Grein

| 01.08.2001 | 10:34Verslum í heimabyggð!

Ólíkt hafast sveitarstjórnir að. Sumar kappkosta að hlúa að þeirri atvinnu sem fyrir er á staðnum, en aðrar ekki. Þetta á t.d. við um farandsölu. Austurhérað og Fjarðabyggð hafa auglýst reglur um farandsölu sem skylda farandsala m.a. til að tilkynna sig með 3ja vikna fyrirvara til sveitarfélagsins og leggja fram tilheyrandi gögn. Þau áskilja sér rétt til að synja skriflega og með rökstuðningi um leyfi til að stunda farandsölu á viðurkenndum hátíðisdögum og auk þess leigja þau eða lána ekki húsnæði í sinni eigu eða umsjá undir starfsemi sem tengjast farandsölu.
Þetta eru fyrstu sveitarfélögin sem setja ákveðnar reglur um farandsölu eftir að lög um verslunaratvinnu nr. 28 frá 8. apríl 1998 tóku gildi 1. jan. 1999. Þar segir m.a.: „Ef kaupandi óska þess er hverjum þeim sem stunda farandsölu samkvæmt ákvæðum laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim skylt, að afhenda kaupanda nafnspjald með nafni, kennitölu og heimilisfangi þess sem skráð hefur verslunarrekstur.“ Enn fremur segir þar m.a.: „Að því leyti sem ekki eru sett ákvæði um það í lögum þessum skulu samþykktir sveitarstjórna gilda um réttindi og skyldur þeirra sem stunda farandsölu, hvort sem hún er stunduð í atvinnuskyni eða ekki“.

Þetta er nú ekki stór né flókinn lagabálkur sem hér er á ferðinni svo sveitarfélög geta nú ekki skýlt sér á bak við það, heldur er um framtaksleysi að ræða. Það á að fara að gefa út kynningarrit fyrir Ísafjarðarbæ og í því tilefni hefur verið fenginn aðili til að safna auglýsingum og styrktarlínum frá fyrirtækjum hér í bæ, á sama tíma og bornar eru í hús auglýsingar frá hinum ýmsum mörkuðum, aðallega í fatnaði, m.a. frá einum nú síðast án nafns.

Er þetta kallað að styðja við bakið á fyrirtækjum hér í bæ? Spyr sá er ekki veit. Skilur þessi farandsala eitthvað eftir sig hér í bæ annað en leigu á húsnæði og samdrátt hjá fyrirtækjum er bjóða sömu þjónustu? En þessir aðilar hafa eflaust mjög gott upp úr þessu, væru ekki annars á farandsfæti vítt og breitt um landið með tilheyrandi kostnaði. Þegar sveitarstjórnir sjálfar eru farnar að kippa grundvelli undan þeim, sem hún á að hlúa að, þá er illa komið.

Jón Guðmundsson,
Túngötu 18, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi