Grein

Rúnar Óli Karlsson.
Rúnar Óli Karlsson.

Rúnar Óli Karlsson | 19.10.2004 | 13:08Verkefnið Usevenue

Ísafjarðarbær er meðal þátttakenda í nýju verkefni um svokölluð viðburðaskipti sem ber nafnið „Usevenue“ og er styrkt af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Auk Ísafjarðarbæjar taka þátt Héraðsnefnd Snæfellinga, sveitarfélögin Storuman í Svíþjóð, Aviemore í Skotlandi og Hyrynsalmi í Finnlandi en þaðan er hugmyndin að verkefninu komin. Ætlunin að miðla á milli svæðanna viðburðum sem reynst hafi vel á hverjum stað og læra af öðrum.

Hugmyndafræði verkefnisins er að viðburður sem hefur gengið vel á einum stað, eigi hæglega að geta gengið vel annarsstaðar. Auk þess er markmið verkefnisins m.a. að auka þekkingu á skipulagningu viðburða og byggja upp jákvæða ímynd íbúa af sínum heimabyggðum. Fyrsti viðburðurinn sem við vinnum í samvinnu við verkefnið, er mýrarboltamótið sem haldið var um daginn og miklar vonir eru bundnar við að okkur takist jafn vel upp og Finnum í því verkefni. Ýmsar fleiri hugmyndir eru í farvatninu, bæði sem tengjast íþróttum, útivist og menningu.

Markmið verkefnisins

Útfæra núverandi viðburði þannig að hugmyndina að þeim megi nota og nýta í öðrum löndum.

Fjölga ferðamönnum á svæðunum með því að:
• Þróa á nýja viðburði.
• Hafa „viðburðaskipti“.
• Styrkja núverandi viðburði.
• Bæta markaðssetningum, gera hana faglegri.
• Margir viðburðir sem eru haldnir í dag hafa eingöngu verið markaðssettir fyrir heimamenn og brottflutta.

• Dreifa hugmyndum að viðburðum milli svæða. Er þá átt við viðburði sem gefið hafa góða raun á öðrum svæðum. T.d. Skíðavikan á Ísafirði og Hálandaleikarnir í Skotlandi.

• Skapa jákvætt orðspor á viðkomandi svæðum í tengslum við viðburði.

• Bæta skipulagningu og gera undirbúning faglegri með handbók sem verður aðgengileg fyrir þá sem ætla að undirbúa viðburði.

• Auka þekkingu og þjálfun í skipulagningu viðburða.

• Auka félagsleg gæði íbúa og jákvæða ímynd þeirra af svæðinu.

• Mæla efnahagsleg áhrif viðburða á viðkomandi samfélög.

Verkefnislengd

Gert er ráð fyrir að verkefnið taki þrjú ár og ljúki síðla árið 2006

Áætlaður árangur

Fjöldi viðburða á ýmsum sviðum sem dreifist yfir allt árið og styrkir efnahagslegan og félagslegan grundvöll samstarfslandanna.

Verkefnislýsing

Vinnufundir verða haldnir í öllum löndunum á verkefnistímabilinu a.m.k. tveir í hverju landi. Helstu verkefnin verða eftirfarandi:

• Byggja upp rétt orðspor fyrir viðkomandi svæði.
• Safna hugmyndum og skiptast á þeim.
• Markaðsrannsóknir.
• Búa til líkan fyrir sjálfbæra viðburði.
• Hagkvæmniathuganir.
• Keppnir án landamæra.

Margar keppnir og íþróttagreinar eru orðnar alþjóðlegar í dag. Allar þessar greinar áttu sér upphaf og það má hugsa sér að fleiri greinar geti orðið vinsælar á alþjóðavísu. Hér má nefna sem dæmi mýrarfótbolta í Finnlandi sem á rætur sínar að rekja til finnska hersins og finnska landsliðsins í skíðagöngu. Keppt er í fótbolta í mýrum og er svo komið eftir sjö ára þróunarstarf að sl. sumar voru þátttakendur um 5000 allstaðar af úr heiminum og áhorfendur voru annað eins. Veltan í þessu litla samfélagi sem er svipað af stærð og Ísafjarðarbær, er um ein milljón evra (um 80 milljónir íslenskra króna) á einni helgi. Nú getur keppnin ekki tekið við fleiri keppendum og vilja Finnarnir gera mótið að keppnisröð í samstarfslöndum verkefnisins. Sjá nánar hér.

Búið er að koma á samstarfi fótboltaáhugamanna í Ísafjarðarbæ og frumkvöðlana í Finnlandi og má þegar sjá árangur af því samstarfi. Í september síðastliðnum var haldinn fyrsta keppnin í mýrabolta á Íslandi í botni Skutulsfjarðar eftir að tveir Ísfirðingar höfðu tekið þátt í slíku móti í Finnlandi. Markmiðið er að gera mótið árlegt og að mótið geti orðið alþjóðlegur viðburður svipað og gerst hefur í Finnlandi.

Hvað geta viðburðaskipuleggjendur í Ísafjarðarbæ fengið út úr verkefninu?
Hér eru nokkur dæmi:

1. „Event experts“. Hægt er að óska eftir því að verkefnið borgi komu sérfræðinga á einhverju sviði viðburðaskipulagningar, hingað til að fara yfir ákveðna(r) hugmynd(ir) og meta möguleika hennar/þeirra í framtíðinni.

2. „Study trips“. Verkefnið getur greitt fyrir för aðila hér heima til að skoða viðburði annarsstaðar sem hugmyndin er að setja upp hér heima eða til að styrkja núverandi viðburði.

3. „Event modelling manual“. Búið er að ráða tvo sérfræðinga í skipulagninu viðburða til að skrifa handbók í skipulagningu viðburða þar sem komið verður inn á alla þætti slíkrar skipulagningar. Tekið verður sérstakt tillit til þeirra svæða sem eru í verkefninu og verða tekin fyrir „case studies“ frá hverju svæði. Handbókin verður þýdd á íslensku.

4. Vefsíða með upplýsingum um verkefnið sem ættu að nýtast þeim sem eru í skipulagningu viðburða

5. „Local working group“. Stofnaður verður vinnuhópur hjá öllum þátttakendum í verkefninu þar sem unnið verður að málum heima fyrir. Markmiðið er að greina þá viðburði sem eru til staðar og flokka eftir möguleikum þeirra til framtíðar, bæði hér heima og erlendis. Eins er hlutverk hópsins að safna saman nýjum hugmyndum af viðburðum.

Verkefnisfundur var haldin á Ísafirði með fulltrúum frá öllum löndunum í byrjun þessa mánaðar. Öllum þótti mikið til bæjarins koma; umhverfið, þjónustustigið hér fyllti þá öfund og hve snyrtilegt er í okkar ágæta bæjarfélagi. Haldin var kynningarfundur í Þróunarsetrinu og var þátttaka ágæt.

Ljóst er að árangur verkefnisins verður aldrei meiri en sú vinna sem heimamenn eru tilbúnir að leggja til. Undirritaður óskar eftir samstarfi við alla sem hafa góðar hugmyndir sem styrkt geta okkar ágæta samfélag og skapað tækifæri í framtíðinni.

Rúnar Óli Karlsson, ferðamálafulltrúi Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi