Grein

Sigurður Ólafsson.
Sigurður Ólafsson.

Sigurður Ólafsson | 10.02.2005 | 16:19Samgöngumál á Vestfjörðum

Það má með sanni segja að menn séu nú loksins að komast niður á jörðina varðandi lagningu vega sem samgöngubót og þá meina ég samgöngubót. Fyrir mörgum árum var talað um að mikil bót yrði í því að þvera Gufufjörð og Djúpafjörð og jafnvel Þorskafjörð, en hvað gerðist? Það var farið í að lagfæra veginn yfir Hjallaháls og í hann kastað tugum milljóna króna. Hefðu nú ekki verið betra að hlusta á menn fyrr og fara í framkvæmdir þær sem nú er verið að tala um. Hefði ekki líka mátt notfæra sér þær framkvæmdir sem gerðar voru í Þorskafirði þegar gera þurfti veg út í miðjan fjörðinn til að koma fyrir háspennustaur?

Ekki alls fyrir löngu kom fram í BB að umferð um Þorskafjarðarheiði hefði stóraukist sl. sumar. Ekki hefur þetta nú farið hátt. Er það vegna þess að menn vilja ekki sjá að þetta er sú leið sem við, sem búum við Djúp viljum fara, það er að segja þar til við fáum göng úr Ísafirði yfir í Kollafjörð. Eftir þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar verða göng þarna á milli besti kosturinn fyrir okkur sem búum á norðanverðum Vestfjörðum. Enn eru menn svo blindir að halda því á lofti að vegur yfir Tröllatunguheiði sé það sem koma skal. Ég hef aftur á móti haldið því fram að það sé nánast engin bót fyrir okkur að fá þann veg, heldur verði jafn gott að vegurinn yfir Þorskafjarðarheiði verði lagfærður þannig að hann verði gerður að vetrarvegi, svipað og vegurinn yfir Steingrímsfjarðarheiði, þ.e.a.s. að hann verði hækkaður upp. Það má ætla að hann verði ekki síður fær enda verða ríkjandi vindáttir í sömu stefnu og vegurinn kemur til með að liggja, þ.e.a.s. af Steingrímsfjarðarheiði í Þorskafjörð.

Mig langar að síðustu að ítreka að eftir þverun áðurnefndra fjarða á Barðaströnd, yrðu göng milli Ísafjarðar og Kollafjarðar, sú besta samgöngubót sem við sem hér búum gætum fengið. Ég tel að þegar búið er að ákveða að fara þá leið, ættum við að gera þá kröfu að göng þarna á milli yrðu tilbúin á sama tíma. Væri það ekki verkefni fyrir Leið ehf., að setja á oddinn nr. 1 og sleppa því að mæla með leiðinni um Arnkötludal?

Haldið þið að það væri ekki munur að skreppa til Reykjavíkur án þess að þurfa að fara yfir eina einustu heiði? Bara yfir Bröttubrekku sem nú er varla orðin nokkur farartálmi. Gaman væri ef einhver myndi upplýsa okkur um hvað þessi leið yrði löng og hvað sparaðist mikið á því að þurfa ekki að fara um alla þessa hálsa og heiðar sem eru á leiðinni.

Sigurður Ólafsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi