Grein

Annas Sigmundsson.
Annas Sigmundsson.

Annas Sigmundsson | 07.01.2005 | 19:09Séreignarréttur eða sameign þjóðarinnar!

Í dag, föstudag, barst inn um bréfalúgur okkar Vestfirðinga, málgagn Samfylkingarinnar á Norðvesturlandi. Þar er á bls. 3, grein eftir þingmann Samfylkingarinnar, Jóhann Ársælsson, þar sem hann skrifar um hugleiðingar sínar um stjórnarskrá og eignarhald á auðlindum. Þar skrifar Jóhann: ,,Allt það versta sem menn óttuðust að mundi fylgja því ígildi eignarhalds sem frjálsa framsalið færði útgerðarmönnum er hægt og hægt að koma í dagsljósið. Krafan um að ákvæðið um sameign þjóðarinnar verði látið víkja og tryggður verði varanlegur eignarréttur handhafa kvótans á veiðiréttinum er til marks um þetta“.

Þarna er Jóhann að vitna í grein sem birtist á vefmiðli sem ber nafnið 200 mílur, með fyrirsögninni, ,,Eignarréttarleg staða á Íslandi“. Ég skal sjálfur alveg viðurkenna að viss þversögn er í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Þar segir í 1.gr. að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Engu að síður er í þessum sömu lögum mælt fyrir um séreignarréttarkerfi, svokallað kvótakerfi. Þá má enn nefna 1.gr. laga um Þingvelli, en þar segir að Þingvellir séu sameign íslensku þjóðarinnar en engu að síður er Hótel Valhöll til dæmis í séreign. Það er þannig víða sem ákveðin þversögn leynist, sameign hér, séreign þar, hvernig fer þetta saman? Til að svara því vil ég meðal annars notast við röksemdafærslu John Lockes.

Locke segir að þótt Guð hafi gefið mönnum veröldina til sameignar, hafi hann líka gefið mönnunum skynsemi til að nota hana hagkvæmlega. Locke bendir á að þótt enginn hafi frá öndverðu átt eignarrétt að því sem var ósnortið í skauti náttúrunnar hljóti að vera unnt að ná eignarhaldi á því, því annars geti náttúrugæðin ekki komið nokkrum manni að gagni. Séreignarrétturinn gerir mönnum kleift að nýta gæði skynsamlega því það sem enginn á hirðir enginn um. Hann er þannig undirstaða hagvaxtarins og velmegunar þjóðfélagsins.

Þegar einstaklingar ákveða að fjárfesta í atvinnugrein, eru þeir um leið að taka á sig vissa áhættu. Ein meginforsenda þess að einstaklingar ákveði að fjárfesta er sú að eignarréttur þeirra sé vel skilgreindur. Þegar ráðist er í fjárfestingu verða þeir að vera vissir um að þeir komi til með að eiga fullan umráðarétt yfir fjárfestingunni og þeim hagnaði sem af henni lýst. Viti einstaklingarnir það fyrirfram að þeir gætu átt von á því að fjárfesting þeirra og arður verði tekin af þeim eignarnámi af hinu opinbera eru sáralitlar líkur á því að þeir komi til með að eyða tíma sínum og fjármunum í fjárfestinguna. Án eignarréttar væru engar fjárfestingar. Ég tel reyndar að við ættum að ganga ennþá lengra og fela handhöfum kvótans að sjá um stjórn fiskveiða.

Til að ná mestri hagkvæmni fiskveiðanna, bæði hagkvæmni í veiðum og hagkvæmasta heildarveiðimagn á hverjum tíma, þarf að ákvarða heildarafla og hámarka þannig arð af auðlindinni? Í raun stendur valið um tvo aðila: Annars vegar ríkisvaldið og hins vegar handhafa veiðiréttindanna.

Með því að mynda eignarrétt á kvótunum er stórt skref stigið í þá átt að kvótahafar líti á auðlindina sem sína eign og eflingu fiskistofnanna sem framtíðarhagsmuni sína. Eignarrétturinn leiðir til þess að ákvarðanir kvótahafa verða skynsamlegri m.t.t. framtíðarnýtingar auðlindarinnar. Í raun fara kvótahafar að líta á réttindi sín sem hlut í vaxandi eign. Ef handhöfum veiðiréttindanna væri falið að sjá um stjórnun fiskveiðanna er líklegt að fjárfesting þeirra í þeirri stjórnun yrði umtalsverð.

Kvótahafar sæju sér hag í því að vernda betur fiskistofnanna og fiskimiðin, að fjárfesta í fiskeldi til að auka viðkomu fiskistofnanna, að kaupa aðila til að veiða ránfiska, svo eitthvað sé nefnt. Þá er líklegt að eftirlit með veiðunum og veiðiskipunum sjálfum yrði betra og ódýrara. Fiskveiðiskipulag sem hvíldi á öruggri og varanlegri eign kvóthafa á veiðiréttindum hefði þess vegna ýmsa kosti. Aðalkosturinn við slíkt skipulag yrði þó að nýting fiskistofnanna hámarkaði þann arð sem auðlindin gæti mögulega gefið af sér.

En þar sem núverandi kerfi felur ekki í sér fullkomna eignamyndun, munu útgerðarfélögin, ásamt öllum öðrum Íslendingum , aldrei njóta til fulls þeirrar hagkvæmni og arðsemi sem framleiðsla auðlindarinnar hefur upp á að bjóða. Að lokum verða ég að vera sammála Jóhanni um það að enginn vafi er á því að þetta umdeilda ákvæði 1.gr. laga nr.38/1990 um stjórn fiskveiða stenst ekki í eignarréttarlegum skilningi.

– Annas Sigmundsson.

Heimildir:
Birgir Þór Runólfsson: ,,Eignarrétturinn er undirstaða einkavæðingar í fiskveiðum,“ erindi á ráðstefnu Sjávarútvegsstofnunar, ..Hver á kvótann?,“ Reykjavík, nóvember 1997.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi