Grein

Jóhann Elíasson | 28.10.2004 | 13:30Réttindabarátta sjómanna aftur í aldir

Eftir samninga milli útgerðar og sjómanna á Sólbaki setti mann hljóðan og ég gat ekki annað en hugsað með mér: Til hvers var barist svona hatrammlega fyrir „Vökulögunum“ og reynt að gera starfsumhverfi sjómanna eins öruggt og hægt var? Ef það er hægt með ákvörðun nokkurra misvitra manna að hnekkja allri þessari baráttu. Hvers vegna segi ég þetta? Jú, á skuttogurum þurfa að vera 15 menn til þess að skipið sé löglegt. Þetta er svo að hægt sé að hafa menn á sex tíma vöktum (það er sex tímar á vakt og sex tímar á frívakt). Og svo er náttúrulega öryggisþátturinn, sem því miður hefur ekki verið fjallað um varðandi þetta tiltekna mál, en það er sagt að ekki geti sami maðurinn séð um að stjórna skipinu og um leið séð um að stjórna þeim spilum sem þarf þegar trollið er tekið og látið fara og er þar um leið að taka ábyrgð á lífi og limum þeirra sem eru á dekkinu.

Sé það staðreyndin að það eigi að fækka í áhöfn skipsins um þrjá og jafnframt að halda sex tíma vöktum er það ekki hægt á annan máta en það eigi aðeins að vera EINN MAÐUR í brú þegar troll er tekið og látið fara, en þá vantar samt einn mann og þá verður annað hvort vélstjóri eða matsveinn að fara á dekk þegar híft er eða trollið látið fara. En svo er annar möguleiki, en mig grunar að sá möguleiki sé til grundvallar þessum samningum, en það er að vera með svokallaða 12 og 6, það er 12 tíma á vakt og 6 tíma á frívakt og þá gengur dæmið upp.

Ég veit að núverandi fyrirkomulag (það er sex og sex) hefur lengi verið þyrnir í augum margra útgerðarmanna og telja þeir að of margir menn séu í áhöfn skipanna, en það er búið að fækka það mikið í áhöfn skipanna að ekki er hægt að fækka meira án þess að brjóta lög eða að ganga í berhögg við vinnutímareglur Evrópusambandsins.

Fimmtudaginn 14. október las ég grein í Morgunblaðinu eftir útgerðarmann Sólbaks og eftir þann lestur setti mig alveg hljóðan og gat ég ekki annað en vorkennt vesalings manninum. Hann fjallar þar um þessa deilu af svo miklu þekkingarleysi og vankunnáttu að maður efast stórlega um hæfni mannsins til þess að vera í forsvari fyrir þetta fyrirtæki og yfirleitt að hafa nokkuð með samninga starfsfólks að gera. Fyrir það fyrsta þá er hann alltaf að tala um félagafrelsi, en honum til uppfræðslu skal það nefnt að félagafrelsi er vissulega til staðar og það er aðeins hann sem telur að þessi deila standi um félagafrelsi, það er ekki verið að fetta fingur út í þetta atriði en hins vegar dettur mönnum í hug að eitthvað sé ekki í lagi með þessa samninga ef mönnum er gert að vera utan stéttarfélaga.

Guðmundur heldur því fram fullum fetum að þessi samningur sé til mikilla hagsbóta fyrir sjómenn og útgerðina, ég get ekki séð að sjómenn hagnist mikið á þessum samningi heldur er það útgerðin sem hagnast og mætti líkja þessum samningi við úrslitin í leik Ísendinga og Svía (1-4). Af hverju segi ég þetta? Jú fyrir það fyrsta þá sést hagnaður útgerðar í upphafi þessarar greinar (0-1), fyrir þetta atriði fá sjómennirnir 12% hærri laun fyrir 20% meiri vinnu. Annar þáttur þessa samnings um það að fella niður 30 tíma löndunarstoppið er fyrir löngu tímabært að fjalla um og verð ég að segja að þar þykir mér ágætlega tekið á málum og er ég alveg sammála þeim kafla og jafnvel gæti maður sagt að staðan eftir að hafa skoðað þá grein samningsins væri 1-1. Ekki gat ég séð að það væri tekið á lífeyrisgreiðslum sjómanna í þessum samningum en í þessum efnum hafa sjómenn dregist aftur úr öðrum vinnandi stéttum og þetta atriði er eitt af höfuðatriðum sjómanna í komandi samningum og eftir þennan lið er staðan 2-1.

Ekki reikna ég með því að fá endalaust pláss í blaðinu fyrir þessa grein og því ætla ég ekki að tína upp fleiri atriði úr þessum „samningi“ þar sem ekki fær mig nokkur maður til þess að trúa því að áhöfnin hafi skrifað undir án þess að útgerðarmaðurinn hafi haft nein áhrif á það.

Jóhann Elíasson, fyrrverandi stýrimaður-


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi