Grein

| 28.08.2001 | 13:01Til hvers að vera í FÍB?

Við hjónin vorum að koma akandi um Djúpið á föstudagskvöldið og vildi þá svo til, þegar við vorum rétt komin í Skötufjörð, að eitthvað gaf sig í bílnum með miklum hávaða. Við ákváðum því að nema staðar og fá aðstoð við að koma bílnum í burtu eða í lag. Ég fékk far til Ísafjarðar með vinsamlegu fólki í næsta bíl. Maðurinn minn varð hins vegar eftir í okkar bíl þar sem í honum var mikið af farangri og því alveg út úr myndinni að yfirgefa bílinn þarna í myrkrinu.
Ég fór úr bílnum við lögreglustöðina á Ísafirði og spurði þar hvort þau hefðu einhvern tengilið við aðstæður sem þessar, en þau kváðu svo ekki vera. Þá spurði ég hvort ekki væri nein FÍB-aðstoð á svæðinu. Þau höfðu séð kort yfir staðsetningu þeirra um verslunarmannahelgina, þar sem Vestfirðir voru greinilega ekki inni í myndinni.

Í Skötufirðinum og víðar í Djúpinu er ekki GSM-símasamband og gátum við því ekki hringt á aðstoð þaðan.

Eftir samtal mitt við lögregluþjónana fór ég heim og greip símaskrána. Undir Félagi íslenskra bifreiðaeigenda í Reykjavík var eitthvað sem nefnt var „FÍB-aðstoð“. Ég hringdi í það númer og var örugglega að raska svefnró vesalings mannsins! Hann hafði ekkert ráð en gat hugsanlega gefið mér upp nafn á tengilið hérna fyrir vestan fyrir hönd félagsins. Ég hafði þá sagt honum að maðurinn minn væri búinn að vera félagsmaður í FÍB a.m.k. á annan áratug en hefði aldrei þurft á aðstoð að halda fyrr. Hann benti mér bara á að hafa samband við skrifstofuna eftir helgi til að fá svör við því hvers vegna hér væri engin aðstoð veitt.

Þar sem ég hafði séð ljós að Garðsstöðum við Djúp áður en við lentum í þessu, þá ákvað ég að lokum um hálftvöleytið um nóttina að reyna að hringja í Þorbjörn Steingrímsson. Hann tók ljúflega í erindi mitt og eftir tvo klukkutíma frá því að ég hringdi var hann búinn að bjarga málunum!

Komst því maðurinn minn heim þótt vel væri liðið á nótt, með bílinn og farangurinn.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi