Grein

Magnús Þór Hafsteinsson | 04.04.2005 | 10:45Mengunin sem aldrei var rannsökuð?

Nú laust fyrir páska fékk ég skriflegt svar við fyrirspurn minni til sjávarútvegsráðherra um haf-, fiski- og rækjurannsóknir í Arnarfirði. Spurningarnar sem ég beindi til ráðherra voru eftirfarandi: 1. Hver hefur verið árlegur heildarkostnaður við haf-, fiski- og rækjurannsóknir í Arnarfirði síðan árið 1999, reiknað til núvirðis? 2. Hve miklum fjárhæðum hyggjast stjórnvöld verja til slíkra rannsókna í Arnarfirði á þessu ári? 3. Liggja fyrir áætlanir um að auka rannsóknir í firðinum og ef svo er, hvaða rannsóknir eru það, sundurliðað eftir verkefnum, og hvernig verða þær fjármagnaðar?

Skrýtnar tölur

Svar ráðherra í heild sinni má lesa á vef Alþingis, þingskjal númer 1023 – 609. mál. Tvennt vekur þar athygli mína, sem mig langar til að víkja nánar að í þessu greinarkorni. Fyrir það fyrsta er hlægilega lágum upphæðum að jafnaði varið árlega til rannsókna í Arnarfirði. Flest árin einungis eitthvað á milli þremur og sex milljónum, nær allt til að telja rækjur í firðinum. Undantekningin er í ár, en þá er fyrirhugað að fara af stað með söfnun á þorski og ýsu í kvíar til áframeldis og veita til þess nálega 12 milljónum.

Hitt sem fær mig til að staldra alvarlega við er að einungis 545 þúsund krónum hefur verið veitt til mengunarsýnatöku í firðinum. 105 þúsund krónum árið 2001 og 440 þúsund krónum árið 2002. Þetta eru skrýtnar tölur.

Dularfull þungmálmsmengun

Málið er nefnilega að í desember árið 2001 voru veiðar á hörpudiski bannaðar í Arnarfirði. Ástæðan var sú að nokkrar prufur sem teknar voru höfðu sýnt að of mikið af þungmálminum kadmín mældist í holdi hörpudisksins. Var hann því talinn óhæfur til manneldis samkvæmt alþjóðlegum stöðlum þótt gildin væru reyndar lág. Þessi kadmínmengun, ef svo má kalla, kom flestum ef ekki öllum í opna skjöldu því ekki var vitað um neitt sem gæti valdið slíkri mengun af mannavöldum. Reyndar kom fljótlega í ljós það álit sérfræðinga að hér væri um að ræða mengun af náttúrulegum orsökum.

Þungmálmar finnast að sjálfsögðu í náttúrunni og einhverra hluta vegna þá mælist óvenjumikið af kadmín í Arnarfirði, sem er einn af stærstu fjörðum Vestfjarða. Mál þetta vakti með öðrum orðum verulega athygli á sínum tíma. Hætta varð við áform um veiðar og vinnslu hörpudisks á Bíldudal. Áætlað hafði verið að þessi vinnsla mundi skila átta störfum, tvo til þrjá mánuði á ári og tekjum inn í bæjarfélagið upp á 25--30 millj. kr. Þetta var því nokkurt högg fyrir þorpið og líka bagalegt að því leyti að segja má að þetta hafi skaðað ímynd fjarðarins, Arnarfjarðar, þeirrar miklu matarkistu um aldir. Í framhaldi af þessu fóru menn t.d. að setja spurningarmerki við rækjustofninn í firðinum og varð nokkur umræða út af því. Í fyrra dundi svo enn eitt áfallið yfir. Það kom í ljós að magn kadmíns var yfir leyfilegum mörkum í holdi kræklings sem alinn var í firðinum. Af þeim sökum varð að hætta tilraunaeldi á krækling þar, þó það lofaði mjög góðu og hefði getað orðið lyftistöng fyrir atvinnulíf í Bíldudal.

Siv fyrir svörum

Haustið 2003 beindi ég eftirfarandi fyrirspurn á Alþingi til Sivjar Friðleifsdóttur sem þá var umhverfisráðherra; - hvaða rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna ástæður og útbreiðslu kadmínmengunar í Arnarfirði? Hyggst ráðuneytið beita sér fyrir frekari rannsóknum á þessari mengun?

Ekki stóð á svörum hjá ráðherra. Hún sagði meðal annars: "Fram hafa komið tillögur að rannsóknarverkefnum sem hafa að markmiði að leita að uppsprettum þessa kadmíns og svara spurningunni um orsakir hins háa styrks. Sótti sérfræðingur hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins um styrk á liðnu ári til slíkrar rannsóknar undir heitinu ,,Upptaka ólífrænna snefilefna í lífverum við Norðvesturland``. Markmið verkefnisins er m.a. að rannsaka sérstöðu norðvesturmiða með tilliti til ólífrænna snefilefna, einkum kadmíns. Sýnataka og undirbúningur er hafinn, m.a. í Arnarfirði. Í þessari rannsókn er ætlunin að rannsaka set og rækju, auk hörpudisksins. Áætlaður kostnaður við verkefnið nemur rúmum 12 millj. kr. Á árinu 2003 styrkti AVS-sjóðurinn --- sjóður til að auka verðmæti sjávarfangs --- verkefnið um 2,5 millj. kr. Fyrirhuguð lok verkefnisins eru áætluð fyrri hluta árs 2005. Í áætlun um vöktunarverkefni umhvrn. vegna efnamengunar fyrir 2003 er gert ráð fyrir að veita 300 þús. kr. í mælingar á seti vegna kadmínmengunar í Arnarfirði. Umhverfisráðuneytið mun halda áfram að stuðla að nauðsynlegri almennri vöktun en það er álit Umhverfisstofnunar, sem sér um umsýslu vöktunarverkefna vegna efnamengunar fyrir umhverfisráðuneytið, að öflugra grunnrannsókna fremur en vöktunarrannsókna sé þörf til að skýra sérstöðu íslenska hafsvæðisins hvað varðar styrk kadmíns. Ég tel eðlilegt að menn fái úr því skorið af hvaða orsökum þessi kadmínmengun er".

Hefur ekkert verið rannsakað?

Eins og sjá má á svari Sivjar Friðleifsdóttur var ekki annað að heyra en að stjórnvöld ætluðu að taka málið föstum tökum strax haustið 2003. Svör Árna M. Mathiesen gefa hins vegar til kynna að ekkert hafi í raun verið gert til að rannsaka kadmínmengunina í Arnarfirði þrátt fyrir fjálglegar yfirlýsingar þar um.

Nú vona ég satt best að segja að einhver misskilningur sé hér á ferðinni, þannig að orð Sivjar hafi ekki verið markleysa enn. Trúi því ekki að óreyndu að stjórnvöld skuli vera svo vitlaus að láta hjá líða að rannsaka ofan í kjölinn þegar ein helsta matarkista á grunnslóð við Ísland reynist vera hálf ónýt vegna mengunar sem mælist en enginn kann frekari skil á. En lengi má svo sem manninn reyna.

Magnús Þór Hafsteinsson, alþingismaður Frjálslynda flokksins


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi