Grein

| 12.04.2000 | 13:50Frumkvöðlar á Vestfjörðum

Sú staða er komin upp í okkar bæjarfélagi að jákvæða hluti ber ekki nógu oft á góma. Þegar við skoðum söguna getum við þó stolt litið yfir farinn veg þar sem byggðarlög á Vestfjörðum hafa skráð sig glæsilega í sögubækur Íslendinga og eru þær sögur oftar en ekki um mikla frumkvöðla og hetjur.
Fyrir ekki löngu síðan var stofnað nýtt fyrirtæki sem framleiðir sushi á Ísafirði en það er japanskur matur sem orðinn er mjög vinsæll um allan heim. Nýlunda þessa fyrirtækis er hinsvegar að gera vöruna aðgengilegri neytendum með því að frysta hana. Við kynningu á þessari nýju framleiðslu kom upp í hugann gömul grein en kynningin á þeirri nýlundu sem þar var kynnt var ekki svo ólík.

Eftirfarandi grein var að finna í blaðinu Skutli 3.ágúst 1935.

,,Hér í Kaupfélaginu geta bæjarbúar fengið nýjar rækjur. Er þeim stillt út í glugga Kaupfélagsins, og geta menn séð þær þar. Ætti fólk ekki að láta útlit skepnunnar hræða sig, heldur herða upp hugann og smakka. Íslendingar kunna ekki að borða síld, og fyrir nokkrum árum kunnu þeir heldur ekki að veiða hana.?

Þetta var skrifað þegar rækjuveiðar voru að hefjast á Íslandi en þær hófust hér á Ísafirði og þótti mönnum misjafn fengur í afurðinni, var því farið í kynningarherferð í Kaupfélaginu. Nú 65 árum seinna hljómar kynningin á sushi eitthvað á þessa leið.

Hér í Samkaupum geta bæjarbúið fengið sushi. Er því stillt upp í búðinni og geta menn komið og skoðað. Fólk ætti ekki að láta framandi útlitið hræða sig, heldur herða upp hugann og smakka. Íslendingar hafa tileinkað sér ótrúlegar nýjungar í mat á undanförnum áratugum og nú er komið að SUSHI.

Það skemmtilega við þetta er að enn og aftur er það á Ísafirði sem riðið er á vaðið. Hvert þessi nýlunda leiðir okkur veit enginn en vonandi leiðir þetta okkur inn í bjarta framtíð ásamt öðru.

Nú þegar þörf er á djarfhug og þrótti Vestfirðinga finnst mér orð Daisaku Ikeda eiga vel við. ,,Eyðum það miklum tíma í að bæta sjálf okkur að það verði enginn tími aflögu til að gagnrýna aðra?.

Það er okkar samfélag sem þarf að efla og byggja upp og það gerir enginn fyrir okkur.
Guðrún Anna Finnbogadóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi