Grein

Halldór Halldórsson og Guðni Geir Jóhannesson.
Halldór Halldórsson og Guðni Geir Jóhannesson.

Halldór Halldórsson og Guðni G. Jóhannesson | 31.01.2005 | 17:01Fjárhagsáætlun og gjaldskrár Ísafjarðarbæjar

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar við síðari umræðu þann 13. janúar sl., mánuði síðar en venja hefur verið í tíð núverandi meirihluta. Ástæðan fyrir seinkun var töluverð óvissa um gjaldahlið rekstrarreiknings í desember sérstaklega vegna launahækkana sem skýrðist verulega í byrjun janúar. Sjá má að í mörgum öðrum sveitarfélögum hefur samþykkt fjárhagsáætlunar tafist af þessum sökum.

Niðurstaða fjárhagsáætlunar

Áætlað er að rekstrargjöld verði 108 m.kr. umfram rekstrartekjur en þá eru allir reiknaðir liðir inni í rekstrargjöldum skv. nýjum reikningsskilareglum. Fjárhagsáætlun gerir að þessu sinni ráð fyrir að reksturinn skili 44,3 m.kr. Það er handbært fé sem nýtist til greiðslu skulda og/eða fjárfestinga.

Framkvæmdir

Á árinu 2005 er reiknað með töluverðum framkvæmdum á vegum Ísafjarðarbæjar með áherslu á framkvæmdir með umtalsverðu mótframlagi ríkisins. Fjárfestingar eru áætlaðar 292 m.kr. Helstu fjárfestingar eru kaup á slökkvibifreið, snjóflóðavarnir, endurnýjun á tækjabúnaði í Funa, nýr hafnsögubátur, ýmsar hafnarframkvæmdir, göngustígagerð, malbikun og endurnýjun gatna, framkvæmdir við 2. áfanga Grunnskólans á Ísafirði, bygging íþróttahúss á Suðureyri, framlag til nýbyggingar safnahúss í Neðstakaupstað auk framkvæmda við vatnsveitu.

Þessu til viðbótar er framlag ríkisins til framkvæmda í byggingarmálum Grunnskólans á Ísafirði, snjóflóðavörnum og hafnarframkvæmdum áætlað 200 m.kr. Alls eru því fjárfestingaverkefni næsta árs áætluð 492 m.kr. þegar saman eru teknar fjárfestingar á vegum Ísafjarðarbæjar og ríkissjóðs.

Lögð er áhersla á framlag ríkisins til hafnarframkvæmda en það er yfirleitt um 60% á móti 40% sveitarfélagsins. Eftir árið 2006 fellur framlag ríkisins alfarið niður og þess vegna er framkvæmdum á þessu sviði flýtt eins og hægt er. Önnur ástæða fyrir áherslu á framkvæmdir er sú að mikilvægt er að skapa hér mótvægi gegn mikilli þenslu í öðrum landshlutum sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi.

Breyttar reglur um framsetningu fjárhagsáætlunar og ársreikninga

Í þrjú ár hafa sveitarfélög landsins gert upp reksturinn í samræmi við nýjar reglur um ársreikninga sveitarfélaga. Stærsta breytingin er fólgin í því að inn í rekstur koma afskriftir sem ekki voru færðar til gjalda hjá sveitarfélögum og lífeyrisskuldbindingar sem færðar eru í fjárhagsáætlun.

Í tilfelli Ísafjarðarbæjar eru afskriftir og lífeyrisskuldbindingar 130 m.kr. sem koma inn í reksturinn sem gjaldaliður án þess að nokkuð hafi breyst í rekstrinum. Þess vegna verður að horfa til sjóðsstreymis og sjá hverju reksturinn skilar í handbæru fé sem er eins og fyrr segir 44,3 m.kr.

Skuldastaða og ráðstöfun á handbæru fé

Frá árinu 2001 hafa langtímaskuldir Ísafjarðarbæjar lækkað um 600 m.kr. á verðlagi í lok ársins 2004. Til að ná þeirri stöðu hefur þurft að greiða hærri fjárhæð auk vaxta á tímabilinu enda hækka skuldirnar um verðbólgu hvers árs. Þessi lækkun skulda þýðir 50 m.kr. lægri vaxtakostnað árlega. Það munar um minna í rekstri sveitarfélagsins.

Í lok ársins 2004 er áætlað að Ísafjarðarbær eigi í sjóði 470 m.kr. Það þýðir að meginhluti þess fjármagns sem fékkst fyrir sölu á eignarhluta Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða hefur farið til niðurgeiðslu skulda. Hluti fjármagnsins hefur svo farið í löngu tímabærar og nauðsynlegar framkvæmdir.

Tekjustofnar sveitarfélaga

Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga er röng, sérstaklega vegna sveitarfélaga á landsbyggðinni sem fá ekki nema hluta af tekjuhækkunum höfuðborgarsvæðisins og sum sjá jafnvel tekjur sínar lækka. Á árinu 2003 var 1/3 sveitarfélaga landsins með neikvætt veltufé frá rekstri. Ísafjarðarbær var ekki eitt þeirra sveitarfélaga en er samt í þörf fyrir tekjuaukningu eða öllu heldur leiðréttingu frá ríkinu. Sérstök tekjustofnanefnd ríkis og sveitarfélaga er að störfum og binda sveitarstjórnarmenn vonir við að hún nái fram nauðsynlegri leiðréttingu.

Gjaldskrár – nokkur dæmi

Tekin var ákvörðun um hækkun á gjaldskrám eins og hjá öðrum sveitarfélögum landsins. Meginreglan var 4% hækkun en í ákveðnum tilfellum var ákveðið að leiðrétta gjaldskrár þar sem viðkomandi málaflokkur stóð ekki undir rekstrarkostnaði.

Í tengslum við fjárhagsáætlun var talað um að sumar gjaldskrár hækkuðu yfir 100% og var akstur fatlaðra tekið sem dæmi. Því er til að svara að akstursgjald var 150 kr. árið 2003 og 155 kr. árið 2004 en þá var ákveðið að lækka það í 75 kr. það árið. Frá 1. febrúar 2005 er það svo aftur 155 kr. eða sama tala aftur.

Mikið var rætt um húsaleigu á Hlíf 1 og jafnvel haldið fram að meirihlutinn hefði ákveðið að selja allar íbúðirnar. Svo er auðvitað ekki heldur kom fram við fyrri umræðu að bjóða ætti upp á þann valkost fyrir leigjendur að kaupa íbúð í stað þess að leigja hana. Þetta á eingöngu að vera valkostur telji leigjandi það hagkvæmara að eiga íbúð frekar en að leigja hana.

Húsaleigan á Hlíf 1 verður hækkuð um 25% á árinu 2005 og er það í prósentum nokkuð mikil hækkun. Séu tölurnar hins vegar skoðaðar kemur í ljós að húsaleiga eftir hækkun er fyllilega samanburðarhæf við það sem gerist annars staðar og sé þróunin skoðuð frá 1999 má sjá að húsaleiga hefur ekki hækkað mikið vegna þess að húsaleigubætur koma til frádráttar á árinu 2003 og síðar.

Séu tekjur undir tveimur milljónum á ári er húsaleiga fyrir minni íbúðirnar á Hlíf 1 kr. 12.977 árið 2005 að frádregnum húsaleigubótum en var 12.023 árið 1999. Miðað við sömu tekjumörk er húsaleiga fyrir stærri íbúðirnar á Hlíf 1 kr. 27.750 árið 2005 að frádregnum húsaleigubótum en var 20.954 árið 1999.

Leikskólagjöld hafa verið í hærri kantinum hjá Ísafjarðarbæ þegar leitað er samanburðar og hækkuðu þau um 10% enda gert ráð fyrir að launakostnaður hækki um 15%. Leitast er við að ná 1/3 rekstrarkostnaðar leikskólanna til baka í formi leikskólagjalda. Ísafjarðarbær rekur sex leikskóla sem er óhagkvæm rekstrareining og þess vegna er kostnaður hlutfallslega hærri en í mörgum sveitarfélögum sem eru sambærileg að öðru leyti.

Sé nokkur möguleiki að lækka rekstrarkostnað leikskólanna t.d. með því að hækka aldursmörk barna sem tekin eru inn á leikskólana verður það gert og rekstrarbata skilað í lægri gjaldskrám.

Staða Ísafjarðarbæjar – villandi umræða

Það verður að segjast eins og er að upplýsingar frá meirihluta bæjarstjórnar um fjárhagsáætlun og stöðu bæjarins hafa ekki skilað sér nógu vel til almennings að þessu sinni. Fluttar hafa verið fréttir af slæmri stöðu fjármála án þess að útskýra hvernig stendur á útgjaldaaukningu ársins 2005 og án þess að útskýra rekstrarbata sem fólginn er í lækkun skulda bæjarfélagsins. Fjárhagsleg staða Ísafjarðarbæjar hefur batnað á undanförnum árum enda sveitarfélagið eitt af fáum þar sem skuldir hafa lækkað en ekki aukist.

Með ritun þessa greinarkorns vilja undirritaðir freista þess að upplýsa íbúa bæjarins um stöðu mála og hvetja þá til að fara inn á heimasíðu Ísafjarðarbæjar http://www.isafjordur.is, lesa þar stefnuræður og skoða aðrar upplýsingar. Sé staða Ísafjarðarbæjar skoðuð í samanburði við önnur sveitarfélög í landinu sést að rekstur bæjarins er fyllilega samanburðarhæfur við önnur sveitarfélög og ekki hægt að taka undir úrtöluraddir sem halda hinu gagnstæða fram.

Þjónusta Ísafjarðarbæjar er víðtæk og góð. Um það eru áreiðanlega flestir íbúar sammála okkur. Stefna meirihluta bæjarstjórnar hefur verið að viðhalda góðri þjónustu enda leggja íbúar áherslu á að þjónusta bæjarins sé áfram góð og hægt að njóta hennar í flestum byggðakjörnum okkar sameinaða sveitarfélags.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi