Grein

Björn Davíðsson.
Björn Davíðsson.

Björn Davíðsson | 22.02.2005 | 16:15Klúður í einkavæðingu

Undanfarna daga og vikur hefur væntanleg einkavæðing Landssímans verið nokkuð til umræðu og spurningin um hvort eigi að skilja grunnnetið frá eða ekki. Sumir þeir sem hafa tjáð sig um málið hafa reyndar byrjað á því að fullyrða að hugtakið grunnnet sé illa skilgreint og þeir séu ekki vissir um hvað það sé og spyr maður sig þá að því hvort þeir sömu hafi nokkuð vit á málinu yfirleitt. Hér er um að ræða mál sem skiptir landsbyggðina gríðarlega miklu máli. Undanfarna daga hefur getið að líta, t.d. á síðum Morgunblaðsins skoðanir, meðal annarra starfsmanna Landssímans sem vekja með manni gæsahúð um framtíð fjarskiptamála á landsbyggðinni.

Til dæmis má lesa um það Mogganum nýlega í grein eftir framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landssímans þar sem segir m.a.: ,,Á netinu hvílir einnig sérstök þjónustukvöð, sem hefur kostað Símann milljarða.“ Hver skyldi þjónustukvöðin vera? - Að þjóna öllu landinu? Hefur Síminn staðið við þessa lágmarks þjónustukvöð? - svarið er nei. Getur Síminn fengið óarðbærar framkvæmdir niðurgreiddar af Póst- og fjarskiptastofnun? - svarið er já – Hefur Síminn sótt um niðurgreiðslur? - nei - Af hverju? - Vegna þess að honum hefur ekki tekist að standa við þessa kvöð, svokallaða alþjónustukvöð.

Og hvergi meira hefur það klikkað heldur en einmitt á Vestfjörðum þar sem Landssíminn hefur ekki einu sinni getað staðið undir algerum lágmarkskröfum á fleiri tugum lögbýla hvað varðar gagnaflutninga. Í septemberbyrjun árið 2000 segir m.a. í fréttatilkynningu frá Landssímanum „ISDN-þjónusta mun standa öllum landsmönnum til boða innan tveggja
ára.“ (1) - Ég spyr þá, hverju er að treysta?

(1) Skýrsla einkavæðingarnefndar bls. 125 - neðst.

(2) Enn hefur ekki tekist að bjóða ADSL-sítengingar í öllum þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum jafnvel þó að smáfyrirtækið Snerpa geti þar allsstaðar boðið sítengingar sem eru sambærilegar við minnstu ADSL-tengingar. Þó að Símanum sé í lófa lagið að bjóða 128 kílóbita sítengingar yfir ISDN til dreifðri byggða þar sem ADSL nær ekki til, eins og t.d. er gert í Danmörku, (2) þá er það ekki gert - ætli það myndi kosta þá milljarða?

(2) Sjá t.d. : http://privat.tdc.dk/internet/ekspresnet/

Þeim sem vilja kynna sér þetta mál nánar er bent á smárit sem ber nafnið Einkavæðing og sala hlutabréfa ríkisins í Landsíma Íslands hf. og er gefið út árið 2001 af framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Þar er t.d. hægt að afla sér vitneskju eins og þeirrar að talið er óhjákvæmilegt að NATO-þræðirnir verði áfram í eigu ríkisins þ.e. 3 af 8 þráðum í ljósleiðaranum (3) sem liggur hringinn í kring um landið og hingað vestur. Þá er þar með til í raun og veru félag í eigu ríkisins sem ræður yfir 3/8 af allri burðargetu í fjarskiptasamböndum á milli landshluta. Skv. tilskipunum ESA og ákvæðum EES-samningsins er Landssíminn sem markaðsráðandi fyrirtæki skyldur til að aðgreina fullkomlega grunnnet og samkeppnisrekstur bæði rekstrar- og fjárhagslega séð. Samt fullyrða menn eins og Hjálmar Árnason að grunnnetið sé óskilgreint og að það sé ekki hægt að skilja það frá. Það er beinlínis skylda ríkisins að að skilja ljósleiðarann frá við sölu Landssímans skv. samningnum við mannvirkjasjóð NATO.

(3) Sjá bls. 23 í skýrslu einkavæðingarnefndar.

Úr því að ég er að vitna í þetta rit hlýt ég einnig að vitna í eftirfarandi á bls. 50: ,,Af ýmsum ástæðum hafa gjöld fyrir talsímaþjónustu ekki fylgt verðlagsþróun síðustu áratuga en það hefur verið látið viðgangast vegna mikils hagnaðar af langlínu- og útlandagjöldum.“ Hvað þýðir þetta annað en að á meðan landið var mörg gjaldsvæði að símtöl milli landshluta voru það sem greiddi milljarðana í stofnkostnað vegna grunnnetsins? Í áratugi ofrukkaði Landssíminn langlínusímtöl.. - skyldi koma til tals að við fáum endurgreitt? – svona eins og stungið er upp á við olíufélögin? - Nei - enda var þessi mikli hagnaður lögmætur Landssíminn hafði einokunarrétt a fjarskiptum, gat hagað sér eins og honum sýndist - og hver veit nema hann geri það enn?

Forsætisráðherra var hér í heimsókn um daginn á fundi. Á þeim fundi nefndi ég að Landssíminn selur samkeppnisdeildum sínum aðgang að grunnnetinu á 35% lægra verði en fjarskiptafyrirtæki eins og Snerpa þurfa að greiða. Hvernig er þetta hægt? - Sko - Landssíminn segir að vegna þess að hann selur sjálfum sér meira en 1800 km af ljósleiðara þá sé 25% hagkvæmara fyrir hann að selja sjálfum sér línur en öðrum! Auka 10% fá samkeppnisdeildir Landssímans svo í afslátt af línum úti á landi þar sem þær eru verr nýttar en á höfuðborgarsvæðinu. Snerpa fær 10 prósentin þó ekki heldur. Þetta er sá raunveruleiki sem keppinautar Landssímans þurfa að horfast í augu við, ef Landssíminn verður áfram óskiptur. Gegn svona misnotkun á markaðsráðandi stöðu virðast engin ráð duga.

Bent er á að eftirlitsstofnanir eins og Samkeppnisstofnun eiga að gæta þess að slík misnotkun eigi sér ekki stað. Árið 1995 voru 22 starfsmenn hjá Samkeppnisstofnun - tíu árum síðar eru þeir enn 22 við sömu störf og tekur þá rúmlega 16 mánuði að meðaltali að leysa úr þeim kvörtunum sem til þeirra er beint. Fjárframlög til stofnunarinnar eru þó 52% hærri að raunvirði nú en fyrir tíu árum. (4) Ég nefndi einnig á fundinum að samtök netveitna lögðu inn kvörtun til Samkeppnisstofnunar í janúar í fyrra. Örlög þeirrar kvörtunar verða líklega jafngildi fyrningar í lok þessa mánaðar en Samkeppnisstofnun reiknar ekki með að taka fullnaðarákvörðun fyrr en eftir endaðan mars mánuð!

(4) Sjá: http://www.althingi.is/altext/131/s/0219.html 

Ekki vöktu þessar fullyrðingar mínar neinar spurningar hjá forsætisráðherra, kannski hefur hann haldið að ég væri að ljúga þessu öllu, bara til að skemma fyrir honum og hann búinn að mála sig endanlega út í horn. Stjórnvöld hafa aldrei leitað umsagnar keppinauta Símans um viðhorf þeirra til þessa málefnis, það er að grunnnetið verði gert að sérstöku fyrirtæki. Aðalatriðið virðist vera að koma Landssímanum eins og hann leggur sig af höndum ríkisins og til þess eru notaðar ýmsar dúsur fyrir almenning eins og að það eigi að byggja vegi og spítala fyrir söluverðið.

Verði Landssímanum skipt í tvö fyrirtæki, hvort sem annað þeirra eða bæði verða seld, verður tryggt að ekki verður hægt að misnota það í þágu samkeppnisdeilda Landssímans.

Eins og málum er háttað nú og mun verða að óbreyttu myndi slík misnotkun kæfa alla samkeppni á fjarskiptamarkaði í fæðingu. Jafnframt verður „óarðbærri“ landsbyggð ekki sinnt, hvorki af Landssímanum né öðrum, því að grunnetið verður ekki lengur veitustofnun allra landsmanna, heldur þrautpíndur kjötketill í einkaeigu.

Á endanum hlýtur okkar spurning og áhyggjuefni að vera: Ætlar ríkistjórnin enn að endurtaka eða gera enn stærra klúður í kring um sölu ríkisfyrirtækja eins og til dæmis Ríkisskipa sem lifði söluna reyndar ekki af, SR-mjöls, Lyfjaverslunar ríkisins, Íslenskra aðalverktaka og margra annarra?

Björn Davíðsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi