Grein

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir | 23.03.2005 | 14:11Æru-atlaga Félags framhaldsskólakennara að skólameistara Menntaskólans á Ísafirði

Að undanförnu hefur verið dreift til fjölmiðla bréfi dags. 15. febrúar s.l. frá þáverandi formanni Félags framhaldskólakennara, Elnu Katrínu Jónsdóttur til menntamálaráðuneytisins. Eru þar hafðar uppi alvarlegar ásakanir um stjórnarhætti skólameistara Menntaskólans á Ísafirði og skorað á ráðuneytið að „hlutast til um aðgerðir sem feli í sér varanlegar úrbætur á stjórnunarmálum í Menntaskólanum á Ísafirði". Er því haldið fram að „hrein ógnarstjórn" ríki í samskiptum skólameistara við starfsfólk.

Svo alvarlegar eru aðdróttanir þær sem koma fram í bréfinu að undirrituð hlýtur að hugleiða ærumeiðingarákvæði almennra hegningarlaga í því sambandi, ekki síst í ljósi þess að bréfinu hefur nú verið komið á framfæri við alla starfsmenn Menntaskólans á Ísafirði og fjölmiðla. Er mér til efs að annað eins hafi sést í íslenskri stjórnsýslu frá því mál Skúla frænda míns Thoroddsen kom upp á Ísafirði í lok 19. aldar, nema ef vera skyldi þegar „stóra boman" féll á Jónas frá Hriflu eins og frægt varð.

Það hlýtur að vera eðlileg krafa til forsvarsmanns í fjölmennu stéttarfélagi að lögð séu fram veigamikil gögn og óhrekjandi þegar bornar eru fram jafn þungar sakir á opinberan embættismann. Sömuleiðis skyldi maður ætla að slíkar ásakanir yrðu ekki fram bornar án samráðs við kennarafélag skólans eða trúnaðarmann, og þá einungis sem örþrifaráð þegar skólameistari hefði daufheyrst við öllum erindum um úrlausn. Engu af þessu er þó að heilsa, eins og nú verður nánar rakið.

1) „Gögn" þau sem formaðurinn segir að sýni „svo ekki verður um villst" hvílík „ógnarstjórn" ríki í Menntaskólanum á Ísafirði réttlæta á engan hátt gífuryrði fv. formanns Ff. Eru þar tínd til tilvik þar sem starfsmenn skólans hafa þegið ráðgjöf hjá lögmanni KÍ, flest hafa þau mál fengið farsæla lausn innan skólans. Eftir stendur þó mál Ingibjargar Ingadóttur gegn Menntaskólanum á Ísafirði sem verður leyst fyrir dómstólum og ekki gert að umfjöllunarefni hér. Ekki hefur verið sýnt fram á það af hálfu Ff að kjarasamningar eða stjórnsýslulög hafi verið brotin, m.ö.o. hefur ekkert það komið fram sem réttlætir framgöngu formanns Ff í bréfi til ráðuneytisins 15. febrúar síðastliðinn.

2) Undirrituð gerir alvarlegar athugasemdir við það að umkvartanir Ff skuli ekki hafa borist skólanum. Bréf formannsins var sent án vitundar og vilja kennarafélags Menntaskólans á Ísafirði. Hafa stjórn og trúnaðarmaður kennarafélags MÍ fullyrt við undirritaða að engar þær ávirðingar séu uppi sem réttlætt geti þau gífuryrði sem haldið er fram í bréfi Ff 15. febrúar. Á fundi með starfsfólki MÍ þann 18. mars s.l. komu ennfremur fram háværar raddir þess efnis að kennaralið skólans teldi sig illa svikið af þessum málatilbúnaði.

3) Fjölmargir starfsmenn hafa gefið sig fram við undirritaða síðustu daga til að taka af allan vafa um að þeir eigi ekki aðild að þessu máli, hafi ekkert út á stjórnarhætti skólameistara að setja og telji sig eiga í góðum og uppbyggilegum samskiptum við yfirstjórn skólans. Hafa þeir lýst yfir hryggð vegna þess málatilbúnaðar sem nú er uppi, sumir hverjir eyðilagðir vegna þess að trúnaðarsamtöl þeirra við formann Ff hafi verið notuð á þann hátt sem raun ber vitni.

4) Stjórnendakannanir þær sem gerðar hafa verið í skólanum á undanförnum tveimur árum, sem og sjálfsmatsúttektir sýna ennfremur að enginn grundvöllur er fyrir ásökunum af því tagi sem Ff ber á borð í bréfi sínu.

5) Félag framhaldsskólakennara hefur ekki borið ávirðingar sínar fram við stjórnendur skólans. Sat formaðurinn fyrrverandi þó fund með samstarfsnefnd og skólameistara MÍ síðastliðið haust sem hefði verið hinn rétti vettvangur fyrir slíkar athugasemdir. Engar umkvartanir komu þar fram um stjórnarhætti skólameistara eða samskipti innan skólans.

Því miður eru þetta ekki einu afskiptin sem Félag framhaldsskólakennara hefur haft af innra starfi Menntaskólans á Ísafirði. Undirritaðri er kunnugt um að þeir starfsmenn skólans sem hafa leitað ráðgjafar hjá KÍ hafa verið hvattir til þess að kvarta milliliðalaust í menntamálaráðuneytið fremur en að leita til kennarafélags skólans, trúnaðarmanns eða til stjórnenda beint. Þann 11. mars síðastliðinn barst starfsmönnum bréf frá KÍ þar sem skorað er á þá að hunsa starfsmannafund og námskeið í framhaldi af honum dagana 11. og 18. mars. Var hvatningin send á þeirri forsendu að umræddur fundur og námskeið ættu að fjalla um eitthvað allt annað en kom fram í fundarboði. Inngrip af þessu tagi - að ekki sé talað um jafn illa ígrundaðar ásakanir og þær sem birtast í bréfinu 15. febrúar eru ólíðandi vinnubrögð.

Undirrituð hefur farið þess á leit við menntamálaráðuneytið að stjórn Ff verði með einhverjum hætti vítt fyrir ofangreind vinnubrögð - jafnframt að skoðað verði hvort ekki sé tímabært að setja siðareglur um samskipti og meðferð ágreiningsmála sem upp koma milli KÍ og einstakra skóla. Það er ólíðandi að skólarnir skuli eiga á hættu önnur eins inngrip og árásir af hálfu stéttarsamtaka kennara; byggð á persónulegum tilfinningum einstakra forystumanna í garð einstakra skólastjórnenda.

Ólína Þorvarðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi