Grein

Jón Bjarnason, alþingismaður.
Jón Bjarnason, alþingismaður.

| 04.09.2001 | 06:48Um Orkubú Vestfjarða

Þegar Alþingi fjallaði um Orkubú Vestfjarða sl. vetur lögðust þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs eindregið gegn því að rekstrarformi þess yrði breytt í hlutafélag. Öllum mátti vera ljóst að megintilgangurinn með hlutafélagsvæðingunni var sá að gefa ríkisvaldinu tækifæri til að þvinga einstök sveitarfélög til að láta eignarhlut sinn í Orkubúinu upp í skuldir vegna félagslega íbúðarkerfisins.
Einhliða ákvörðun Alþingis

Félagsíbúðirnar voru liður í opinberri stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum. Ríkisvaldið, sveitarfélög, lífeyrissjóðir og aðilar vinnumarkaðarins sameinuðust um að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd víða um land. Það var Alþingi sem setti lögin og ákvað einhliða hvar ábyrgðin ætti að liggja. Sveitarfélögin gerðu ekki annað en taka við því verkefni sem Alþingi ákvað að fela þeim. Og vissulega voru þær íbúðir lyftistöng í uppgangi vestfirskra byggða fyrir daga þessarar ríkisstjórnar.

Vestfirðingar eiga miklar auðlindir til lands og sjávar. En stefna stjórnvalda í nýtingu þeirra hefur verið Vestfirðingum mjög andsnúin. Fólk hefur flutt í burtu, útsvarsgjaldendum hefur fækkað og fjárhagur sveitarfélaganna þrengst. Íbúðirnar sem byggðar voru af bjartsýni og trú á staðfasta stefnu stjórnvalda standa nú margar tómar.

Lausn á landsvísu

Sveitarfélögin á Vestfjörðum eru ekki þau einu á landinu sem eiga í fjárhagsvandræðum. Víða um land standa sveitarfélög höllum fæti fjárhagslega. Félagslega íbúðakerfið á drjúgan þátt í vanda þeirra.

Félagsmálaráðherra gat þess á Alþingi í vetur að skipuð hafi verið nefnd til að móta tillögur um hvernig ætti að leysa fjárþörf félagslega íbúðakerfisins heildstætt. Í máli ráðherrans kom fram að tekið yrði með samræmdum hætti á þeim málum fyrir allt landið – ekki búin til nein „sér-vestfirsk“ leið. Nefndin mun hafa skilað hugmyndum í vor á minnisblaði til ráðherrans, sem ekkert hefur síðan verið gert með. Að svo búnu virðist starf hennar hafa lognast út af.

Þvingunartilboð ríkisvaldsins

23. ágúst sl. sendi ríkisstjórnin sveitarfélögunum á Vestfjörðum tilboð sitt í Orkubúið. Þar er vísað til einhliða yfirlýsingar ríkisins við undirskrift samkomulagsins um hlutafélagsvæðinguna frá 7. febrúar sl. Í bréfinu frá 23. ágúst stendur: „Með vísan til ofangreinds gera fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og iðnaðarráðherra, að höfðu samráði við félagsmálaráðherra, svohljóðandi kauptilboð í hlut sveitarfélagsins í Orkubúi Vestfjarða hf. ...“ Síðan eru taldir upp skilmálarnir.

Nú er ekki aðeins krafist skuldajöfnunar gjaldfallinna krafna Íbúðalánasjóðs heldur einnig uppgjörs á lánum sem eru í fullum skilum. Auk þess er gerð krafa um fulla greiðslu dráttarvaxta. Venja hefur verið að leita samninga um slíkt. Þá eru innheimt lán sem þegar hafa verið afskrifuð.

Tilboðin eru undirrituð af ráðuneytisstjórum fjármálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis. Bréfinu lýkur svona: „[nafn sveitarfélags] skal eigi síðar en kl. 16 þriðjudaginn 25. september 2001 tilkynna fjármálaráðuneyti með skriflegum hætti, ef gengið er að tilboði þessu.“

Hvergi er boðið upp á samninga eða viðræður um málið heldur virðist hér um beina þvingunaraðgerð að ræða. Að mínu mati á ríkisstjórnin að biðja Vestfirðinga afsökunar á þeim hroka sem birtist í texta bréfanna til sveitarfélaganna, burtséð frá erindi þeirra.

Verjið Orkubúið

Sveitarstjórnum á Vestfjörðum finnst vafalaust, að þær hafi verið blekktar. Þeim bar engin nauðsyn til að breyta Orkubúinu í hlutafélag. Hafi einhver haldið því fram er það ósatt. Samkvæmt skoðanakönnun virtist mikill meirihluti íbúa Vestfjarða vera afar andvígur því að einkavæða Orkubúið. Það gat að óbreyttu malað íbúunum gull.

Sleppi Vestfirðingar höndum af Orkubúinu nú og láti það í hendur ríkisstjórnar sem allt gefur falt, er eins líklegt að það verði innan skamms komið til fjarlægra eigenda, jafnvel erlendra, sem einungis hugsa um skammtímagróða og eiginn hag. Orkuauðlindin mun þá flæða óhindrað út úr fjórðungnum án þess að íbúarnir njóti þar nokkurs.

Á hrokinn sér engin takmörk?

Samband íslenskra sveitarfélaga virðist sofa þyrnirósarsvefni og snýr blindu auga að fjárhagsvanda sveitarfélaganna vegna félagslega íbúðakerfisins. Maður skyldi þó ætla að það ætti hér að ganga fram fyrir skjöldu og berjast fyrir h


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi