Grein

| 05.09.2001 | 07:36Glöggt er gests augað

Það komu útlendingar í heimsókn til mín í gær. Þau búa hér vestra eins og er og eru afskaplega hrifin af Vestfjörðum og mannfólkinu hér. Þar sem þau voru að lýsa hrifningu sinni á öllu hér, sögðu þau: „Það er samt eitt sem okkur finnst óskiljanlegt – fólk hendir rusli hvar sem er.“ Maðurinn lyfti höndum og sagði: „Við vorum á ferðalagi og allt var svo fallegt – fjallið, hafið, umhverfið, og svo liggur rusl beint fyrir framan mann. Þetta er svo sorglegt að sjá. Við urðum vör við að aðrir útlendingar furðuðu sig á þessu. Og í bænum sér maður fólk henda rusli beint á götuna eða út um bílgluggann.“
Síðan horfðu þau á mig smástund og sögðu svo: „Hvað gera bæjaryfirvöld í þessu?“ Og hvað átti ég að segja? Mér fannst auðvitað leiðinlegt að heyra þetta og vitanlega hef ég sjálf séð fólk ganga illa um. En ég held að við verðum svolítið samdauna og hættum að taka eftir því – þangað til gestir okkar fara að benda okkur á ósómann.

Þetta er sama viðhorf og felst í því hvernig sumir ganga um bæinn, stytta sér leið yfir hvað sem fyrir er. Og hve margir foreldrar brýna fyrir börnunum sínum að virða umhverfi sitt? Er þeim kennt í skólanum að ganga vel um nánasta umhverfi sitt? Það sýnist mér ekki. Að minnsta kosti verður Austurvöllur illa fyrir barðinu á ungmennum bæjarins á haustin þegar skólinn byrjar. Það er sorglegra en tárum taki að horfa upp á þau geysast eftirlitslaus inn í þennan elsta skrúðgarð bæjarins í frímínútum og djöflast um allt innan um runna og gróður.

Ef við viljum hafa snyrtilegan bæ, þá verðum við öll að taka höndum saman og hjálpast að. Henda öllu rusli í þar til gerð ílát, ekki stytta sér leið yfir hvað sem fyrir er. Brýna fyrir börnunum að ganga vel um. Kenna þeim að bera virðingu fyrir því sem í kringum þau er. Börn eru afskaplega fljót að læra og þau vilja örugglega gera það sem best er. En það þarf að kenna þeim, og til þess eru foreldrar. Það er ekki hægt að ætlast til að skólinn taki algjörlega að sér uppeldi barnanna. Inn í þessa umræðu er kannski rétt að taka meðferð á dýrum. Það þarf að umgangast bæði dýr og gróður með ást og virðingu. Þetta eru lifandi verur sem finna til alveg eins og við.

Nú fer haustið í hönd. Oft er fallegt veður út allan september og jafnvel lengur. Bærinn lítur snyrtilega út og er svo fallegur. Mig langar til að biðja ykkur um að hjálpa mér við að halda honum svona. Verum stolt af bænum okkar og við getum verið viss um að þeir gestir sem til okkar koma taka eftir því hve vel bærinn lítur út. Og þeir dæma íbúana örugglega eftir umgengninni. Við megum vera stolt og skulum vera það.

Takk fyrir sumarið.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi