Grein

Eggert Stefánsson.
Eggert Stefánsson.

| 14.09.2001 | 15:11Samgöngur á Vestfjörðum

Fyrir nokkru birtist í BB útdráttur úr skýrslu Samgöngunefndar Ísafjarðarbæjar, 5 manna nefndar sem bæjaryfirvöld skipuðu í vetur. Samkvæmt BB koma í skýrslunni fram stórhuga og róttækar hugmyndir í samgöngumálum. Þar segir meðal annars: „Samgöngunefnd Ísafjarðarbæjar mælir með því að öllum nýframkvæmdum í vegamálum á Vestfjörðum verði flýtt um tvö ár í ljósi aukinna krafna um bættar samgöngur.“ Ennfremur: „Nefndin vill að framkvæmdir við jarðgöng á leiðinni milli Dýrafjarðar og Barðastrandar hefjist innan þriggja ára en jarðgangagerð milli Engidals í Skutulsfirði og Álftafjarðar verði hafin eftir fimm ár.“
Í inngangi skýrslunnar segir m.a. samkvæmt BB: „Nefndin telur farsælt að tekið verði upp nýtt hugtak í vegasamgöngum á Vestfjörðum með því að vinna af kappi að heilsárshringtengingu um Vestfirði sem tengi saman allar byggðir fjórðungsins og kallist Vestfjarðahringurinn.“

Undirritaður leyfir sér að taka heilshugar undir þetta. Vissulega hefur margt áunnist í vegamálum fjórðungsins og er það þakkarvert. Má þar nefna t.d. nú síðustu árin Djúpveg, kafla í Skötufirði og Mjóafirði og nú síðast í Ísafirði. Einnig er unnið að lagfæringum á veginum í Kollafirði í Strandasýslu. Meira er fyrirhugað, t.d. kafli í Skötufirði, sem skv. heimasíðu Vegagerðarinnar á að bjóða út á þessu ári. Eitthvað lengra virðist svo í þverun Mjóafjarðar og uppbyggingu vegar í tengslum við hana um Vatnsfjörð, Reykjarfjörð og Ísafjörð.

Sl. vetur var leiðin Ísafjörður – Hólmavík mokuð 6 daga vikunnar. Það er því að mínu áliti komið allvel á veg að gera vegasamgöngur milli þeirra staða og svæða viðunandi, þó vissulega megi enn bæta.

Öðru máli gegnir um leiðina milli Ísafjarðar- og Patreksfjarðarsvæða.

Þar stöndum við enn í sömu sporum og fyrir rúmlega 40 árum, þegar vegurinn um Dynjandisheiði opnaðist. Þar hefur, nánar tiltekið á kaflanum Dýrafjörður – Vatnsfjörður, nánast ekkert batnað hvað varðar vetrarsamgöngur og lítið almennt. Þessi leið hefur ekki verið á mokstursáætlun og því oftast ófær stóran hluta vetrar í venjulegu árferði – þar til sl. haust.

Þá gerðust þau undur og stórmerki að Vegagerðin gaf út: Mokað tvo daga í viku vor og haust, háð snjóalögum. Vissulega er það til bóta. Það er ekki út í bláinn, að sumir hafa kallað þennan kafla „friðaða kaflann“! En nú hillir líklega undir betri tíð. Í jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og vegabótum á Dynjandisheiði eftir hátt í 10 ár, ef ég skil það rétt. Nú leggur svo Samgöngunefnd Ísafjarðarbæjar til, að jarðgangagerð þarna hefjist innan þriggja ára.

Sannarlega er ástæða til að fagna svo róttækum tillögum. Okkur veitir ekki af, Vestfirðingum, að standa saman að uppbyggingu fjórðungsins. Eitt af því sem auðveldar hvað mest samskipti og samstöðu fólks eru góðar samgöngur. Samskipti milli fólks á Patreksfjarðar- og Ísafjarðarsvæðum hafa verið og eru miklu minni en þau gætu verið, miðað við fjarlægð á milli svæðanna. Þetta er skiljanlegt þegar vegasamband er ekkert talsverðan hluta árs. Við sáum hvað gerðist beggja vegna Botns- og Breiðadalsheiða þegar jarðgöngin undir þær opnuðust. Öll samskipti fólks jukust gífurlega. Það sama mun örugglega gerast annars staðar.

Vonandi fá þessar tillögur Samgöngunefndar jákvæðar undirtektir bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og annarra þeirra sem um þær munu fjalla. Þar með taldir fulltrúar á aukaþingi Fjórðungssambandsins sem boðað er til fyrir lok október um samgöngumál.

– Eggert Stefánsson
Ísafirði.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi