Grein

Starfshópur um stofnun Þekkingarseturs | 25.01.2005 | 13:24Um Þekkingarsetur á Vestfjörðum

Í grein sem Ólína Þorvarðardóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði og stjórnarformaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, ritar á bb.is föstudaginn 21. janúar sl. gagnrýnir hún áform um stofnun Þekkingarseturs Vestfjarða. Í greininni ræðir Ólína hugmyndir starfshóps sem kynntar voru stjórn Fræðslumiðstöðvar og dregur af þeim ótímabærar ályktanir. Í þessari grein verða áætlanir um uppbyggingu Þekkingarseturs Vestfjarða kynntar eins og þær liggja fyrir nú.

Hugmyndir heimamanna og viðbrögð menntamálaráðuneytis

Hugmyndir um stofnun Þekkingarseturs Vestfjarða eru í eðlilegu samræmi við hugmyndir heimamanna sem hafa verið í mótun allt frá árinu 1996. Þær hugmyndir voru meðal annars settar fram árið 2003 í skýrslu samstarfshóps Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, Fjórðungssambands Vestfirðinga og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða um uppbygginu háskólanáms og rannsókna á Vestfjörðum. Þar voru sett fram eftirfarandi markmið:

 Efla rannsóknir á Vestfjörðum og koma á virkara samstarfi á milli aðila á Vestfjörðum og innan rannsóknarumhverfis háskólanna.

 Skapa Fræðslumiðstöð Vestfjarða það umhverfi sem þarf til að vinna að áframhaldandi uppbygginu náms á Vestfjörðum, háskólanáms jafnt sem fullorðinsfræðslu á öðrum skólastigum.

 Útbúa fullkomna náms- og kennsluaðstöðu til frambúðar.

 Skapa rannsóknarverkefnum umgjörð.

 Auðvelda fræði- og vísindamönnum að koma til lengri eða styttri dvalar á Vestfjörðum og stunda þar rannsóknir.

 Að mynda tengslanet innlendra og erlendra þekkingarstofnana og fyrirtækja sem eiga samleið á sviði þekkingarstarfs.

 Efla nýsköpun og útrás atvinnulífs og samfélaga.

Þessi markmið voru síðan útfærð frekar í skýrslu nefndar menntamálaráðherra sem skilaði skýrslu vorið 2004. Í þeirri skýrslu er reyndar lagt til að háskólasetur verði byggt á grunni Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða en þegar tillögur miðstöðvarinnar voru lagðar fyrir menntamálaráðherra í október sl. var það mat ráðherrans að nauðsynlegt væri að skipa starfshóp til að vinna að málinu. Í hópnum eiga sæti: Arnór Guðmundsson, þróunarstjóri, menntamálaráðuneyti, Ármann Kr. Ólafsson aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Rögnvaldur Ólafsson, forstöðumaður fræðasetra Háskóla Íslands, Smári Haraldsson, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða, og Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri. Starfsmaður hópsins er Kristrún Lind Birgisdóttir. Það er því ljóst að heimamenn eiga verðuga fulltrúa í starfshópnum.

Áætlanir um Þekkingarsetur

Starfshópur um Þekkingarsetur á Vestfjörðum hefur gert áætlun sem miðar að því að Þekkingarsetur Vestfjarða verði formlega stofnað þann 9. mars nk. og starfsemi hefjist af fullum krafti næsta haust. Þekkingarsetur Vestfjarða verður sjálfstæð stofnun með sjálfstæðan fjárhag sem verður samstarfsvettvangur um háskólanám og rannsóknir. Að því munu eiga aðild háskólar, rannsóknarstofnanir og Fræðslumiðstöð Vestfjarða en áætlað er að hún sjái um þjónustu við háskólanema og samstarf við háskóla, m.a. um staðbundið nám.

Hugmyndir um Þekkingarsetur gera ráð fyrir því að það verði staðsett undir sama þaki og þær stofnanir sem nú eru til staðar í Þróunarsetri Vestfjarða í Vestrahúsinu við Árnagötu og þær munu jafnframt eiga aðild að hinu nýja Þekkingarsetri. Nýlega var lokið við úttekt á núverandi húsnæði Fræðslumiðstöðvarinnar og aðstöðu í Vestrahúsinu þar sem fram kemur að Vestrahúsið sé vænlegri kostur en núverandi húsnæði til þess að hýsa starfsemi miðstöðvarinnar og aukin umsvif vegna háskólanáms. Gert er ráð fyrir að 750 fermetrar verði innréttaðir til viðbótar í Vestrahúsinu til að rúma starfsemi Fræðslumiðstöðvar og aðstöðu fyrir fjarnám og staðbundið nám á háskólastigi. Þess má geta að núverandi húsnæði Fræðslumiðstöðvarinnar mun vera um 420 fermetrar. Hér er því ekki verið að þröngva Fræðslumiðstöðinni í þröngt húsnæði heldur verið að skapa henni veglega aðstöðu til að sinna vaxandi hlutverki.

Eftirspurn eftir háskólamenntun á Vestfjörðum

Í könnun sem Byggðarannsóknarstofnun Íslands gerði fyrir menntamálaráðuneytið komu fram að óskir Vestfirðinga um mjög fjölbreytt háskólanám sem spannaði vítt svið raun-, hug-, félags- og heilbrigðisvísinda. Á Vestfjörðum stunda nú 163 nemendur fjarnám á 26 mismunandi námsleiðum. Vandséð er hvernig einn háskóli ætti að geta sinnt þessu fjölbreytta námsframboði. Þetta mat er staðfest í umsögn fræðslunefndar Ísafjarðarbæjar um þingsályktunartillögu um háskóla á Vestfjörðum en þar segir:,,Fræðslunefnd telur nauðsynlegt að háskóla verði komið á laggirnar á Vestfjörðum en telur að hefðbundinn háskóli á Vestfjörðum nái tæplega að sinna fjölbreyttum þörfum svæðisins eins og þörf er á. Nær væri að tryggja fjölbreytt nám sem hægt væri að stunda hvaðan sem er, eins og t.d. með netháskóla". Með stofnun Þekkingarseturs Vestfjarða er verið að vinna að því að tryggja fjölbreytt námsframboð með netháskólafyrirkomulagi þannig að nemendur eigi kost á að stunda fjölbreytt háskólanám við bestu háskóla.

Nemendur í fjarnámi hafa margir nýtt sér þá þjónustu sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur upp á að bjóða en aðrir stunda nám sitt heima eða að heiman á þeim tíma og hraða sem þeim best hentar. Með stofnun Þekkingarseturs er gert ráð fyrir að nemendum í fjarnámi fjölgi, þjónusta við þá aukist og lögð verði áhersla á að styðja vel við bakið á þeim nemendum sem eru að stíga sín fyrstu skref á háskólastigi. Þannig er tekið sérstaklega á þörfum nýútskrifaðra stúdenta sem vilja hefja sitt háskólanám eða stunda það allt í heimabyggð. Gert er ráð fyrir að Fræðslumiðstöðin, sem hefur átt gott samstarf við nemendur í fjarnámi, sjái um þessa stoðþjónustu og byggi hana á þeirri góðu reynslu sem hún hefur á þessu sviði. Hugmyndin er að Þekkingarsetur sjái Fræðslumiðstöð Vestfjarða fyrir auknu fjármagni til þess að sinna þessu hlutverki sem styrkir stöðu Fræðslumiðstöðvar til muna. Jafnframt er gert ráð fyrir að fram fari staðbundin kennsla eftir því sem kostur er.

Starfsemi Þekkingarseturs

Í hugmyndum starfshóps um stofnun Þekkingarseturs á Vestfjörðum er ekki kveðið endanlega á um fjölda stöðugilda. Gert er ráð fyrir að ráðinn verði framkvæmdastjóri og a.m.k. annar starfsmaður til Fræðslumiðstöðvar til að sinna aukinni þjónustu við háskólanema. Auk þeirra verði starfandi í Þekkingarsetrinu starfsmenn háskóla og rannsóknarstofnana sem munu sinna rannsóknum og kennslu. Gert er ráð fyrir að rannsóknarstofnanir, fyrirtæki, háskólar og sveitarfélög geti gerst aðilar að Þekkingarsetri. Hugmyndir starfshópsins gera ráð fyrir að stjórn Þekkingarseturs verði skipuð fulltrúum stofnana, fyrirtækja eða sveitafélaga á Vestfjörðum.

Starfshópur menntamálaráðherra heldur áfram störfum og þegar hugmyndir um stofnun Þekkingarseturs verða tilbúnar til kynningar verða þær kynntar hagsmunaaðilum á Vestfjörðum. Eitt af mikilvægustu skrefum í ferlinu var að kanna vilja stjórnar Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða fyrir samstarfinu. Á fundi stjórnar miðstöðvarinnar var ákveðið að ganga til samstarfs við Þekkingarsetur Vestfjarða og taka þátt í uppbyggingu þess. Einnig hefur fulltrúaráð Fræðslumiðstöðvarinnar lýst yfir stuðningi við áformin.

Á öllum stigum hafa áform um Þekkingarsetur verið unnin í náinni samvinnu menntamálaráðuneytis, heimamanna og háskóla. Um þau skref sem tekin hafa verið hefur ríkt víðtæk sátt. Um er að ræða metnaðarfull áform um háskólastarfsemi á Ísafirði - starfsemi sem markar fyrstu raunverulegu skrefin í átt að háskóla á Vestfjörðum.

Starfshópur menntamálaráðuneytis um stofnun Þekkingarseturs á Vestfjörðum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi