Grein

Halldór Halldórsson | 07.04.2005 | 15:13Fjármagn til vegamála, væntingar íbúa

Samgönguráðherra hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2005-2008. Þar er gert ráð fyrir að setja 60 milljarða til vegamála á tímabilinu með meginþunga á árunum 2007 og 2008 vegna stefnu ríkisstjórnarinnar að draga úr opinberum framkvæmdum á meðan framkvæmdir standa sem hæst á Austurlandi. Því miður er þessi samgönguáætlun langt frá því að uppfylla væntingar og kröfur íbúa á Vestfjörðum því fjármagn til að ljúka vegalagningu á ásættanlegum tíma er of lítið. Hér verður fyrst og fremst fjallað um norðanverða Vestfirði og Strandir enda höfum við sem búum á þessum svæðum gert okkur væntingar um að hægt væri að ljúka vegalagningu um Ísafjarðardjúp og Arnkötludal á næstu fjórum árum. Það er líka vel hægt sé vilji til þess að leggja aukna áherslu á þá vegagerð við endanlega ákvörðun um forgangsröðun í samgönguáætlun.

Samþykktir sveitarfélaga á Vestfjörðum

Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga árið 1997 samþykktu sveitarfélög á Vestfjörðum þá stefnu í samgöngumálum að ljúka vegagerð um Ísafjarðardjúp og um Arnkötludal milli Stranda og Reykhólahrepps inn á þjóðveg nr. 1. Í sömu samþykkt er kveðið á um að ljúka vegagerð í Barðastrandasýslu inn á þjóðveg nr. 1 og í framhaldi af því að opna heilsársleið milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða með göngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Var þessi samþykkt staðfest að nýju á Fjórðungsþingi 2004 með ákveðnum breytingum eins og að jarðgöng yrðu milli Dýrafjarðar og Vatnsfjarðar í Barðastrandasýslu ekki einungis milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Núgildandi jarðgangaáætlun gerir reyndar aðeins ráð fyrir göngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar en mun við endurskoðun vonandi taka mið af samþykkt Fjórðungsþings 2004.

Ástand vega í Ísafjarðardjúpi og á Ströndum

Í vegaáætlun mál lesa að 1,6 milljarðar eru ætlaðir í að ljúka vegalagningu um Ísafjarðardjúp og hefja lagningu vegar um Arnkötludal á þessu tímabili. Þetta er mikið fjármagn en verkið er líka stórt og má í raun ekki bíða svo lengi sem vegaáætlun gerir ráð fyrir. Ástæðan er sú að næstum allir þungaflutningar fara um þjóðvegina í dag og þess vegna er malarkaflinn sem eftir er í Ísafjarðardjúpi og á Ströndum orðinn flöskuháls á þessari leið, þetta eru handónýtir malarvegir miðað við notkun. Algengt er að þungatakmarkanir séu á þessum leiðum og þar af leiðandi verður flutningskostnaður mjög hár. Eigi að aka þessa vegi í fjögur til sex ár í viðbót hvort sem það er á Ströndum eða í Ísafjarðardjúpi þarf að fara í kostnaðarsamt viðhald á þeim sem hægt er að losna við ef fjármagn verður aukið í leiðina um Djúp og Arnkötludal.

Hagkvæm framkvæmd sem nýtist mörgum

Á norðanverðum Vestfjörðum búa um 5.500 manns sem nota leiðina um Ísafjarðardjúp og Strandir enda er það heilsársleiðin inn á þjóðveg nr. 1. Með lagningu vegar um Arnkötludal styttist sú leið um rúma 40 km. og nýtist um 1.000 íbúum á Ströndum til viðbótar sem styttri leið inn á þjóðveg nr. 1 og einnig sem tenging milli byggða á Ströndum og í Reykhólasveit og Dölum. Mér er til efa að nokkur samgönguframkvæmd eins og að ljúka við veginn um Ísafjarðardjúp og lagning vegar um Arnkötludal nýtist jafnmörgum með jafnhagkvæmum hætti og þessi framkvæmd. Það er skiljanlegt að ríkisstjórnin hafi þá stefnu að halda aftur af þenslu með samdrætti í opinberum framkvæmdum. Þenslan er þó ekki til vandræða hér á Vestfjörðum, það er á öðrum svæðum sem hún á sér stað.

Samþykkt sveitarstjórna á norðanverðum Vestfjörðum

Sveitarstjórnir á norðanverðum Vestfjörðum komu saman til fundar 31. mars sl. og samþykktu: „Sveitarstjórnir á norðanverðum Vestfjörðum leggja þunga áherslu á að tryggt verði nægilegt fjármagn til að vinna áfram við að ljúka framkvæmdum í Ísafjarðardjúpi ásamt því að stytta núverandi leið inn á þjóðveg númer eitt með vegi um Arnkötludal. Ljóst er að veruleg arðsemi er af styttingu leiðarinnar, sem yrði aðaltenging svæðisins við þjóðveg númer eitt og jafnframt mikilvægt hagsmunamál íbúa svæðisins, fyrirtækja og ferðafólks. Stefnt verði að því að fyrrnefndum framkvæmdum verði lokið á árinu 2008.”

Forgangsröðun

Á undanförnum árum hafa orðið stórstígar framfarir í samgöngumálum á Vestfjörðum, víða má sjá nýja vegarkafla með bundnu slitlagi sem gerir ökuferð um Vestfirði auðveldari en áður var. Enn eru þó eftir malarkaflar sem eru næstum óbreyttir síðan þeir voru lagðir fyrir 30-40 árum. Lok framkvæmda í Djúpi með brú yfir Mjóafjörð styttir vetrarleiðina um rúma 30 km. og Arnkötludalsvegur heilsársleiðina um rúma 40 km. Það munar um minna en 70 km. í styttingu leiðar. Það hefur áhrif á ferðahraða, flutningskostnað og gerir svæðið samkeppnishæfara. Það er tækifæri til þess í nýrri samgönguáætlun að láta verkin tala hvað vegamál á Vestfjörðum varðar. Ég er þess fullviss að um það ríkir sátt meðal flestra Íslendinga að leggja meiri áherslu á vegamálin hér fyrir vestan og forgangsraða öðruvísi en gert er í annars ágætri samgönguáætlun ráðherra.

Samgönguráðherra, ríkisstjórn og Alþingi. Endurskoðið forgangsröðun vegamála og sýnið okkur í endanlegri samgönguáætlun að vegi um Ísafjarðardjúp og Arnkötludal verði lokið á árinu 2008.
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi