Grein

Agnes M. Sigurðardóttir.
Agnes M. Sigurðardóttir.

Agnes M. Sigurðardóttir | 21.12.2004 | 14:06Er það hugsjón að búa fyrir vestan?

Þegar ég var að alast upp á Ísafirði á 6. og 7. áratug síðustu aldar þótti það sjálfsagt að vera nánast innilokaður hálft árið. Ekki var mokað yfir heiðar og oft var ekki hægt að fljúga vegna óhagstæðra vinda. Þegar ég var í MÍ upp úr 1970 var flogið 4 daga einn febrúarmánuðinn og maður kippti sér ekkert upp við það. Þannig var það bara og ástin sem ég bar í brjósti til Ísafjarðar og Vestfjarða dvínaði ekki. Ég fór í burtu í tvo áratugi og hef nú búið hér aftur í einn áratug. En hefur eitthvað breyst? Margt hefur breyst, sumt til batnaðar, annað ekki eins og gengur.

Undanfarna daga hefur það gerst að ekki hefur verið hægt að fljúga hingað vestur og jafnvel hafa flugvélar þurft að snúa við í Djúpinu. Sagt er að él hafi skollið á akkúrat þegar vélin ætlaði inn Skutulsfjörðinn. Og loks þegar flogið er komast farþegar ekki á þeim tíma sem áætlun kveður á um vegna þess að farþegar frá því í gær, sem ekki komust þá sökum ófærðar ganga fyrir. Af hverju eru þá ekki sendar tvær flugvélar á svipuðum tíma þegar vitað er að ein flugvél nægir ekki. Nei, heldur eru farþegar látnir bíða eða koma aftur eftir 2-3 klst. Og þá er jafnvel orðið ófært. Menn hafa verið varaðir við mikilli hálku á leiðinni út af Kjálkanum, svo fara verður varlega ef aka þarf um Djúp og Strandir og heiðarnar sem tengja okkur við næstu sýslu í suður eru ófærar. Á sama tíma berast þær fréttir að Eimskip sé hætt að senda skipin vestur, svo nú þarf að flytja alla vöru með bílum sem keyra um þessa flughálu vegi. Og fiskinn líka. Fiskinn sem fluttur er út og suður og svo önnur eintök aftur til baka, jafnvel með sama bílnum.

Samgöngumál hafa verið ofarlega í huga Vestfirðinga svo lengi sem ég man. Inn á mitt æskuheimili barst skýrsla Vegagerðar Ríkisins um framkvæmdir og fréttir af þeim reglulega. Faðir minn heitinn bryddaði upp á þeirri umræðu við málsmetandi menn að borað yrði í gegnum fjöll til að auðvelda samgöngur og það var hlegið að honum. Áratugum síðar hefur þetta orðið að raunveruleika og vissulega bætt samgöngurnar inn svæðisins. En eftir stendur að samgöngur út af svæðinu eru ekki enn komnar í viðunandi horf. Það er ekki lengur hægt að búa við það að vera talin til svo mikils útkjálka að ekki megi hálkuverja vegina, sem liggja í átt að hringveginum. Hvers eigum við að gjalda. Það liggur við að hægt sé að tala um það að hér búi aðeins hugsjónafólk. Fólk sem vill búa hér hvað sem það kostar og hvernig sem málum er háttað. Á að bíða eftir því að alvarleg slys hendi til að breyting verði á gerð? Við höfum ekki endalausa þolinmæði til að bíða. Ég hef beðið í hálfa öld og mér finnst komið nóg. Nútíminn krefst þess að samgöngur séu góðar og öruggar, því fólk sækir ekki aðeins annað til að komast til augnlæknis eða annarra sérfræðinga, heldur sækir fólk einnig vinnu um langan veg. Hér áður fyrr þótti það ekkert tiltökumál þó húsbændur og synir færu í Verið og væru í burtu svo vikum og mánuðum skipti. Nú fara þeir ekki í Verið, þó þeir sæki vinnu um langan veg sumir hverjir og ekki vilja feður missa af uppvexti barna sinna eða samskipta við fjölskyldu sína. Á meðan ekki er vinnu að hafa á heimslóðum fyrir alla verður að sækja annað og því nauðsynlegt að búa við öruggar samgöngur. Og þó að tækni hafi aukist til samskipta kemur ekkert í staðinn fyrir persónuleg samskipti þegar vinna þarf með öðrum að ákveðnum verkefnum.

Og hvernig er með fjarskiptin? Við keyrum kílómetra eftir kílómetra á leiðinni út af Kjálkanum án þess að vera í sambandi við umheiminn. NMT síminn virkar jafnvel ekki innst í fjörðum og fleiri svæðum. Þetta veldur óöryggi og getur reynst hættulegt ef eitthvað kemur upp á. GSM samband er ekki heldur á köflum innan svæðisins svo erfitt getur reynst að skipuleggja neyðarþjónustu fyrir þau sem þess þurfa.

Til þess að við getum í alvöru talað um raunverulega framtíð heilsárs búsetu hér á svæðinu verðum við að fá betri fjarskipti og betri samgöngur. Af hverju er t.d. ekki hægt að nota Þingeyrarflugvöll oftar þegar ekki er hægt að lenda á Ísafirði? Af hverju er ekki hægt að sjá fyrir hvort él gerir nákvæmlega þegar vélin er í mynni Skutulsfjarðar? Það hlýtur að vera hægt með nútímatækni að bæta flugsamgöngur við norðanverða Vestfirði. Og ef það vantar fjármuni til þess þá verður að finna þá. Við kaupum það ekki lengur að ekki séu til peningar í þessu landi allsnægtanna, hvorki hvað varðar flugsamgöngurnar né hálkuvarnir á vegum hér vestra. Það eru til hugsjónamenn hér sem vilja hraða vegaframkvæmdum. Styðum þá og ýtum á eftir því að einnig sé bætt það sem fyrir er. Annars sjáum við fram á enn frekari fólksflutninga frá svæðinu. Er það, það sem við viljum? Svari hver fyrir sig.

– Agnes M. Sigurðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi