Grein

Dr. Ólína Þorvarðardóttir.
Dr. Ólína Þorvarðardóttir.

Dr. Ólína Þorvarðardóttir | 21.01.2005 | 14:06Fjallið tók jóðsótt - fæddist mús


Háskólamál Vestfjarða í hnotskurn

Setjum okkur í þau spor að hér á Íslandi væri ekkert starfandi flugfélag. Nú væru landsmenn orðnir langþreyttir á skipaferðum og krefðust þess að fá hér íslenskt flugfélag til þess að komast í eðlileg samskipti við umheiminn. Evrópuráðið kæmist hinsvegar að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hefðu ekkert að gera með innlent flugfélag, heldur skyldu þeir gera sér að góðu útibú frá SAS - ef og þegar það ágæta flugfélag teldi sig aflögufært. Hætt er við að ýmsum þættu þetta afarkostir og óhægt um vik að þróa hér eðlileg samkeppnisskilyrði í flugsamgöngum framtíðarinnar. Venjulegir Íslendingar myndu skynja skert forræði yfir eigin málefnum - niðurlægingu.

Þetta er þó einmitt það sem er að gerast í málefnum háskólauppbyggingar á Vestfjörðum. Árum saman hafa Vestfirðingar kallað eftir háskóla til þess að geta menntað sitt unga fólk og stuðla þar með að atgerfissókn og atvinnusköpun í héraðinu, en eins og alkunna er hafa Vestfirðingar staðið frammi fyrir byggðaröskun mörg undanfarin ár. Við höfum farið fram á það að á okkur sé hlustað, að við fáum sjálf að skilgreina þarfirnar sem til staðar eru og hafa þar með ákveðið forræði í málinu - að sjálfsögðu þó með samstarfi við aðra háskóla og undir tilsjón menntamálaráðuneytisins, eins og lög gera ráð fyrir.

Málið hefur verið látið velkjast fram og til baka, í gegnum hverja nefndina af annarri og endalausa umræðu um „þekkingarsetur", „háskólasetur", „háskóla", „háskólanámssetur" og nauðsyn þess að stuðla að samstarfi rannsóknarstofnana hér á Vestfjörðum og koma upp svokölluðu „þekkingarumhverfi". Í þeirri umræðu hefur algjörlega verið horft framhjá því þekkingarsamfélagi sem fyrir er hér vestra, ekki síst á norðanverðum Vestfjörðum þar sem nú þegar eru öflugar mennta og menningarstofnanir, grunnskólar, 430 nemenda menntaskóli, listaskólar og rannsóknarstofnanir í ágætum samskiptum. Við Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur auk þess sprottið upp vísir að háskólasamfélagi í tengslum við 163 háskólanema sem þar stunda fjarnám í ýmsum greinum.

Þessum staðreyndum hefur ekki verið haldið á lofti af þeim sem hafa tekið að sér það hlutverk að skilgreina fyrir okkur Vestfirðinga hvað okkur sé fyrir bestu. Það sem verra er, þeir sem raunverulega ráða ferðinni virðast forðast eins og heitan eldinn að stuðla með einhverjum raunhæfum hætti að því sem mest er um vert: Að koma hér upp raunverulegri háskólastarfsemi sem grundvallast á háskólakennslu. Ef marka má niðurstöður nýjustu nefndarinnar um háskólamálin hefur það brýna hagsmunamál nú endanlega verið borið fyrir borð.

Stöðugildið eina, nefnt Þekkingarsetur

Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á tillögur starfshóps sem menntamálaráðherra skipaði s.l. haust. Samkvæmt upplýsingum þeim sem verkefnisstjóri nefndarinnar kynnti stjórn Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða þann 19. janúar liggur þetta fyrir:

Gerð verður tillaga um eitt stöðugildi inni í Þróunarsetri Vestfjarða (hugsanlega eitt og hálft). Þetta eina stöðugildi mun fá heitið „þekkingarsetur" og verða rekið á forræði háskólanna fyrir sunnan og norðan. Ekki er gert ráð fyrir aðild heimamanna, en „kannski" verður gerður verksamningur við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um að „sinna símenntun og þjónustu vegna háskólanáms". Vart þarf að taka fram að þessu hlutverki hefur Fræðslumiðstöðin sinnt um langt árabil. Verksamningur við Fræðslumiðstöð er þó háður því skilyrði að hún flytji sig úr þeim húsakynnum sem hún er í nú þegar og taki sér bólfestu í Þróunarsetrinu - þaðan sem hún flutti vegna þrengsla fyrir þremur árum. Gert ráð fyrir að stöðugildið eina, sem nefnt er þekkingarsetur, verði „samstarfsvettvangur um háskólamenntun, símenntun og rannsóknir" án þess að það sé skilgreint nánar.

Það fylgdi sögunni að hér sé verið að stíga jákvætt skref, því úr út þessu geti komið „hvað sem er". Þegar innt var nánar eftir staðbundinni háskólakennslu upplýstist að hún væri eitthvað sem „jafnvel" gæti komið „í fyllingu tímans" en væri ekki inni á borðum eins og sakir standa. Semsagt - ekkert á döfinni!

Nefnda-hringekjan

Starfshópur sá sem nú er að skila tillögum var skipaður af menntamálaráðherra á haustmánuðum. Í fyrravetur var að störfum önnur nefnd, einnig skipuð af ráðherra, sem skilaði niðurstöðum síðastliðið vor. Þar áður hafði Fræðslumiðstöðin átt aðild að nefnd sem samanstóð af fulltrúum Atvinnuþróunarfélags, Fjórðungssambands og Fræðslumiðstöðvar í samvinnu við Ísafjarðarbæ.

Skemmst er frá því að segja að stjórn Fræðslumiðstöðvar hafði tekið þessi nefndastörf alvarlega. Í ráðherraskipuðu nefndinni sem skilaði skýrslu síðastliðið vor var lagt til að stofnað yrði þekkingarsetur á Ísafirði og starfsemi þess grundvölluð á Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Jafnframt yrði komið hér upp staðbundinni háskólakennslu samhliða þeirri þjónustu sem fyrir er við fjarnema. Fjórðungssamband Vestfirðinga skoraði á stjórnvöld, haustið 2004, að tryggja fjármagn til þess að slík starfsemi gæti farið af stað „með afgerandi hætti m.a. með staðbundinni kennslu á háskólastigi frá og með hausti 2005."

Stjórn Fræðslumiðstöðvar tók niðurstöður nefndarinnar og mótaði úr þeim tillögur að útfærslu sem kynntar voru öllum þingmönnum Norðvesturkjördæmis á sérstökum fundi með þeim í október síðastliðnum. Á þeim fundi voru málefnalegar og upplýsandi umræður, í góðri sátt, um nauðsyn þess að koma sem fyrst upp staðbundinni háskólakennslu á Ísafirði. Ennfremur að Fræðslumiðstöðin hefði forgöngu um uppbyggingu háskólastarfseminnar og þarfagreiningu vegna hennar. Var ekki annað á þingmönnum að heyra en að þeir fögnuðu framtaki stjórnarinnar og væru reiðubúnir að styðja þá málsmeðferð sem þar var lögð til.

Með þetta vegarnesti var síðan gengið á fund menntamálaráðherra í desember síðastliðnum. Hér verður fátt sagt af því sem fram fór lokuðum fundi annað en það að ráðherra boðaði nú skipan nýrrar nefndar. Í útvarpsviðtali skömmu síðar kom fram að ráðherra taldi fráleitt að Vestfirðingar hefðu sjálfir forræði í þessu máli, enda gæti menntamálaráðuneytið ekki afsalaði sér yfirumsjón með menntamálum fjórðungsins til heimamanna. Raunar er mér óskiljanlegt hvernig sá skilningur komst inn hjá ráðuneytismönnum að heimamenn hefðu verið að fara fram á það. Enginn minntist á það þegar Akureyringar fengu sitt háskólaforræði að þar með væri verið að taka fram fyrir hendurnar á menntamálaráðuneytinu - en hitt er jafn víst að háskólinn á Akureyri hefði aldrei náð að dafna eins og raun ber vitni nema fyrir forræði heimamanna.

Í 4. og 5. gr. laga um háskóla segir að menntamálaráðherra skuli hafa eftirlit með gæðum menntunar sem háskólar veita og að þeir uppfylli ákvæði laga og þeirra sérfyrirmæla sem um þá gilda. Menntamálaráðherra setur almennar reglur um það með hvaða hætti hver háskóli skuli uppfylla skyldur sínar um eftirlit með gæðum kennslunnar, hæfni kennara og hvernig ytra gæðaeftirliti skuli háttað. Engum lifandi manni hefur mér vitanlega komið til hugar að fara fram á neitt annað en þetta. Þegar við heimamenn tölum um að halda forræði erum við að sjálfsögðu að tala um háskólastarfsemi á forsendum gildandi laga. Það er hinsvegar grundvallaratriði að heimamenn fái sjálfir að hafa forgöngu í þessu máli og gera grein fyrir því hverskonar þekkingarstarfsemi þeir óska eftir; að þeir fái sjálfir að velja sér samstarfaðila úr röðum háskólanna í stað þess að vera ofurseldir forsjá annarra landshluta um framboð háskólamenntunar. Eða finnst mönnum virkilega eðlilegt að helstu menntastofnanirnar á svæðinu sjái sig tilneyddar að sitja áhrifalausar hjá í slíkri umræðu?

Byrjað á öfugum enda

Lögum samkvæmt er háskóli stofnun sem „jafnframt sinnir rannsóknum ef svo er kveðið á í reglum um starfsemi hvers skóla", eins og það er orðað (2. gr.). Háskólum er áskilið að "veita nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, nýsköpun og listum og til þess að gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu þar sem æðri menntunar er krafist /.../ miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar". Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því í lögum um háskóla að hjarta hverrar háskólastarfsemi sé sú kennsla sem þar fer fram, að út frá henni skapist svo skilyrði til rannsókna og annarrar þekkingarstarfsemi.

Í tillögum nýju nefndarinnar er hinsvegar byrjað á öfugum enda. Samkvæmt þeim á þekkingarumhverfið og rannsóknarstarfið að koma fyrst og svo má athuga með kennsluþáttinn síðar.

Eins og málum er nú háttað er hinsvegar afar hæpið að það þekkingarsamfélag sem til staðar er hér vestra verði þróað mikið lengra, nema til komi hinn nærandi þáttur háskólakennslunnar, þ.e. hinnar staðbundnu háskólakennslu sem heimamenn hafa svo ákaft kallað eftir.

Hvert skal stefna?

Á fyrri stigum þessarar háskólaumræðu benti ég á þann möguleika að Menntaskólinn á Ísafirði gæti tekið að sér tímabundið að veita kennslu í grunnáföngum á háskólastigi, til þess að flýta fyrir því að unnt verði að hefja staðbundna háskólakennslu á Vestfjörðum. Svipað fordæmi var gefið þegar gagnfræðaskólar landsins starfræktu á sínum tíma framhaldsdeildir áður en menntaskólar voru komnir í alla landsfjórðunga. Þetta er ein leið sem kemur til greina, en þó engan veginn eina leiðin. Það mætti líka hugsa sér þá leið sem Kristinn H. Gunnarsson hefur lagt til, að stofna einfaldlega háskóla - og gera það almennilega í eitt skipti fyrir öll.

Það væri hinsvegar afleitt ef þetta mikilvæga mál ætti að standa og falla með því hvaða afstöðu menn taka til útfærslunnar. Aðalatriðið er þetta: Það má ekki dragast lengur að koma upp staðbundinni kennslu á háskólastigi á Vestfjörðum. Vestfirsk ungmenni eiga að geta staðið jafnfætis ungmennum í öðrum landshlutum þegar kemur að möguleikum til menntunar. Hvers vegna? Vegna þess að menntun er mannréttindi og uppbygging háskólanáms er eitt brýnasta velferðar- og byggðamál okkar Vestfirðinga eins og sakir standa.


Dr. Ólína Þorvarðardóttir. Höfundur er skólameistari Menntaskólans á Ísafirði og stjórnarformaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi