Grein

Úlfar Ágústsson.
Úlfar Ágústsson.

Úlfar Ágústsson | 07.03.2005 | 13:28Nú falla öll vötn til Reykjavíkur

Við hugsanlegar sameiningar sveitarfélaga á Vestfjörðum ber fyrst og fremst að hafa í huga hvernig byggðirnar tengjast Reykjavík, en mikið síður hvernig þær tengjast innbyrðis. Þannig munu Barðstrendingar í vaxandi mæli og með bættum samgöngum leita frekar til Reykjavíkur með þjónustu en til Ísafjarðar og þótt heldur styttra sé frá Hólmavík til Ísafjarðar en þaðan til Reykjavíkur sækja Strandamenn mikið frekar suður á við.

Mögulegar sameiningar

Ef skoðaðir eru möguleikar sameiningar með opnum huga og án fordóma má hugsa sér að skipta byggðunum á Vestfjörðum upp í þrjú sveitarfélög, þar sem Ísafjarðarbær og byggðirnar við Djúp mynduðu eitt sveitarfélag. Gamla Barðastrandasýsla sameinaðist Snæfellsnesi í einu sveitarfélagi(Breiðafirði) með Stykkishólm fyrir höfuðstað og Strandasýsla sameinaðist Borgarfirði með Borgarnes fyrir höfuðstað.

Með þessu skipulagi má einbeita sér að bættum samgöngum milli þessara byggða og Reykjavíkur og breyta feiknadýrum heilsárshringvegi um Vestfirði í góðan sumarfæran veg, því í framtíðinni vex þörfin fyrir sumarfæra veginn vegna vaxandi ferðamannastraums, en þörfin minnkar fyrir heilsársveginn með fækkandi fólki með heilsársbúsetu á Vestfjörðum.

Með þessum aðgerðum má tryggja það að Ísfirðingar(íbúar gömlu Ísafjarðarsýslna) þurfa ekki að bera ábyrgð á fjarlægum sveitarfélögum og gætu snúið sért með fullum þunga að því að byggja upp samfélagið í gömlu Ísafjarðarsýslunum ásamt ríkisvaldinu.

Sameining Vestfjarða ekki styrkur

Það er fullvíst að sameining við aðra hluta Vestfjarða mun ekki styrkja Ísafjörð. Til þess eru byggðakjarnarnir allt of margir, litlir og fjarlægir. Á sama hátt má fullyrða að sameiningin mundi ekki styrkja byggðirnar fyrir vestan og norðan vegna smæðar Ísafjarðar og bágs fjárhags.

Ísafjörður verður að leggja alla áherslu á samstarfið við ráðamenn á höfuðborgarsvæðinu um eflingu háskólaseturs í bænum og aðra nútímalega atvinnustarfsemi. Þar má nefna siglingarnar milli austurstrandar Bandaríkjanna og Asíu og það sem er okkur mikið nær í tíma og getu, samstarfið við A-Grænlendinga um uppbyggingu ferðaþjónustu, málmvinnslu og fiskveiða á þessu afskekkta svæði, sem best liggur við að þjóna frá nágrannabænum Ísafirði.

Losnum við moldarvegina

Það þarf strax að losna við moldarvegina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Með skipulagningu og samstarfi Vegagerðarinnar og einkaframtaks má innan þriggja ára koma á vegi með bundnu slitlagi á milli staðanna um Djúp og Dali og á næstu tveim til þrem árum þar á eftir klára vegi svo að ekki komi til þungatakmarkanna, sem er grundvallaratriði vegna útflutnings okkar á sjávarafurðum.

Þannig væri komið á viðunandi akvegasamband milli Ísafjarðar og höfuðborgarsvæðisins, áður en framkvæmdir við fyrstu jarðgöng hæfust, hvar svo sem þau yrðu.

Samhliða þessu þarf að laga veginn milli Þingeyrar og Flókalunds vegna sumarumferðar og þá fyrst í austanverðum Arnarfirði, en sá vegur er stórhættulegur, sérstaklega óvönum bílstjórum, sem mikið er af á vegunum að sumarlagi.

Bættar samgöngur

Hvað Barðstrendinga varðar, þá yrði þetta til að auka mjög þrýsting á bættar samgöngur suður á við. Þverun fjarða sem samgönguráðherra kynnti nýlega kæmist fyrr á dagskrá, ef hægt væri að hætta allri umræðu um rándýr jarðgöng og með tengingunni við Snæfellsnes er eðlilegt að tryggðar verði góðar sjósamgöngur milli Brjánslækjar og Stykkishólms. Stykkishólmur á fá ár eftir til að komast inn á áhrifasvæði Reykjavíkur og þar með að vaxa. Yrði hann höfuðstaður ,,Breiðafjarðarbæjar” myndi hann eflast sem slíkur og slagkraftur svæðisins aukast.

Nýstofnaður menntaskóli í Grundarfirði liggur vel við nemendum úr gömlu Barðastrandarsýslunum ef ferjusamgöngur eru í lagi og tengingin myndi efla hann.

Með Stranddalavegi eru Hólmvíkingar í um klukkutíma akstursfjarlægð frá Borgarnesi. Borgarnes er að verða stór verslunar- og viðskiptamiðstöð fyrir vestur og norðurland og nytu Strandamenn góðs af því ásamt tengslunum við Dalamenn.

Höfuðborgarsvæðið er miðstöð allra smærri staða

En grunurinn að þessari breyttu byggðamynd er að Íslendingar geri sér grein fyrir þeim raunveruleika, að höfuðborgarsvæðið er og verður um fyrirsjáanlega framtíð eini stóri samfélagskjarninn á Íslandi, sem flestir sækja í og miðstöð allra smærri staða á landinu.

Samgöngurnar milli hvers einstaks byggðarlags og Reykjavíkur skipta sköpum um getu íbúanna til áframhaldandi búsetu. Samgöngur smábyggðanna á milli skipta alltaf mun minna máli.

Úlfar Ágústsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi