Grein

Níels A. Ársælsson | 17.11.2004 | 16:32Dragnótaveiðar við Ísland

Að gefnu tilefni: Mér er ljúft og skylt að svara öllum árásum sem fram koma á dragnótaveiðar þar sem ég veit að þeir sem gagnrýna þann veiðiskap gera það vegna mikilla fordóma sem sprottnir eru af þekkingarleysi, öfund og ranghugmyndum. Það er komið nóg af ósannindum og illmælgi um dragnótina á umliðnum árum og tími til kominn að þeim óhróðri verði svarað í eitt skipti fyrir öll.

Dragnótin eitt vistvænasta veiðafærið

Dragnótin er eitt vistvænasta veiðarfæri sem fundið hefur verið upp frá því fiskveiðar hófust. Veiðisvæði dragnótar spannar einungis um 2-5% af landgrunninu innan lögsögu Íslands. Ástæður þessa mjög svo takmörkuðu veiðislóðar eru flestu fólki ekki kunnar, en þeir sem stundað hafa veiðar með dragnót og þeir sem gera það enn, vita að dragnót er einungis notuð á leir, malar og sandbotni.

Ekki er hægt að veiða með dragnót á neinum öðrum svæðum en að framan greinir, þar sem voðin og tógin sem henni tilheyra festast í botni, veiðarfærið rifnar og skemmist ef út á annars konar botnlag er farið. Eðli málsins samkvæmt spilla dragnótaveiðar hvorki botngróðri né botnlagi á nokkurn hátt á þeim svæðum þar sem þær eru stundaðar enda engu til að spilla og er nánast um veiðar í eyðimörk sjávarins að ræða þar sem lítill sem enginn botngróður þrífst.

Fiskur veiddur í dragnót jafnt flatfiskar allskonar, sem og bolfiskur leitar út af hörðum botni, hrauni eða mjög grófum sandi og malarbotni inn á veiðisvæði voðarinnar eftir æti, en það æti sem um er að ræða er, sandsíli og ýmsar aðrar tegundir smáfiska og smádýra, td. loðna, síld, rækja, spærlingur, sandormar og krabbadýr. Segja má til einföldunar að veiðislóð dragnótarinnar sé matborð hinna ýmsu fiskitegunda.

Þar er komin skýringin á því hversu smávægilegt veiðisvæði dragnótarinnar er í samanburði við öll önnur veiðarfæri sem notuð eru við Ísland. Til umhugsunar er að veiðisvæði smábáta innan lögsögu Íslands er nánast 100% þar sem þeir stunda veiðar eingöngu með krókum og geta skakað og lagt línuna nánast takmarkalaust ef botnlaust dýpi er undanskilið.

Virkni og útbúnaður dragnótarinnar

Vegna þeirra sem ekki hafa verið upplýstir um virkni, útbúnað og takmörk dragnótarinnar sem veiðafæris þá gef ég hér lýsingu á dragnót og útbúnaði hennar. Dragnótin er í megin atriðum eins upp byggð sem veiðafæri líkt og fiskitroll, en það sem er mjög frábrugðið er að voðin er mun léttari og í flestum tilfellum mun minna veiðafæri en fiskitroll.

Til er tvenns konar útbúnaður sem notaður er undir dragnót, allt eftir því hvað menn vilja og hvað lögð er megin áhersla á að veiða, flatfisktegundir eða blandaðan afla. Í sumum tilfellum er notast við fótreipi úr gúmmí ef veiða á meira af flatfiski en æ algengara er að settur sé svokallaður rokkhopper úr gúmmíi undir dragnætur í dag en sú þróun hófst fyrir nokkrum árum og hefur gefist vel.

Það sem rokkhopperinn hefur umfram hið hefðbundna fótreipi sem notast hefur verið við frá upphafi dragnótaveiða er að nú festist og rifnar voðin mun minna en áður, þar sem rokkhopperinn flýtur betur yfir laust grjót og hraunnibbur sem oft leynast á linum botni og geta valdið miklum skaða á vængjum og undirbyrði voðarinnar.

Það var mikil og löngu tímabær framþróun þegar rokkhopperinn kom til sögunar og nánast um byltingu að ræða í allri meðferð og sliti voðarinnar, þótt vissulega komi fyrir að dragnótin rifni illa enn stöku sinnum. Það sem fótreipið hefur fram yfir rokkhopperinn er að dragnætur með fótreipi skila oftast mun meiri afla í flatfiski þar sem fótreipið skefur mjúkan botninn mun dýpra og fiskilínan nær betur flatfiskinum inn í voðina.

Sá skelfilegi málflutningur og óhróður sem verið hefur í gangi manna á meðal eftir tilkomu rokkhoppara undir dragnót sem vilja veg dragnótarinnar sem minnstan er ákaflega dapurlegur og vægast sagt ódrengilegur þegar staðreyndir allar eru skoðaðar.

Öfundarmenn dragnótarinnar halda því fram að með tilkomu rokkhoppera undir dragnót þá hafi dragnótin fengið sömu eiginleika og sömu möguleika til veiða og fiskitroll togara sem útbúnir eru með gúmmí og stál bobbingum undir fiskitrollum og geti dragnótin ruðst yfir nánast hvaða botnlag sem fyrir verður, tortími og eyði öllum gróðri og öllu lífi, slétti út allar misfellur á hafsbotni og eiri engu lifandi kvikindi sem lendir í kjafti voðarinnar.

Um mikinn misskilning er að ræða þegar menn halda því fram að dragnót hafi sömu eiginleika og sömu virkni og fiskitroll þó svo að rokkhopperar hafi verið þróaðir undir dragnót. Það eina sem breyttist með tilkomu rokkhopperanna er að nú hefur orðið mikill sparnaður í veiðafærum og mun færri frátafir vegna viðgerða á voðinni, sem þýðir með öðrum orðum betri nýtingu á mannskap, búnaði, skipi og tíma. Sem leiðir af sér meiri og betri meðhöndlun á afla og meiri verðmæti.

Engir toghlerar eru notaðir á dragnót enda bannað með lögum að nota slíkan búnað eða nokkuð annað sem getur aukið á þann tíma sem tekur dragnótina að lokast.

Eins og flestir vita sem að sjávarútvegi hafa komið þá eru toghlerar togarana sem stunda veiðar með hefðbundin fiskitroll oftast mörg þúsund kíló hvor hleri, allt eftir stærð og vélarafli skipana.

Við sitt hvorn vængenda dragnótarinnar eru festir grandarar sem gegna því hlutverki að hámarka lóðrétta opnun voðarinnar. Grandararnir lásast í svokallaða klafa, sem oftast eru rörbútar eða stálöxlar, 40-60 cm langir og 10-20 kg þungir, en klafarnir gegna því hlutverki að aðskilja efri og neðri grandara til að hindra að grandararnir snúi sig saman aftur í vængi voðarinnar.

Fyrir framan klafana koma grannar keðjur sem lásast í sitt hvorn enda þeirra og eru keðjunnar teknar saman í hanafót með lási og sigurnagla. Í enda sigurnaglans er festur svokallaður dragnótalás sem lásað er í tógin, en tógin gegna því tvíþætta hlutverki að smala saman fiskinum á sjávarbotninum og draga voðina áfram á meðan hún lokast smám saman þegar tógin renna saman frá hvorum vængenda inn að miðju skipsins sem dregur veiðafærið.

Tógin eða réttara sagt vírmandlan sem notast er við á dragnótaveiðum er mislöng, misþung og mis sver, allt eftir stærð skipana, vélarafli og stærð dragnótaspilana sem notast er við. Í dag eru flest betur útbúin dragnótaskip með fullkomin togspil sem taka 1200-1400 fm, af vírmanilu. Vírmanilan er höfð í mismunandi lengjum og fer það eftir óskum og þörfum hvers skipstjóra yfirleitt og er þá oft miðað við lengd veiðisvæða og dýpi á veiðislóð hvers skips sem mest er stunduð.

Algengast er að veiðiskipin séu með 6-7, 200 fm, lengjur af vírmanilu á hvorri tromlu og ráða skipstjórarnir hversu miklu er kastað út, en í fæstum tilfellum er kastað minna en 400 fm, en oftast mun meiru þar sem pláss er þá nægilegt á hafsbotninum sem verið er að veiða á. Líkja má veiðum með dragnót við hringnótaveiðar (herpinót) því margt í virkni búnaðar dragnótarinnar líkist mjög veiðum með hringnót.

Dragnót kastað

Áður en ákvörðun um kast er tekin þá þarf að gæta að ýmsum þáttum er varða strauma, sjávarföll, vindátt og sjólag. Einnig hafa birtuskilyrði og sólarljós mikið um það að segja hvernig fiskast. Mjög misjafnt er eftir árstíðum, dýpi og svæðum hver áhrif mismunandi þátta hafa til árangurs af veiðunum.

Það sem vegur þyngst í góðum árangri við veiðarnar ásamt samspili margra þátta er án efa það fæðuframboð sem fiskurinn hefur á viðkomandi veiðislóð. Ef lítið eða ekkert æti er fyrir fiskinn á veiðislóð dragnótar er næsta víst að lítið sem ekkert veiðist.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að kasta þá gerist eftirfarandi: Belgir eru festir við enda stb (stjórnborðs), vírmanilunnar og þeim kastað í sjóinn. Því næst er skipið keyrt áfram í átt að þeim stað sem dragnótin á að fara niður á hafsbotninn og fyrirfram er ákveðið hvar skal veiða. Vírmanilan rennur út af skipinu í réttu hlutfalli við þá vegalengd sem skipið siglir yfir hafsbotninn.

Ef pláss og dýpi á veiðislóð dragnótar er nægilegt þá er oftast kastað allri vírmanilunni sem til staðar er um borð í skipinu en ef plássið er takmarkað eins og algengt er á veiðislóð dragnótar út af Vestfjörðum og víðar, þar sem verið er að kasta dragnót á sand polla og gjótur sem leynast víða úti í hrauni, ræðst lengd þeirra manilu sem kastað er eftir lengd veiðisvæðis og er þá ekki óalgengt að kastað sé 400, 600 eða 800 fm, af vírmanilu.

Þegar veiðiskipið er komið nálægt því þvert að þeim stað sem fyrirhugað er að láta voðina fara á, þá er algengast að beygt sé í 90° í stb, kallast það að taka fyrri skverinn. Mismunandi er hversu miklu er skverað, allt frá því að vera 400 fm, á hvort borð og niður í að skverað sé á klöfum voðarinnar eins og kallað er. Lengd skverhornana ræðst yfirleitt af því plássi sem veiðislóðin leyfir á breiddina, því eins og áður segir verður að varast að fara út á harðann botn með tógin og voðina svo að ekki illa fari.

Eftir að skverað hefur verið, þá er komið að því að kasta voðinni sjálfri. Er þá lásað úr manilunni og henni lásað í stb klafann og hann fellur í sjóinn, grandararnir renna á eftir, síðan voðin og bb (bakborðs), grandararnir og að síðustu bb, klafinn. Þegar bb, klafinn er farinn þá er tekinn seinni skver og er það gert með sama hætti og fyrri skverinn.

Þegar seinni skverinn hefur verið tekinn þá er skipið keyrt í átt að belgjunum og bb, manilan látin renna út. Þegar komið er að belgjunum eru þeir teknir um borð, þeim lásað úr og endanum lásað í hlauparann sem er laus á stb, tromlu ef allri manilunni hefur verið kastað, annars í endann á manilunni sem yst er á tromlunni og lásað hefur verið úr við enda fyrra skverhorns í köstun.

Þegar lásað hefur verið saman þá eru tógin lengdarjöfnuð og skipið sett á togferð. Togað er þannig að haldinn stefna er um 90° á þá stefnu sem voðin rann út en oft á tíðum í miklum hliðarstraum þá getur togstefnan verið allt önnur þar sem þá þarf að beita skipinu mikið upp í strauminn til að halda skipinu, tógunum og voðinni réttu yfir sjávarbotninn.

Mjög misjafnt er á hvaða hraða er togað og ræðst það allt eftir því hvaða fiskitegundir er verið að reyna að veiða, en minnstur er toghraðinn hafður þegar veiða á flatfisk og steinbít þar sem þær tegundir fara sér hægt á flóttanum undan tógunum.

Það eru tógin sem smala fiskinum saman á sjávarbotninum og hrekja hann á undan sér inn að miðju og inn í voðina. Geta dragnótarinnar til að ná í fisk er bundin innan þess svæðis sem tógin afmarka með legu sinni á hafsbotni eftir að farið er að toga og skipið komið á ferð. Mjög misjafnt er hversu mikið flatamál þess svæðis er, þar sem dýpi, straumur, hversu mikið skverað er og lengd tógana sem eru úti ráða mestu þar um, en oft er það einungis 1/3 af lengd tógana sem skafa botninn en 2/3 eru laus frá botni upp í sjó í átt til veiðiskipsins.

Þegar tógin eru komin saman eða veiðisvæðið á enda þá eru þau hífð inn á svokölluð dragnótaspil um borð í veiðiskipið þar til að klafarnir eru komnir upp í togblakkir, en þá er lásað úr klöfunum og grandararnir og dragnótinni vafin inn á kefli, á svokallaða netatromlu sem staðsett er ofan á toggálga skipsins. Þegar dragnótin er kominn inn að undanskildum belg og poka, þá er pokinn hífður fram á síðu skipsins og upp í móttökuna sem oft er yfir lestarlúgu skipsins og hann losaður.

Ef vel veiðist geta pokarnir orðið margir sem þarf að hífa um borð, en reynt er að hafa pokana ekki stærri en svo að þeir rúmi ekki meira magn af fiski en sem nemur 500-1000 kg. Er þetta gert til að tryggja hámarksgæði þess fisks sem veiddur er og fyrirbyggja að fiskur kremjist og blóðspringi með tilheyrandi losi í holdi.

Besta hráefnið

Ef rétt er að málum staðið við veiðar, blóðgun, slægingu, þvott og ísun um borð í dragnótaskipi þá er sá fiskur ótvírætt sá albesti sem völ er á fyrir ferskfiskmarkaði jafnt hér innanlands sem og á ferskfiskmarkaði erlendis og stenst hann fullann samanburð við fisk frá beitningavélaskipum sem slægja og ísa aflann um borð, en oft er talað um að fiskur frá þeim sé besta hráefnið.

Fiskur sem veiðist í dragnót er mjög stutt dreginn þegar hann kemur um borð í veiðiskipið, oft líða ekki nema 20-30 mínútur frá því að voðin er farin og búið er að hífa voðina og fiskurinn kominn um borð. Lítil pressa er á fiskinum þar sem hann er hífður um borð í litlum skömmtum og yfirleitt sprell lifandi þegar hann er blóðgaður frá móttöku í rennandi sjó.

Fiskur veiddur í dragnót er oftast mun vænni heldur en fiskur sem veiðist í öll önnur veiðafæri að netafiski undanskyldum og vegur sá þáttur í rekstri dragnótaskipa þyngst fyrir afkomu veiðanna þar sem allt að helmings munur er á verði góðs dragnótafisks og fisks sem veiddur er í troll og á línu.

Fordómar og dylgjur framkvæmdarstjóra LS

Það er hreint með ólíkindum að lesa greinarskrif framkvæmdarstjóra LS í Fiskifréttum þar sem hann fer mjög hörðum orðum um dragnótaveiðar við strendur Íslands og þá skaðsemi sem af þeim veiðum hljótist. Ég spyr sjálfan mig og aðra að því eftir lestur nefndar greinar hvað manninum gangi til og hvað það eigi að þýða að ráðast með slíkum hætti á eitt það ágætasta veiðafæri sem til er?

Það er óþolandi og ólíðandi að einstaklingur sem ráðinn hefur verið í forsvari fyrir heildarsamtök stórs hóps atvinnumanna innan tiltekinnar greinar í fiskveiðum, að hann misnotar sér aðstöðu sína með jafn grófum og alvarlegum hætti og Örn Pálsson hefur gert.

Örn Pálson framkvæmdarstjóri LS gerir þá kröfu umbúðalaust til stjórnvalda að allar dragnótaveiðar verði bannaðar á þeim svæðum sem þær eru stundaðar á í dag og heimtar hann að núverandi floti skuli rekinn út í hafsauga með togurum. Allar dragnótaveiðar verði aflagðar að mestu leiti í landhelgi Íslands.

Aðalfundur LS í haust áliktaði gegn dragnótaveiðum en krefst þess jafnframt að veiðar með dragnót verði leyfðar áfram á fjörðum og flóum á smábátum undir 15 metrum. Hvaða kjaftæði er hérna á ferðinni? Er verið að krefjast þess að krókapungar fái að veiða með dragnót? Er það næsta skrefið hjá LS að heimta sameiningu krókakerfis og aflamarkskerfis?

Þessar kröfur styður Örn Pálsson í nefndri grein með ályktun landsfundar LS frá því í haust og klingir út með því að segja að dragnótaveiðar við Ísland frá því þær voru heimilaðar aftur, „reyndar er hálf öld síðan“ þá hafi veiðarnar farið úr böndunum og séu komnar langt út yfir öll velsæmismörk, enda í upphafi hafi einungis verið gert ráð fyrir að veiddur yrði flatfiskur í dragnót, en nú séu menn svo ófyrirleitnir að hafa flatfiskveiðar sem yfirskin og blekkingar en veiði síðan að stórum hluta bolfisk með þessu stórhættulega veiðafæri.

Það sem Örn Pálsson og félagar vilji meina með sínum heimskulega málflutningi er að allar framfarir í veiðum með dragnót séu af hinu illa og þær eigi að vera stundaðar í dag með sömu veiðiskipum og veiðafærum og tíðkuðust fyrir 50 árum. Hvar væri trillubáta flotinn staddur undir slíkum kröfum ef þær hefðu verið látnar fram ganga með sömu rökum?

Ég neita að hlusta á þennan heimskulega málflutning og vísa þessu öllu til föðurhúsanna sem rakalausum lygum og þvættingi. En það sem er líka mjög alvarlegt er að þeim félögum í LS hefur tekist að æsa upp til illinda sveitastjórnir og saklausa sjómenn í hinum ýmsu og dreifðu sjávarbyggðum landsins upp á móti einu tilteknu veiðafæri með stanslausum áróðri.

Útflöggun

Örn Pálsson dylgjar um að Bjarma BA, hafi verið flaggað út, austur á firði og nú sé hann SU, og skarki þar öllum til ama og leiðinda. Ég hef samvisku spurningu fram að færa til þeirra er málið varðar. Trillubátar sem koma allstaðar að af landinu til handfæraveiða á Vestfjarðamið yfir sumarmánuðina, er þeim flaggað út? Nóta og flottrollskip frá N-landi, SA-landi og Austfjörðum sem stunda veiðar og vinnslu út af Vestfjörðum og inn á fjörðum, er þeim flaggað út? Hvað með beitningavélabáta frá Grindavík og Vestfjörðum sem stunda línuveiðar á Austfjarðamiðum, er þeim flaggað út? Hvað með togarana sem stunda veiðar allt í kringum landið og eiga heimahafnir víðsvegar að, er þeim flaggað út?

Hér er greinilega eitthvað mikið að þar sem Íslendingar undirrituðu á sínum tíma samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og skuldbundu sig til að undirgangast öll ákvæði hans í hvívetna, þar á meðal ákvæðið um rétt manna og kvenna til að stunda atvinnu sína hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins án tillits til búsetu, litarháttar, trúar, kynhneigðar og svo framvegis.

Til sjómanna á Norðfirði

Það er engin að ganga á ykkar rétt hér um borð í skipi mínu Bjarma SU-326, enda fiskimiðin sameign okkar allra. Vonandi getum við starfað saman og þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að vera að taka fiskinn hver frá öðrum. Sem betur fer eru fiskimiðin okkar gjöful og trúi ég því og treysti að allir hafi sitt, sér og sínum til framfæris eins og verið hefur um aldir alda.

Það er reynsla mín og trú eftir að hafa stundað veiðar með dragnót nær samfellt síðan 1984 á SV-miðum, Breiðafirði og Vestfjarðamiðum að allir bátar sem stunda veiðar á sömu slóðum eða nálægum miðum hafi hag af því að vera í sambúð með dragnótinni. Dragnótin er ótrúlegt veiðafæri sem með réttu má líkja við plóginn sem bóndinn notar á akurinn, eftir því sem meira og betur er plægt og sáð þeim mun betri og meiri verður uppskeran.

Skrifað um borð í Bjarma SU-326, á Norðfjarðarflóa. 16. nóvember 2004.

Níels A. Ársælsson, skipstjóri.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi