Grein

Lárus Valdimarsson | 27.10.2004 | 11:38Getur vont versnað?

Svarið við því er að í flestum tilvikum mun svo vera. Greinarkorn Óðins Gestssonar frá því í gær á þessum vettvangi er dæmi um slíkt að mínu mati. Ekki svo að skilja að við séum í öllum atriðum ósammála en Óðinn kýs að afvegaleiða ummæli mín með þeim hætti sem ekki er til eftirbreytni. Ég taldi ástæðu til að bregðast við hluta ummæla varaformanns fræðslunefndar þar sem vitnað er orðrétt til hans. Þau ummæli voru endurtekin orðrétt í frétt blaðsins þannig að ljóst væri hver ástæða viðbragða minna væri. Þau eru eftirfarandi svo öll tvímæli séu tekin af:

„Við erum einnig að sjá að við erum að greiða ófaglærðum starfsmönnum lægri laun en annars staðar tíðkast og það sýnir að mínu mati ráðdeild í rekstri.”

Þessum ummælum er ég fyrst og fremst að bregðast við því þau ríma illa við þá endurmenntunarstefnu sem hefur verið rekin af hálfu bæjarfélagsins undangengin ár. Óðni er jafnljóst og undirrituðum hve niðurnjörvuð skilgreining fjölda stöðugilda er hvort heldur litið er til grunn- eða leikskóla. Að fækka í „áhöfn” samkvæmt „Sólbaksleið” gengi því ekki og ef lækka á launakostnað þá er ljóst að manna þyrfti skólanna með leiðbeinendum í auknu mæli. Það væri andstætt þeirri stefnu sem fylgt hefur verið undangengin ár.

Nöturlegast er þó þegar Óðinn sér sig knúinn til að reyna að koma höggi á Samfylkinguna með því að segja að ég geri lítið úr ófaglærðum starfsmönnum og að okkur sé „hollt” að hafa í huga að einhverjir þeirra séu okkar kjósendur. Til að fyrirbyggja misskilning og af tillitsemi við lesendur sagði ég orðrétt:

„Sú uppbygging getur aldrei byggst á því að við treystum á að störfin verði unnin af illa launuðu ófaglærðu starfsfólki. Þannig náum við ekki bestum árangri með fullri virðingu fyrir okkar ágæta ófaglærða starfsfólki. Við verðum að hafa metnað til þess að mennta sem best okkar starfsfólk og greiða því laun í samræmi við það.”

Þetta á auðvitað jafnt við um faglærða sem ófaglærða starfsmenn okkar. Hvernig er ég að gera lítið úr ófaglærðu starfsfólki með þessum ummælum? Ég bendi Óðni jafnframt á að kjarasamningar FosVest eru einnig í gildi fyrir ófaglært starfsfólk annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Önnur sveitarfélög í fjórðungnum sjá þó ekki ástæðu til að greiða starfsfólki sínu samkvæmt lægstu mögulegu launaflokkum. Er viðhorf Óðins útbreiddara meðal samflokksmanna hans í bæjarstjórn en ætla mætti? Er þar komin hugsanleg skýring á láglaunastefnu bæjarins gagnvart sínu starfsfólki?

Fullyrðing Óðins um að ég væni Fræðslunefnd um metnaðarleysi þegar kemur að endurmenntun/menntun starfsfólks skólanna er fullkomlega fráleit enda minnist ég ekki einu orði á þá ágætu nefnd. Nema það sé skilningur Óðins að hann og nefndin séu eitt og það væri sannarlega frétt. En úr því að Fræðslunefnd er dregin inn í umræðuna þá væri kannski rétt að spyrja hvort fleiri fulltrúar nefndarinnar deili þeirri skoðun Óðins sem endurspeglast í ummælum hans um í hverju ráðdeild í rekstri skóla felist helst.

Lárus G. Valdimarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi