum frá Ferðamálaráði Íslands).

Ásbjörn nefnir að skv. gögnum frá „Arctic Experience“ (sem eru regnhlífarsamtök fyrirtækja á norðurslóðum í hvalaskoðunar- og öðrum ævintýraferðum) hafi orðið 75% fækkun á „sérstökum“ hvalaskoðunarferðum til Íslands á milli áranna 2003 og 2004. Rétt er að árið 2003 fóru 70.000 manns í hvalaskoðunarferðir en 72.200 manns fóru í samskonar ferðir á árinu 2004. Ef þetta er 75% fækkun þá heiti ég Geirþrúður.

Ásbjörn segir að á undanförnum árum hafi nokkur þúsund ferðamenn komið til landsins eingöngu til að fara í hvalaskoðunarferðir, ímynd landsins hafi stórversnað hjá þessu fólki og beint tjón vegna hvalveiða sé tilfinnanlegt. Enn einu sinni er Ásbjörn Björgvinsson með rakalausar fullyrðingar, því satt að segja hefur ekki tekist að finna nein gögn sem styðja þessar fullyrðingar hans og er það eiginlega lágmarkskrafa að samtök sem vilja láta taka sig alvarlega notist ekki við órökstuddar fullyrðingar og ósannindi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi