Grein

Sigurjón Þórðarson.
Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson | 17.01.2005 | 17:57Minni afli en þegar nasistar komu í veg fyrir veiðar

Annas Sigmundsson sendi svar við grein minni sem birtist á mjög góðum vef www.bb.is þann 11. janúar s.l. þar sem ég benti Annasi á að kynna sér línurit sem er á heimasíðu minni www.sigurjon.is, sem sýna augljóst árangursleysi kvótakerfisins. Línuritin sýna svo ekki verður um villst að frá því að kvótakerfið var tekið upp fyrir um 20 árum, þá hefur bæði þorskafli og þorskstofn minnkað. Á svargrein Annasar má helst ráða að hann hafi ekki kynnt sér línuritin sem unnin eru upp úr gögnum Hafrannsóknarstofnunar.

Annas heldur nefnilega því enn fram að kvótakerfið hafi náð umtalsverðum árangri eftir 1991, þar sem þorskstofninn hafi stækkað. Ekki veit ég hvernig í ósköpunum Annas kemst að þessari undarlegu niðurstöðu og vil ég benda á að í töflu á bls. 89 í fjölriti nr. 102 sem Hafrannsóknarstofnun gaf út í júní 2004 koma fram afla tölur allt til ársins 1905. Út frá aflatölum í töflunni má reikna að ef rakin eru 12 ára meðaltöl aftur í tímann allt til þess er Íslendingar urðu fullvalda ríki árið 1918, þá er ljóst að þorskafli á Íslandsmiðum hefur aldrei verið minni en einmitt á árunum 1992 til og með 2003. Það eru einmitt árin sem Sjálfstæðismenn ákvörðuðu heildaraflann og Annas bendir á sem ár einhvers árangurs.

Athyglisvert er að meðaltalsaflinn á 12 ára tímabilunum sem ná inn á ár seinni heimstyrjaldarinnar 1939 – 1945 er meiri en á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn ákvarðaði heildaraflann. Að sama skapi er meðaltals stofnstærð 4 ára og eldri þorsks mun minni árin 1992 til og með 2003 heldur en öll jafnlöng tímabil þar á undan.

Varðandi þá fullyrðingu að ritsmíð Birgis Þórs Runólfssonar frá árinu 1997 sé vönduð, þá leyfi ég mér gera alvarlegar athugasemdir við mjög margt sem fram kemur í þeirri ritsmíð. Hún byggir á þeirri ofureinföldun að við það eitt að einkavæða fiskimiðin leysast nánast sjálfkrafa öll heimsins vandamál sem tengjast sjávarútvegi s.s. ákvörðun hámarksafla, leyfileg veiðarfæri, verndun lífríkisins og auðveldara eftirlit. Staðreyndin er sú að með kvótakerfinu hefur eftirlitskerfið blásið út. Einna sérkennilegust fannst mér sú hugdetta Birgis Þórs að með koma á einhverri séreign á fiskimiðunum þá myndu kvótahafar fjárfestu í fiskeldi til þess að auka viðkomu stofnanna og síðan að þeir keyptu einhverja aðila til að veiða ránfisk.

Ósjálfrátt fór ég að efast um að Birgir Þór Runólfsson hefði haldgóða þekkingu á viðfangsefninu. Staðreyndin er sú að hver hrygna hrygnir nokkrum milljónum eggjum og þær tilraunir sem gerðar í Noregi í um heila öld með sleppingu á þorskseiðum hafa ekki skilað neinu. Ennfremur væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvaða ránfiska Birgir hyggst fanga en sá guli er mjög afkastamikill ránfiskur.

Á hádegisfundi í Hafrannsóknarstofnun þann 14. janúar s.l. hlýddi ég fyrirlestur um á stöðu fiskistofna í Færeyjum. Á fyrirlestrinum mátti ráða að botnfiskaflinn hefur verið nokkuð stöðugur í Færeyjum frá stríðslokum ólíkt því sem við höfum mátt venjast á Íslandsmiðum eins og ég hef rakið hér að ofan.

Hvers vegna eigum við ekki að líta til kerfis með opnum hug sem hefur skilað árangri í stað þess að berja hausnum við steininn og halda í arfavitlaust kvótakerfi sem engu skilar?

Sigurjón Þórðarson alþingismaður Frjálslynda flokksins.

www.sigurjon.is


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi