Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 26.01.2005 | 09:47Dansi, dansi dúkkan mín

Í umræðum um sölu Orkubús Vestfjarða lét þáverandi forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þessi orð falla sbr. frétt í Morgunblaðinu. „Ég er orðin leið á að binda á mig gatslitna skó en með sölu Orkubúsins gæti ég fengið nýja sóla undir skóna sem ég gæti gengið á aðeins lengur,“ en bætir við: „að ekki sé hægt að lofa varanlegri lausn á fjárhagsvanda sveitarfélagsins með sölu Orkubúsins.“ Allir mega sjá að hér er um líkingamál að ræða, hversu smekklegt sem það nú er. Hér var tjaldað til einnar nætur eða pissað í skóinn sinn, eins og við söluandstæðingar bentum á, sem sagt gálgafrestur eins og komið hefur í ljós.

Svo er hún með silkiskó,
sokkana hvíta eins og snjó.
Heldurðu ekki að hún sé fín?
Dansi, dansi dúkkan mín.


En það var ekki lengi hægt að dansa á nýsóluðu skónum enda voru þeir ekki úr varanlegu efni, heldur silki eins og segir í kvæðinu. Það er annað kvæði sem nú á vel við, þegar áhrif af sölu Orkubúsins eru að koma í ljós.

Móðir mín í kví kví,
kvíddu ekki því, því.
Ég skal lána þér duluna mína
að dansa í.


Það var útburðurinn í sögunni sem kvað þessa vísu til móður sinnar sem komst ekki á dansleikinn vegna klæðleysis. Hér er ég með líkingamál eins og bæjarstjórnar- forsetinn árið 2001. Útburðurinn er Orkubú Vestfjarða og móðirin klæðlausa er að sjálfsögðu sveitarfélögin sem stóðu að sölunni. Svartasti dagur í sögu þessa bæjarstjórnarmeirihluta var þegar sala Orkubúsins var ákveðin. Næst á sölulistanum er vatnsveitan, því það er komið gat á skósólana sem keyptir voru fyrir Orkubúspeningana og maður dansar ekki á gatslitnum skóm sem halda ekki vatni. Mér er tíðrætt um dans í upphafi þessa pistils. Það er kannske ástæða til þess, því allt er þetta einn Hrunadans.

Sumir dansa í kringum gullkálfinn eins og Ísraelsmenn gerðu á dögum Móses. Neró dansaði ekki meðan Róm brann, sem hann að vísu hafði kveikt í sjálfur, en hann spilaði á sítar og söng meðan hún brann og skemmti sér keisaralega. Dansinn í Hruna, hinn frægi Hrunadans er frægasta dansiball sem haldið hefur verið á Íslandi, þar sökk kirkjan í jörð niður með manni og mús, meðan á dansleiknum í kirkjunni stóð. Það eru fleiri sem dansa en þeir sem ég hefi nú nefnt. Á meðan landsbyggðin skelfur undan nýjum orkulögum, nýjum orkutöxtum og fannfergi, þá eru þau Valgerður Sverrisdóttir, móðir orkulaganna, og Davíð Oddsson fyrrv. forsætisráðherra, faðir stjórnarinnar, að dansa við bróðir Búss í sólinni á Flórída. Ég sé þau fyrir mér á sundlaugabarminum með bros á vör. Skyldu þau kunna að leika á sítar?

Að vera tvíeinn

Ég held að þess sé getið í Biblíunni að Guð sé tvíeinn. Að vera tvíeinn hef ég ekki skilið fyrr en nú þegar Davíð Oddsson fór til Flórída og tvífari hans, Halldór Ásgrímsson, varð bæði forsætis- og utanríkisráðherra í senn. Þar með var Halldór orðinn tvíeinn. Þegar Davíð kemur heim og Halldór fer að heimsækja Bush eða bróður Bush eða fer eitthvað annað sér til hvíldar og hressingar, þá tekur Davíð að sjálfsögðu við þessum embættum af Halldóri og þá verður Davíð líka tvíeinn eins og Halldór. Halldór og Davíð eru meðal æðstu manna þjóðarinnar, ef ekki æðstir og taka eftirlaun samkvæmt því sbr. nýju eftirlaunalögin sem sniðin voru til verndar æðstu mönnum þjóðarinnar og gerð til þess,að sögn talsmanna frumvarpsins, til að gera gömlum ráðherrum kleyft að hætta á besta aldri, því ráðherrar sem hætta störfum fá hvergi vinnu og verða því að lifa á eftirlaunum, jafnvel frá unga aldri eins og komið hefur í ljós.

Í hlekkjum

Hvers vegna eru sendiherrar og aðrir, fyrrverandi ráðherrar, í fullu starfi með eftirlaun? Spaugstofan svaraði þessu nokkuð vel þegar þeir sýndu sendiherrana hlekkjaða við skrifborðin til að vinna af sér þann skaða sem þeir ollu þjóðinni á meðan þeir voru í ráðherrastól. Ég ætla að nefna nokkur dæmi.

Steingrímur Hermannsson setti lög 1980 eða 1982 sem kom ungum íbúðakaupendum mjög illa. Lögin virkuðu þannig að íbúðalánin hækkuðu upp úr öllu valdi en kaupið stóð í stað. Þetta setti margt ungt fólk á hausinn og margt af þessu fólki hefur aldrei náð sér upp úr feninu. Svar Steingríms var þetta: „Ég vissi ekki að lögin virkuðu svona.“ Samt var ekki reynt að breyta lögunum eða er ekki hægt að breyta lögum sem virka ekki eins og ætlast er til?
Halldór Ásgrímsson, guðfaðir kvótans, lét eftirfarandi orð falla í viðtali um kvótamálið þar sem fram kom hvað kvótalögin hefðu leikið landsbyggðina grátt. „Það var ekki meiningin að þau virkuðu þannig.“ Samt var þeim ekki breytt. Þessi sami Halldór sagði þegar stjórnarskráin var fyrir honum í öðru tilfelli: „Þá breytum við bara stjórnarskránni.“ Eigum við að taka mark á svona manni? Nei.

Jón Sigurðson bankastjóri Norræna fjárfestingabankans og fyrrv. iðnaðarráðherra kastaði rekunum á íslenskan skipaiðnað með þessum orðum: „Við höfum ekki efni á að nýta okkur ekki niðurgreiðslur annarra þjóða til skipasmíða.“ Niðurgreiðslur annarra þjóða voru nýttar en íslenkar skipasmíðar hafa ekki borið sitt barr síðan.

Páll Pétursson fyrrv. félagsmálaráðherra sagði þegar sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum kvörtuðu við hann um bága fjárhagsstöðu: „Seljið þið bara Orkubúið.“ Hann var upphafsmaður af sölu Orkubúsins en sveitarstjórnarmennirnir þurftu ekki að hlýða honum en voru of leiðitamir stjórnarflokkunum eins og mörg dæmi sanna.

Valgerður Sverrisdóttir hét því að raforkuverð myndi ekki hækka við nýju orkulögin. Vissi hún ekki hvernig þau virkuðu eða var hún að ljúga að okkur?

Það nýjasta er að skv. ummæla Halldórs Ásgrímssonar og Guðmundar Árna Stefánssonar í sjónvarpinu í gær, þá virkuðu eftirlaunalögin ekki eins og til var ætlast. Að þeirra sögn var ekki meiningin að fyrrv. ráðherrar í fullu starfi hjá ríkinu fengju eftirlaun, samt var nokkrum þeirra greiddar 17 miljónir í eftirlaun á síðasta ári og nú telja þeir nauðsynlegt að breyta lögunum svo þau virki eins og til var ætlast. Hér endurtekur sig gamla sagan af þeim sem vöktu upp drauga og réðu ekkert við þá og neyddust til að koma þeim fyrir, sem ósjaldan tókst ekki.

Þetta er bara sýnishorn af ummælum og gerðum nokkurra ráðherra sem mér eru nærtæk. Auðvelt væri að tína marg fleira fram og nefna fleiri nöfn en lámarkskrafa til ráðherra er að hann eða hún viti hvernig þau lög virka sem sett eru og ef þau virka öðruvísi en ætlast er til þá að breyta þeim. Nú er spurningin hvað þessir eftirlaunaþegar þurfa lengi að vera í hlekkjum til að afplána misgerðirnar.

Þriðja þjóðin

Það hefur oft verið nefnt að það búi tvær þjóðir í þessu landi. Þá er átt við þá ríku og hina fátæku, þá sem allt geta veitt sér og þá sem verða að neyta sér um flest sem aðrir telja sjálfsagt. Þessar þjóðir eru fleiri að mínu mati. Eftir að nýju orkulögin hennar Valgerðar tóku gildi bættist a.m.k. ein þjóð við í landinu, þriðja þjóðin. Fólk sem samanstendur af þeirri þjóð er það fólk sem býr á þeim stöðum þar sem íbúafjöldi er 200 eða minna, annað stig dreifbýlis. Þetta fólk er lægst settasta þjóðin í landinu. Það var einfaldlega dregið strik á korti. Hvers vegna 200 en ekki einhver önnur tala? Eflaust útreiknað af sérfræðingum.

Oft hefur þegnunum í þessu landi verið mismunað en þetta er það grófasta sem ég þekki og tel ég mig samt vera nokkuð vel lesinn. Hér á ég auðvitað við þá ákvörðun að láta fólk í hinum dreifðu byggðum landsins borga a.m.k. 45-50% hærra verð fyrir raforkuna en þeir sem eru réttu meginn við strikið. Þetta er ómannúðleg villimennska og ætti ekki að lýðast í þjóðfélagi sem telur sig til menningarríkja síst af öllu í 300.000 manna samfélagi. Stjórnarskráin kveður svo á að ekki megi mismuna þegnunum og eru ekki allir jafnir gagnvart lögunum? Virkuðu hin nýju orkulög jafnt á alla? Ég hvet alla sem verða fyrir barðinu á hinum nýju orkulögum að stofna samtök sér til varnar og lýsi ég hér með eftir foringja til að leiða samtökin, sama hvar á landinu hann er búsettur.

Evrópusambandið og orkulögin

Ráðamenn skýla sér gjarnan bak við ESB og segja að þetta og hitt sé vegna tilskipana frá ESB. Ég vil hér vitna í grein Aðalsteins Guðjónssonar frá 27. febr. 2002 en hann segir: „Stjórnvöld hafa unnið að lagasmíð þessari (þ.e. ný orkulög.) innan eigin veggja. Fulltrúar raforkufyrirtækjanna hafa ekki verið hafðir með við sjálfa vinnuna. Kynning frumvarpsdraganna hefur einnig verið sérkennilega lokuð. Ef marka má fréttir gera raforkufyrirtæki landsins verulegar athugasemdir við þessi drög. Það veldur áhyggjum að þeim sé nú varpað til alþingismanna í slíkum búningi.“

Ennfremur segir í sömu grein: „Í Evrópu dregur ríkisvaldið sig í vaxandi mæli út úr rekstri raforkufyrirtækja en þau færast á hendur sveitarfélaga og einkaaðila sem einnig gætu rekið minni og meðalstórar virkjanir.“ Á sama tíma og þessi stefna er uppi í Evrópu, þ.e. að ríkið er að selja sveitarfélögum og einkaaðilum orkufyrirtækin, þá er íslenska ríkið að kaupa orkufyrirtækin af sveitarfélögunum með þeim bölvanlegu afleiðingum sem það hefur í för með sér. Hver var að ljúga að hverjum?

Samanburður á orkuverði

Það hefur verið reiknað út að heimilisfaðir vitlausu megin við 200 íbúa markið þurfi að bæta við sig vinnu sem nemur mánaðarkaupi láglaunamanns einungis til að mæta rafamagnshækkuninni einni saman. Einnig hefur verið reiknað út að Vestfirðingar þurfi að borga 70-80 miljónum kr. meira fyrir rafmagnið árið 2005 en þeir gerðu 2004. Væru þessir peningar ekki betur komnir hjá því Orkubúi sem var í eigu sveitarfélaganna á Vestfjörðum.

Þegar ég var að berjast fyrir lífi Orkubúsins árið 2000 og 2001 benti ég á að raforkuverð myndi hækka um a.m.k. 20% ef ríkinu yrði selt Orkubúið. Á það var ekki hlustað og því mótmælt af sölumönnunum. Þá fékk ég fékk upplýsingar um samanburð á verði hjá Orkubúinu annars vegar og Rarik og Reykjavík hinsvegar. Ég vil birta þessar tölur hér svo að menn geti séð hvar við stóðum þá.

„Í dag þ.e árið 2001 er Orkubúið að selja fyrirtækjum á Vestfjörðum rafmagn sem er 30% lægra en á svæðum Rarik og 10-12% lægra verði en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu eiga kost á að fá. Almennt rafmagn, þ.e. til lýsingar og minniháttar atvinnurekstrar er í dag á 20% lægra verði en hjá Rarik og á svipuðu verði og á höfuðborgarsvæðinu. Hitunarkostnaður er 6% lægri en hjá Rarik en 25% hærri en hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Þegar Orkubúið var stofnað var hitunarkostnaður á Vestfjörðum 600% hærri en í Reykjavík en er nú 25% hærri. Almennt rafmagn og rafmagn til iðnaðar var þá 70% hærra hér en í Reykjavík en er nú á svipuðu verði en 20% lægra en hjá Rarik.”

Orkubúið var stofnað til þess að Vestfirðingar fengju ódýrt rafmagn og nægjanlegt rafmagn, eins og fram kom á fyrstu fundum þess. Hvoru tveggja gekk eftir. Nú erum við á hraðri leið á byrjunarreitinn og þörf á að stofna nýtt Orkubú. Forsendurnar eru þær sömu.

Fjárhagsstaða sveitarfélagsins

Það dylst engum að fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga á landinu er óviðunandi. Ástæður eru eflaust margar en ein sú stærsta er skipting tekna milli ríkis og sveitarfélaga. Þetta vita allir. Með flutningi verkefna frá ríkinu til sveitarfélaganna fylgdu ekki nægjanlegir fjármunir til að standa straum af kostnaðinum. Ríkið státar af tekjuafgangi en fjöldi sveitarfélaga rambar á barmi gjaldþrots og geta sig hvergi hreyft. Bendir þetta ekki til þess að vitlaust hafi verið gefið? Umræður um þessi mál hafa verið í gangi svo árum skipti en ekkert gerist. Halldór bæjarstjóri hefur marg bent á að niðurstaða í þessu máli þoli enga bið. Hann hvetur ríkisvaldið til að taka á með sveitarfélögunum um að leiðrétta fjárhaginn. Hvernig væri að ríkið stokkaði spilin og gæfi upp á nýtt en þeir gera það ekki. Hvað er þá til ráða?

Ólafsfjarðarbær íhugar að selja hitaveituna, Ísafjarðarbær íhugar að selja vatnsveituna, alla vega hafa þær raddir heyrst. Í guðanna bænum gerið það ekki. Deyið heldur með reisn. Þó að ríkið eigi stóran þátt í því hvernig komið er fyrir allt of mörgum sveitarfélögum vil ég ekki fría stjórnendur sveitarfélaganna allri ábyrgð. Þeir hafa víðast hvar verið já-menn ríkisstjórnarinnar enda áhangendur hennar og ekki viljað styggja stóra pabba. Þeir létu teyma sig á asnaeyrunum þegar verkefni voru færð frá ríki til sveitarfélaga, ekki það að ég sé á móti því að verkefni færist til sveitarfélaganna, þvert á móti, en að láta einhvert ráðuneyti skammta það fjármagn sem til þarf án þess að sveitarfélögin komi þar hvergi nærri það gengur einfaldlega ekki. Sveitarfélögin verða einfaldlega að ráða sínum tekjustofnum innan viðurkennds lagaramma.

Ísland framtíðarinnar

Einn af sjálfskipuðum ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar, sem er skipulagsfræðingur að mennt, birti fyrir nokkrum árum sína framtíðarsýn af búsetu á Íslandi. Hún var stutt en hnitmiðuð. Byggðin átti að teygja sig frá Reykjavík austur fyrir fjall um Suðurlandsundirlendið og upp í Borgarfjörð á hinn veginn, auk þess áttu Suðurnesin að vera áfram í byggð. „Að öðru leyti skyldi landið vera óbyggt.“ Þannig komst hann að orði. Getur verið að ríkistjórnin hafi tekið tillögur hans alvarlega?

25. janúar 2005.
Jón Fanndal Þórðarson.
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi