Grein

Sigurður Jónsson.
Sigurður Jónsson.

| 05.04.2000 | 17:03Aldarminning Önnu Ingvarsdóttur

Næstkomandi laugardag eru liðin 100 ár frá fæðingu Önnu Ingvarsdóttur. Hún var fædd hér á Ísafirði 8. apríl 1900. Anna var yngst fjögurra barna hjónanna Sigríðar Árnadóttur og Ingvars Vigfússonar, blikksmiðs, sem lengst af bjuggu í Tangagötu 20, hér í bæ. Hún giftist Jónasi Tómassyni, tónskáldi og organista þann 2. desember 1921 og eignuðust þau þrjá syni, Tómas Árna, Ingvar og Gunnlaug Friðrik.
Anna hafði fallega söngrödd, lærði ung að leika á hljóðfæri og byrjaði því fljótlega að starfa með manni sínum að hans fjölþættu tónlistarstörfum, bæði með söng og hljóðfæraleik, og kennslu á orgel og píanó.

Anna var litla systir hennar mömmu minnar, og var ég ekki gamall þegar ég fór að verða daglegur gestur hjá Önnu frænku og Jónasi, hlustaði þá oft á samleik þeirra hjóna á orgel og píanó.

Margar góðar minningar á ég frá afmælisboðum hjá frændum mínum, þegar Anna spilaði á píanóið og kenndi okkur lög að syngja saman, og jólaboðum, sem jafnan enduðu með því að börn og fullorðnir söfnuðust saman við orgelið og sungu jólasálma og hátíðasöngva.

Á Ísafirði var blómlegt félagslíf, ótalmörg félög og flest þeirra öfluðu sér tekna með einhvers konar skemmtanahaldi. Karlakór Ísafjarðar og Sunnukórinn héldu sínar söngskemmtanir árlega, Leikfélag Ísafjarðar annaðist leiksýningar og þegar fluttir voru stærri söngleikir, rugluðu þessi félög saman reitunum og unnu sameiginlega að verkefninu. Mörg önnur félög héldu sínar árlegu skemmtanir með ræðuhöldum, fimleikasýningum, gamanþáttum o. fl. Þar var líka söngur og hljóðfæraleikur á dagskránni og voru Anna og Jónas þá jafnan til kölluð, bæði sem flytjendur og leiðbeinendur. Fjölmargir Ísfirðingar fengu á þessum árum sína fyrstu tilsögn í söng og hljóðfæraleik á heimili þeirra hjóna. Var þarna vakinn áhugi fyrir söng og tónlist almennt, sem enst hefur mörgum fram á elliár en orðið lífsstarf annarra. Má þar nefna víóluleikarann Ingvar, son þeirra, en með honum fór Anna til Reykjavíkur, er hann fór ungur í Tónlistarskólann, og var hún þar fyrsta veturinn og stundaði jafnframt sjálf tónlistarnám.

Anna varð skammlíf, hún lést á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum 6. október 1943, eftir erfið veikindi, sem læknum þar tókst ekki að ráða bót á. – aðeins 43 ára gömul.

Þann 2. desember 1943 var að frumkvæði Sunnukórsins stofnaður ,,Minningarsjóður frú Önnu Ingvarsdóttur“. Um tilgang sjóðsins segir meðal annars í stofnskrá, að hann skuli styðja til náms og starfa á Ísafirði söngvara og hljóðfæraleikara og efla tónlistarstarf í Ísafjarðarkirkju. Hugðu stofnendur sjóðsins að halda þannig áfram því starfi, sem Anna þurfti svo ung frá að hverfa.

Minningarsjóðurinn hefur frá stofnun styrkt til náms marga efnilega tónlistarmenn. Hann efnir nú til tónleika í Ísafjarðarkirkju fimmtudaginn 13. apríl næstkomandi kl. 20:30. Inngangseyrir rennur óskiptur í hljóðfærasjóð kirkjunnar, en styrktaraðili tónleikanna er Bókhlaðan sem seinna á árinu fagnar 80 ára starfsafmæli. Flytjendur þessara tónleika verða þau Sigrún Hjálmtýsdóttir, Bergþór Pálsson og Jónas Ingimundarson.

Með þessu ágæta listafólki verður eflaust ánægjulegt að vera, meðan við minnumst Önnu Ingvarsdóttur og styrkjum hljóðfærasjóð kirkjunnar.
Sigurður Jónsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi