Grein

Guðjón A. Kristjánsson.
Guðjón A. Kristjánsson.

Guðjón A. Kristjánsson | 28.02.2005 | 18:23Varanlegar samgöngubætur í forgang

Árið 2000 vakti sá sem þetta ritar máls á því að horfa yrði til stefnu í samgöngumálum á Vestfjörðum sem dygði sem varanleg lausn fyrir langa framtíð. Með þingsályktun var lagt til á Alþingi að horft yrði á það meginmarkmið í gerð nýrra vega að færa þá af illfærum fjallvegum í jarðgöng. Þannig að einstakir fjallvegir sem oft verða farartálmar á annars mörg hundruð kílómetra þjóðleið verði að láglendisvegi með gerð nýrra jarðgangna.

Val forgangsleiða

Þá er fyrst að velja ný vegstæði fyrir jarðgöng sem stytta akstursleiðir, auka öryggi og kosta minnst viðhald og spara einnig tíma og orku. Jafnframt þarf að líta til annars hagræðis sem gæti fylgt nýjum samgöngubótum, eins og minni fjárfestinga í hafskipahöfnum, flugvöllum og betri nýtingu landsvæðis og jafnvel styttri leiða við orkuflutningi milli staða eða landsvæða.

Ég hef síðar komist að þeirri niðurstöðu að þessi tillaga mín um þriggja arma göng undir Klettsháls og Kollafjarðarheiði hafi ekki verið flutt af fulltrúa úr réttum stjórnmálaflokki og þess vegna verið fryst úti. Enda hafa menn síðar séð að það er ekki sama að taka upp með nánast engan fyrirvara gerð jarðgangna undir Almannaskarð, sem ég er mjög ánægður með, og að gera stutt göng undir Klettsháls. Því miður verður Klettshálsinn áfram farartálmi í áratugi og ekki varanlegur láglendisvegur. Auk þess verður Dynjandisheiði erfið ef snjóþyngsli verða. Þess vegna er það svo að krafan um jarðgöng þar sem styst er að fara úr Djúpi, það er Ísafirði og yfir í Fjarðarhornsdal í Kollafirði verður mjög sterk á næstu árum.

Öruggir vetrarvegir

Það verður líka rökrétt niðurstaða fyrir Norðursvæði Vestfjarða að komast þá leið þegar búið verður að þvera Þorskafjörð, Gufufjörð og Djúpafjörð. Stysta leið jarðgangna mun þá fást með vegi inn Múladal og síðan áfram inn dalverpi austan við núverandi sumarveg yfir Kollafjarðarheiði. Ef þau göng verða í 100-150 metra hæð yfir sjó er vegalengd jarðgangna mjög líklega undir 6 km. að lengd. Sú jarðgangnaleið þarf rannsóknar við og er þar farið undir Vatnasvæði. Sem bæði getur haft með sér kosti og galla eins og Vestfirðingar þekkja úr Vestfjarðagöngum. En raforkuver við annan enda þeirra jarðgangna gæti líka verið búbót en því miður er forræði þeirra mála að öllum líkindum ekki í okkar höndum eins og Framsóknarráðherra orku- og byggðamála vinnur að málum.

Nútíma akvegir

Mér er það ljóst að margir eru farnir að átta sig á því í dag að jarðgöng og þverun fjarða eru þær leiðir sem verður að fara ef ná á því besta fyrir framtíðina í vegamálum sem völ er á og á fáum áratugum spara þær lausnir mikla fjármuni. Til gamans væri fróðlegt að rifja upp samgönguáherslur þær þegar við Halldór Hermannsson fengum að móta samgöngumálastefnu T-listans 1983 með Sigurlaugu Bjarnadóttur og fleira fólki. Því þverun Dýrafjarðar og Gilsfjarðar sem og göng undir Breiðadals- og Botnsheiði, eru öll orðin að veruleika en Óshlíð er enn sama vandamálið, enda töldum við þá leið ekki framtíðarveg í samgöngustefnu T-listans 1983. Framtíðarvegur milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar verður best leystur með jarðgöngum úr Engidal.

Brátt mun koma fram frá þeim sem þetta ritar, tillaga um 20 ára áætlun í jarðgangnagerð sem færir allar aðalleiðir þjóðvega á láglendi. Til þess þarf að hefja vinnu við ný jarðgöng á hverju ári frá og með árinu 2007 og marka í þau verkefni um 2,5 milljarða króna á hverju ári sérstaklega.

Þar með væri því stórvirki lokið fyrir 2030 til mikils fjárhagslegs og búsetulegs ávinnings fyrir alla íbúa þessa lands sem þá þurfa að geta tekið á móti einni milljón erlendra ferðamanna á hverju ári og sýnt þeim landið, fólkið, himin og haf. Sögu lands og lýðs og lífið eins og það er, vetur, sumar, vor og haust.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi