Grein

Gísli Hjartarson | 10.04.2005 | 20:22Góður kall Össur Skarphéðinsson

Ég kynntist Össuri Skarphéðinssyni fyrst fyrir rúmum þrjátíu árum þegar hann stundaði sjómennsku á togbátum hér vestra nokkur sumur á menntaskólaárunum. Þá vorum við báðir ungir menn og hjörtu okkar slógu nokkuð langt til vinstri. Vináttuböndin hafa ekki slitnað síðan. Þetta var fyrir skuttogaravæðingu íslenska fiskiskipaflotans og síldarævintýrunum lokið. Gömlu 200 – 300 tonna síldarbátarnir á Vestfjörðum stunduðu flestir veiðar með síðutrolli á þessum árum.

Minnstu munaði þó að íslenskir jafnaðarmenn væru sviptir framtíðarforingja sínum þegar Össur tók út af Kofra ÍS 41 frá Súðavík er brotsjór reið yfir skipið í haugabrælu úti á Hala þegar verið var að taka trollið. Með snarræði skipverja náðist drengurinn inn aftur. Þá var foringinn aðeins sautján ára gamall. Skipstjóri á Kofranum var kempan og jafnaðarmaðurinn Jóhann R. Símonarson, mikill aflamaður og farsæll stjórnandi. Hér vestra var Össur einnig á togveiðum með Högna heitnum Jónassyni á Guðrúnu Guðleifsdóttur ÍS 102 frá Hnífsdal og með Geira Bjartar á Guðbjörgu ÍS 47 frá Ísafirði, þeirri austurþýsku 250 tonna, bláu Guggunni. Seinna var hann á Jökli ÞH og Heimi SU á síld í Norðursjónum. Ekki heyrði ég annað á skipsfélögum þessa unga manns en að hann væri röskur til vinnu og góður félagi. Össur hefur sagt mér að sjómennska sín fyrir vestan með harðsæknum skipstjórum og afburða aflamönnum hefði verið harðasti og besti skóli sem hann hafi gengið í um ævina.

Eftir stúdentspróf kenndu þau Össur og Árný eiginkona hans einn vetur, 1973-1974, við Gagnfræðaskólann á Ísafirði. Til þess að tengja formann Samfylkingarinnar enn frekar við Vestfirði leyfi ég mér að geta þess að Skarphéðinn faðir hans var fæddur í Bolungarvík. En hans faðir, og afi Össurar, var frá Skálará í Keldudal yst í Dýrafirði. Sá hét Össur Kristjánsson og var þekktur hleðslumaður á Vestfjörðum. Standa enn eftir hann leifar veggja í Bolungarvík og hestarétt fyrir ofan bæinn. Össur hefur oft sagt mér eftir að hann var kjörinn á þing 1991 að vegna tengsla hingað vestur, bæði ættartengslanna og sjómennskunnar forðum, hafi hann oft langað til að verða þingmaður Vestfirðinga frekar en Reykvíkinga. Kannski það geti orðið síðar – hver veit? Til þess segi ég að hann verði að vera formaður flokksins áfram, því Vestfirðingum er ekki bjóðandi upp á neitt minna en formann Samfylkingarinnar í framboð – engan fallkandídat. Össur gæti örugglega snúið stöðunni við í Norðvesturkjördæmi fyrir Samfylkinguna, en í því er Samfylkingin með lakasta fylgi sitt á landsvísu. Honum tókst a.m.k. að verða fyrsti þingmaður Reykjavíkur norður í síðustu alþingiskosningum. Það sæti hafði íhaldið alltaf átt fram að því.

Fylking jafnaðarmanna var mynduð á Íslandi árið 1916 þegar Alþýðuflokkurinn var stofnaður. Árið 1930 klofnaði hreyfingin og svo aftur og aftur nánast alla öldina. Gerðar hafa verið margar tilraunir að sameina alla jafnaðarmenn í einn stjórnmálaflokk hliðstæðan jafnaðarmannaflokkunum stóru á Norðurlöndum. Loks hefur draumurinn um alla jafnaðarmenn í einum flokki ræst. Hann rættist með stofnun Samfylkingarinnar sem hlaut 32% atkvæða í síðustu kosningum og 20 þingmenn.

En það er okkur vinstri mönnum víst áskapað að tortíma okkur sjálfir með innanflokksátökum að óþörfu. Það speglast í átökum formanns og varaformanns um hvort þeirra eigi að verða formaður. Ég er viss um að þessi átök eru ástæða þess að flokkurinn hefur dalað um 3% í fylgi samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum. Við jafnaðarmenn höfum annað við tímann að gera en berja hver á öðrum. Betra hefði verið að bíða með formannskjör enn um sinn og leyfa flokknum að þroskast áfram undir stjórn öflugs formanns, Össurar Skarphéðinssonar.

Össur hefur verið formaður Samfylkingarinnar frá stofnun flokksins eða síðan í maí 2000. Honum hefur farist það verkefni vel úr hendi. Það er ekki viturlegt að skipta um hest í miðri á. Ég vil að “gamli jálkurinn” fái að halda áfram enn um sinn. Össur er öflugur leiðtogi. Hann hrífur fólk af því hann hefur áhuga á kjörum þess, og hefur meira gaman af því að tala við kallana í skúrunum en fyrirmenn og forstjóra. Hann talar meira um kjör aldraðra og landsbyggðina en blessað lýðræðið og samræðustjórnmálin sem andstæðingar hans í Samfylkingunni telja að sé það sem helst skorti fyrir fólkið í landinu. Og það rennur í honum blóðið. Hann er tilfinningastjórnmálamaður, einlægur og hreinskilinn, hjartahlýr, glaðlyndur, opinn, velviljaður og góðgjarn maður. Manngerð sem við Vestfirðingar köllum „góður kall“.

Í okkar flokki er bara venjulegt fólk sem gerir mistök, alveg einsog Ingibjörg Sólrún þegar hún tók ákvörðun um að fara í þingframboð þvert ofan í það sem hún hafði sagt á kosninganótt árinu fyrr, og alveg einsog Össuri varð á þegar hann barði á Baugsfeðgum með frægum ummælum sem hann bað svo afsökunar á.

Össur og Ingibjörg Sólrún standa alveg fyrir sínu bæði tvö án þess að við gerum þau og okkur sjálf að fíflum með því að búa til úr þeim kónga eða drottningar. Við viljum ekki breyta flokknum okkar í hreyfingu sem byggist á persónudýrkun.

Vestfirskir jafnaðarmenn! Styðjum Össur til áframhaldandi forystu! Hver veit nema hann rífi upp fylgið í okkar kjördæmi í næstu kosningum og verði 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis!

Höfundur er fv. ritstjóri Skutuls, málgagns jafnaðarmanna á Vestfjörðum, og flokkstjórnarmaður í Samfylkingunni.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi