Grein

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir | 13.11.2004 | 11:02Loksins – loksins, jákvæð umfjöllun

Það var ánægjulegt að lesa grein um norðanverða Vestfirði í Morgunblaðinu 9. nóvember s.l. Björn Jóhann Björnsson skrifar af víðsýni og næmleik um þessi sveitarfélög, sem undanfarin ár hafa mátt búa við ýmsa erfiðleika í atvinnulífinu, sem aftur hefur leitt af sér fækkun íbúa. Á myndunum sem fylgja gefur á að líta m.a þrjá unga athafnamenn í sjávarútvegi sem hver á sínu sviði eru bjartsýnir á framtíðina þó þeir viðurkenni að ekki geti allir unnið í fiski. Þá er einnig viðtal við unga bændur sem hafa tekið tæknina í sína þjónustu með nýbyggðu fjósi og hyggjast stækka bú sitt þannig að framleiðslan geti tvöfaldast frá því sem nú er.

Á norðanverðum Vestfjörðum eru þrjú sveitarfélög og starfandi í þeim eru tveir bæjarstjórar og einn sveitarstjóri. Í greininni er viðtal við þá þar sem kemur í ljós að þeir eiga allir rætur eða ættir að rekja til Vestfjarða. Þetta eru ungir og áhugasamir menn, sem vilja sjá sín sveitarfélög vaxa og dafna og þeir ættu allir að hafa burði til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd í samstarfi við sínar sveitarstjórnir og íbúana. Það er mikið um ungt og áhugasamt fók á Vestfjörðum, sem hefur lagt krafta sína og metnað í það að starfa þar og búa. Það fólk vill sjá framfarir og leggur sitt af mörkum til þess að svo megi verða. Það væri hægt að nefna ótal dæmi um frumkvöðla sem eru að gera góða hluti og ekki bara á norðanverðum Vestfjörðum og þess vegna hægt að skrifa um það margar greinar.

Sjávarútvegurinn er stóriðja Vestfjarða, en þar fækkar störfum ekki síst vegna tæknivæðingar. Það sem þarf að koma í staðinn er rannsóknir og þróunarvinna tengdar sjávarútvegi. Til þess hafa Vestfirðingar bæði menntað fólk og prýðilega aðstöðu. Það væri óskandi að við færum nú að sjá að farið væri að vinna eftir Byggðaáætlun Vestfjarða af fullum krafti, ekki bara af heimamönnum heldur einnig af viðkomandi stjórnvöldum. Því miður virðist það ganga ótrúlega seint að fá skilning ráðamanna. Á meðan er barist við það af hálfu sveitarstjórna og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða að leggja vinnu og fjármagn til nýrrar atvinnusköpunar. En oft fer mikið af kröftunum í varnarbaráttu við að halda í þau opinberu störf sem fyrir eru.

Umræðan fyrir vestan núna um háskóla og þekkingarsetur er það sem horft er til og heimamenn hafa lagt mikla vinnu í að útfæra. Ísafjörður hefur á seinni árum verið að breytast úr útgerðarbæ í menningar- og þjónustubæ. Það væri hægt að bæta 1000 manns við íbúatöluna þar án þess að auka þyrfti þjónustu sveitarfélagsins að neinu ráði. Þar er öll sú þjónusta sem nútímafjölskyldan gerir kröfu um að sé til staðar nálægt heimili hennar. Bolungarvík og Súðavík hafa einig byggt sína þjónustu þannig að hægt er að fjölga þar íbúum. Það stendur ekki á fólki að flytja út á land. Margt ungt menntafólk vill búa úti á landi ef það fær atvinu við hæfi. Þess vegna er það nauðsynlegt að nú verði gert verulegt átak í að fjölga störfum á norðanverðum Vestfjörðum með tilkomu háskóla og þekkingarseturs, þar sem stundaðar væru rannsóknir af ýmsu tagi. Ásókn Vestfirðinga í háskólanám, þar sem gífurleg aukning hefur orðið í fjarnámi sýnir að þetta er raunhæfur kostur.

Alþingi hefur samþykkt að Ísafjörður skuli vera byggðakjarni á Vestfjörðum. Við viljum sjá unnið að því af hálfu stjórnvalda með meiri krafti en verið hefur. En á Vestfjörðum er ekki setið með hendur í skauti. Þar er verið að vinna heimavinnuna.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
Höfundur situr í stjórn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi