Grein

Einar Hreinsson.
Einar Hreinsson.

Einar Hreinsson | 30.12.2004 | 11:48Opið bréf til stjórnar Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar

Ég undirritaður óska hér með eftir því að stjórn Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar geri opinberlega grein fyrir þeirri ákvörðun sinni að taka sérstakt gjald af langlegusjúklingum fyrir þvott á eigin fatnaði þeirra. Jafnframt óska ég eftir því að stjórnin geri opinberlega grein fyrir þeim sparnaði sem orðið hefur (eða ætlaður er) af einkavæðingu þvottahúss stofnunarinnar. Enn fremur óska ég eftir því að ársreikningar stofnunarinnar fyrir árið 2003 og rekstraráætlanir 2004 og 2005 verði birtar opinberlega, og þá þannig að almenningur fái séð hvar hinir ýmsu kostnaðarliðir í þessum 600-700 milljóna rekstri liggja.

Ef þessi ákvörðun er tekin samkvæmt fyrirmælum af einhverju tagi úr ráðuneytum, þá óska ég eftir að þau verði einnig birt. Ef stjórn Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðarbæjar er kunnugt um að þessi sparnaðarleið sé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðis- eða velferðarmálum þá óska ég eftir því að fá upplýst hvar sú stefna kemur fram.

Þessar óskir ber ég fram vegna þess að ég fæ alls ekki skilið hvers vegna þetta samfélag telur sig ekki lengur hafa efni á að skola plögg af gömlu fólki sem lagst er í kör. Ég fullyrði að allt frá landnámi hafi aldrei orðið svo bágt ástand í landinu að ekki hafi verið hægt að sinna þessu lítilræði án þess að það ylli teljandi búsifjum, eða hafi haft áhrif á forgangsröðun mikilvægari verkefna. Ef stofnanir samfélagsins geta ekki lengur sinnt þessu smáverki, eða vilja það ekki, án þess að sultast í smáaura viðkomandi sjúklinga þá eru pípulagnir hagkerfisins ekki lengur í lagi. Þá er þetta samfélag gengið inn á uggvænlegar brautir og ástæða til að spyrna við fótum.

Ég skora á stjórn Heilbrigðisstofnunar Ísafjarðar að falla frá þessari ákvörðun. Hún er rakin mistök, sem okkur öllum getur orðið á, ef út í það er farið, og fengist að ég hygg fyrirgefin ef hún verður afturkölluð. Það getur ekki verið, að eina lausnin á rekstrarjafnvægi stofnunarinnar sé að afla fjár af eftirstandandi vasapeningum einstaklinga, sem þegar hafa verið sviptir réttindum úr almannatryggingakerfinu og þær tekjur þeirra látnar renna beint til Heilbrigðisstofnunarinnar. Það er í stærri pósta að sækja í okkar samfélagi og með ríflegra svigrúmi.

Ísafirði 29. desember 2004
Einar Hreinsson, kt. 041154-2259
Urðarvegi 28
400 Ísafirði.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi