Grein

Eiríkur Örn Norðdahl | 04.03.2005 | 10:02Af forynjum, bestíum, faríseum og tollheimtumönnum - Þar sem djöflaeyjan rís

Sólrisuleikrit Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði er að þessu sinni Þar sem djöflaeyjan rís, leikgerð Kjartans Ragnarssonar eftir skáldsögu Einars Kárasonar í ritstjórn Þórunnar Sigþórsdóttur. Sögur Einars Kárasonar um Thulekampinn eru landsfrægar, og jafnvel örlítið meira. Glaumgosinn og fyllibyttan Bjarni Heinrich Kreutzhage (Baddi), flugkappinn Frank Daníel Levine Tómasson (Danni), Hvera-Gerður, Karólína spákelling, vesalingurinn Grettir, tittlinganáman Dollí, og fyrirvinna hersingarinnar, Tommi, eru hverjum kjafti kunn, auk fjölskylduvinanna Grjóna, Þórgunnar, Fíu og Tóta.

Skáldsagan Þar sem djöflaeyjan rís eftir Einar Kárason kom fyrst út árið 1983, og leikgerð Kjartans Ragnarssonar var fyrst sett á svið nokkrum árum síðar af Leikfélagi Reykjavíkur í gamalli birgðaskemmu bandaríska hersins. Leikritið sló í gegn, ekki síður en bókin þar áður og var sett upp víða um land. Bíómynd Friðriks Þórs, Djöflaeyjan (sem segir sögu tveggja bóka, Þar sem djöflaeyjan rís og Gulleyjan) var svo rakið success og var sýnd víða erlendis við góðan orðstír. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þetta verk, í hinum ýmsu myndum, sé eitt þeirra ástsælustu sem skrifuð hafa verið á Íslandi í seinni tíð, og því ljóst að leikfélag menntaskólans ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.

Það er skemmst frá því að segja að bragginn frægi birtist manni ljóslifandi í sal menntaskólans í dæmalaust vel heppnaðri leikmynd, sem samkvæmt leikskrá var samvinnuverkefni Guðna Ásmundssonar, Þórs Sveinssonar, leikstjóra og leikhóps. Sviðið er troðið af leikmunum, og maður fær þannig tilfinningu fyrir þeim þrengslum sem stórfjölskyldan þarf að búa við. Smíðuð hefur verið framhlið á bragga, heljar hlemmur, sem nýtist vel til að ganga inn og út af sviðinu án þess að hverfa einfaldlega á bak við leiktjöldin. Nýting á rými, lýsing og leikgerð voru með besta móti.

Leikararnir standa sig flestir með prýði, þó dálítið vanti upp á einbeitingarþrek til að halda úti jafn langri sýningu, eins og er svo sem eðlilegt með áhugaleikara á menntaskólaaldri. Oddur Elíasson var reyndar feykilega öruggur í hlutverki Tomma, og jafngóður alla sýninguna í gegn, þó hlutverkið byði ekki upp á mörg eða mikil ris. Hildur Dagbjört Arnardóttir í hlutverki Dollí, Dóróthea Margrét Einarsdóttir í hlutverki Karólínu og Ársæll Níelsson í hlutverki Badda voru á köflum of yfirdrifin og ýkt, en áttu þó öll sín mögnuðu augnablik - Hildur Dagbjört til dæmis þegar hún daðrar við Dóra, Ársæll meðal annars þegar hann situr yfir gröf Danna og Dóróthea hreytti oft fúkyrðunum af mikilli staðfestu.

Tómas Árni Jónasson leikur Danna, liðleskjuna sem verður að manni, og gerir það nokkuð vel en blómstrar fyrst í hlutverki viðhalds Dollíar, Dóra, þar sem maður fann loks töluvert fyrir þeirri leikgleði sem oft springur út í áhugaleikurum. Svipaða sögu má segja um Ársæl, sem um stundar sakir bregður sér í hlutverk hins samkynhneigða Ólafs Hlynssonar. Mér hefur sýnst það algengt í menntaskólasýningum að best leiknu hlutverkin séu oft þessi litlu kómísku, þar sem leikararnir þurfa litlar áhyggjur að hafa af línufjölda og geta dottið inn í stríðnislegan grínham. Ekki bara leikið, heldur leikið sér og öðrum til gamans.

Það skýtur skökku við í sýningu sem er leikstýrt af konu sem er fyrst og síðast tónlistarmenntuð, að akkilesarhæll sýningarinnar skuli vera tónlistaratriðin. Söngvararnir voru óöruggir, og skáru oft á tíðum í eyru eins og versta sarg. Af þeim lögum sem flutt voru, var aðeins eitt mér til yndisauka, og það var þegar Tinna Ólafsdóttir syngur Til eru fræ eftir Davíð Stefánsson. Leikur Tinnu var auk þess stórgóður, hún var sannfærandi flámælt og drukkin í hlutverki Þórgunnar, og tapaði sjaldan dampi.

Ásgeir Guðmundsson átti á köflum stórkostlega takta sem skapvondi glæpamaðurinn Grjóni, og sömuleiðis Sandra Rún Jóhannesdóttir í hlutverki yfirgangssömu aurasálarinnar Fíu. Páll Janus Þórðarson setti nokkuð sterkan svip á karakterinn Gretti, og gerði hann töluvert viðkunnanlegri en ég hef séð hann áður, sem gekk best upp þegar Grettir var að reyna að taka á sig rögg gegn ofríki tildurrófunnar konu sinnar.

Í heildina tekið fannst mér oft skorta leikgleði í hópinn, ég fékk ekki á tilfinninguna að þau hefðu sérlega gaman af þessu lengur, eins og þau væru að verða þreytt á sýningunni. Það var of lítið af þeim krafti sem oft einkennir áhugaleikhús. Sagan er auðvitað mjög sterk, leikarar standa sig að mestu vel og því fer fjarri að gagnrýnandi hafi skemmt sér illa. Hins vegar er alltaf erfitt að setja upp stykki sem fólk þekkir inn og út, og það er ekki heillavænlegt hlutverk að lenda í samanburði við leikara eins og Baltasar Kormák, Gísla Halldórsson, Halldóru Geirharðs, Guðmund Ólafsson og Svein Geirsson. Leikfélag Menntaskólans má óhrætt vera stolt af sýningunni, það er að segja öllum hlutum hennar - sviðsmynd, lýsingu, leik og hljóðfæraleik - nema söngnum.

Þar sem djöflaeyjan rís, eftir Einar Kárason og Kjartan Ragnarsson. Leikstjóri var Þórunn Sigþórsdóttir. Með aðalhlutverk fóru: Ársæll Níelsson, Tómas Árni Jónasson, Hildur Dagbjört Arnardóttir, Dóróthea Margrét Einarsdóttir og Oddur Elíasson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi