Grein

Karl V. Matthíasson.
Karl V. Matthíasson.

Karl V. Matthíasson | 21.03.2005 | 15:50Góður skólameistari - góður menntaskóli

Þegar ég var í Háskóla Íslands að nema guðfræði kynntist ég fólki sem kom úr Menntaskólanum á Ísafirði. Þessi kynni voru mjög ánægjuleg af tveimur ástæðum. Sú fyrri er að allt er þetta fyrirmyndar sómafólk og hefur unnið landi okkar og þjóð mikið gagn. Hin ástæðan var sú að kominn væri upp framhaldsskóli í landshluta sem hafði ekki státað af slíkum framhaldsskóla fyrr. Á þessum árum átti ég heima á Snæfellsnesi, hafði verið þar við sjómennsku og kennslu og gladdist líka mjög þegar Vesturland fékk sinn fjölbrautarskóla. Það er mjög mikilvægt að fólk geti sótt nám sitt sem næst heimabyggð og að skólarnir séu vel settir hvað mannskap varðar. Auk þess sem vaxandi skólastarf í hverri byggð er gífurlega mikið byggðamál.

Eftir að ég lauk námi í guðfræðideildinni kom ég til að vera þjónn á Vestfjörðum fyrst í kirkjunni og síðar sem alþingismaður og hef ég fylgst með starfi Menntaskólans á Ísafirði og hefur verið gott að sjá hversu mikilvægan sess sú menntastofnun gegnir fyrir Vestfirði og um leið landið í heild.

Ég átti ágæt samskipti við þann mæta mann Björn Teitsson sem var skólameistari á Ísafirði í tvo áratugi og sá ég því betur en ella hversu mikilvægt starf skólameistarans er og krefjandi. Þegar Björn hætti með sóma urðu margir uggandi um framtíð skólans en er ég frétti að gamall nemandi þaðan, Ólína Þorvarðardóttir hafði verið fengin til að taka að sér stjórn hans vissi ég að skólinn yrði í góðum höndum. Ólína er úr hópi þeirra Vestfirðinga sem ég kynntist á háskólaárum mínum og sátum við meira að segja sem fulltrúar stúdenta í stúdentaráði og háskólaráði þar sem hún var mjög skelegg og góður fulltrúi stúdenta. Fréttir af uppgangi Menntaskólans á Ísafirði hafa verið mér gleðifréttir og komu mér reyndar ekki á óvart og veit ég að Ólína á mjög stóran þátt í framgangi skólans.

Já, ég hef fylgst með því með mikilli ánægju af eigin raun og í fjölmiðlum svo sem Bæjarins besta og öðrum, að mikið uppbyggingarstarf hefur verið unnið við Menntaskólann á Ísafirði. Nemendum hefur fjölgað umtalsvert og aldrei verið fleiri í allri sögu skólans. Og í kjölfarið hefur kennurum og starfsfólki einnig fjölgað. Það munar heldur betur um slíkt í samfélagi þar sem störfum hefur fækkað gríðarlega á undanförnum árum, bæði á almennum markaði og hjá opinberum aðilum. (Hér langar mig til að skrifa heilmikið um ríkisstjórn sem hundsar Norðvesturkjördæmið, en það bíður annars tíma.)

Þá hefur einnig orðið umtalsverð fjölgun réttindakennara og hefur skólinn aldrei áður haft á að skipa eins miklu mannvali, vel hæfra og menntaðra kennara og annars starfsfólks (án þess að rýrð sé varpað á það góða fólk sem áður hefur komið að störfum við skólann). Því hefur mátt lesa það að stjórnendur skólans, með skólameistarann Ólínu Þorvarðardóttur í fararbroddi, hafa unnið hörðum höndum við að bæta og styrkja það starf sem fram fer innan hans. Það má ekki gleyma því, að Menntaskólinn á Ísafirði er eini framhaldsskólinn á Vestfjörðum og um leið æðsta menntastofnunin í héraðinu. Þess vegna hlýtur okkur öllum að vera ljóst að það starf og það orðspor sem fer af skólanum skiptir miklu máli fyrir allan fjórðunginn. Með því að gera kröfur til kennara og nemenda, með því að auka gæði og fjölbreytni námsins, með því að bjóða upp á nýjungar í námsvali, eins og nýbúabraut eða grunnnám byggingagreina, með því að laða að skólanum hæft og dugandi starfsfólk og með því að greiða stærra hlutfalli fólks á framhaldsskólaaldri á Vestfjörðum leið að fjölbreyttri menntun, hefur tekist að efla starf Menntaskólans á Ísafirði mjög mikið. Það hefur verið viss varnarsigur fyrir alla Vestfirðinga, og alla aðra sem bera hag Vestfjarða fyrir brjósti að sjá að Menntaskólinn á Ísafirði hefur staðist þau „byggðaröskunaráföll" sem hafa dunið yfir Vestfirði. Er þetta ekki síst Ólínu Þorvarðardóttur að þakka.

Því vekur það mikla undrun mína að málefni skólans hafa komið til umfjöllunar á síðum Bæjarins besta með neikvæðum hætti, nú síðast í pistli Stakks. Reyndar er þessi umfjöllun byggð á fréttaflutningi DV, sem er sá fjölmiðill í landinu er nýtur hvað minnstrar tiltrúar og virðingar meðal þjóðarinnar. Slíkur fréttamiðill getur þó á sinn sérstaka hátt, sett blett á starf og heiður þeirra sem í hlut eiga, og leiðinlegt er að helsta blað Vestfirðinga skuli bera slíkt áfram fyrir lesendur sína, án þess að skoða málin kostgæfilega.

Í fréttum DV er með gífuryrðum og sleggjudómum lagt mat á störf og persónu skólameistarans og settar fram svo grófar lýsingar á samskiptum innan skólans, að furðu má sæta. Ekkert af því sem þar er haldið fram um samskipti stjórnenda við starfsfólks á við rök að styðjast, eftir því sem kemur fram í yfirlýsingu stjórnenda skólans og ég best veit.

Á stórum vinnustað með tugum starfsmanna og hundruðum nemenda, er ljóst að komið geta upp fjölmörg ágreiningsmál. Á þeim málum er auðvitað tekið samkvæmt ákveðnum reglum og hefðum í skólastarfi og samskiptum fólks. Þegar einstaklingar sem einhverra hluta vegna, sætta sig ekki við niðurstöðu slíkrar umfjöllunar og hlaupa í skjóli nafnleyndar í fjölmiðla, er ekki aðeins verið að rífa niður það starf sem unnið er innan skólans, heldur jafnframt verið að ráðast á þann stóra hóp starfsmanna sem staðið hefur með stjórnendum að því að efla og styrkja Menntaskólann á Ísafirði.

Ég hvet Vestfirðinga að senda skólameistaranum og hans ágæta starfsliði baráttukveðjur og hvetja Ólínu og hennar fólk til þess að halda ótrauð áfram því góða starfi sem þau hafa unnið síðustu ár, en láta ekki niðurrifsöfl skemma fyrir því. Með bestu kveðjum og góðum óskum.

- Karl V. Matthíasson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi