Grein

| 16.08.2001 | 13:41„Hrikalegur fjallahringur ...“

Ég þakka gott blað og mjög góðan fréttavef. Ég er nú frekar latur að skoða fréttavefi eins og t.d. Visir.is og Mbl.is þar sem ég er frekar óþolinmóður og nenni yfirleitt ekki að bíða meðan nýjar síður eða fréttir hlaðast inn. Þessu finn ég nær aldrei fyrir hjá ykkur. Frábær vefur og ég hef einnig víða heyrt tekið undir það þegar ég hef bent á ykkur.

Þegar ég var að skoða vefinn í gær, miðvikudaginn 15. ágúst, varð mér starsýnt á frétt með fyrirsögninni Sérkennilegur fróðleikur á upplýsingavef Flugmálastjórnar / Hrikalegur fjallahringur á Ísafirði!. Fyrst leit ég nú á þetta sem eitthvert grín frá ykkur en fór svo inn á vef Flugmálastjórnar og sá að svo var ekki.
Ég fór svo að skoða vefinn, var nú að missa þolinmæðina þar sem hann er mun seinvirkari en ykkar, en ekki sá ég aðrar myndir frá öðrum stöðum í líkingu við þessa. Ég nennti þó ekki að skoða allar tengingar.

Satt að segja þótti mér þetta ekkert fyndið þegar ég fór að hugsa um það. Einhverjir nota jú þennan vef, t.d. ókunnugir sem ferðast um fljúgandi, og þó svo að það sé ekki mjög stór hópur þá er það þó einhverjir og þeir fá þarna alranga mynd af flugvellinum og staðnum öllum.

Þetta kom aftur upp í hugann í gær þegar ég keypti BB og las eftirfarandi í ritstjórnargrein ykkar: „... hryggilegt að rekast á „hugarfarslega þröskulda“ sölufólks á ferðaskrifstofum í Reykjavík, sem ræður fólki frá því að ferðast um Vestfirði að sumarlagi vegna þess að „þar gæti hæglega snjóað!“ Skemmdarverkum af þessu tagi verður ekki lýst með prenthæfum hætti.“

Er í raun mikill munur þarna á ferðinni? Jú, er þetta hjá Flugmálastjórn ekki mun alvarlegra? Þarna er opinber stofnun með myndfölsun án skýringa. Er ekki rétt að fylgja þessu eftir?

– Lesandi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi