Grein

Soffía Vagnsdóttir.
Soffía Vagnsdóttir.

Soffía Vagnsdóttir | 14.10.2004 | 22:09Sveitarstjórnir landsins – þetta gengur ekki lengur!

Nú eru liðnar rúmar þrjár vikur frá því að verkfall grunnskólakennara hófst. Til að byrja með var nokkuð létt í fólki, bæði foreldrum og börnum og jafnvel kennurum. Haustið rétt hafið, börnin enn að leika utandyra, góðlátlegt grín gert og allir bjartsýnir á að þetta yrði einungis nokkra daga stopp til að lengja sumarið svona áður en haldið yrði af stað inn í nám og starf vetrarins. En raunin er nú orðin önnur. Verkfall kennara hefur nú staðið á fjórðu viku og ekkert þokast í samkomulagsátt. Samningaviðræður sigldar í strand. Tugir funda hafa verið haldnir hjá samninganefnd sveitarfélaga og kennurum en hvorki gengur né rekur í sáttatilraunum.

Sveitarfélög landsins veittu samninganefnd sveitarfélaganna umboð til að semja við kennara um kaup og kjör. Ekki er ég viss um að í dag séu allar bæjar- og sveitarstjórnir landsins sáttar við að hafa afsalað sér þessum rétti til samninganefndar sveitarfélaga. Ég sem bæjarstjórnarmanneskja er að minnsta kosti farin að efast. Samkvæmt samþykktum um launanefnd sveitarfélaga er skilgreint hlutverk hennar:

• að gæta hagsmuna sveitarfélaganna gagnvart samtökum þeirra launþega, sem þau ráða til starfa, sérstaklega að því er varðar kaup og kjör.

• að koma fram sem samningsaðili fyrir hönd sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana og hagsmunasamtaka eftir því sem þessir aðilar gefa nefndinni umboð til eða leiðir af lögum.

• að vinna að því að samræma afstöðu sveitarfélaganna til kjarasamninga og að móta stefnu í kjaramálum.

• að vinna að því að leysa með samningum ágreiningsmál á milli sveitarfélaganna og viðsemjenda þeirra.

Á hverju strandar? Hvernig í ósköpunum stendur á því að ekki var farið af stað fyrr með samningaviðræðurnar ef það dugði ekki að hefja þær í febrúar? Sveitarfélögin vissu mætavel hvenær samningar áttu að vera lausir. En það er auðvitað aldrei einum að kenna þegar tveir deila.

Í 1. grein grunnskólalaga segir: Sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára eftir því sem nánar segir í lögum þessum. Skóli þessi nefnist grunnskóli. Öllum börnum og unglingum á framangreindum aldri er skylt að sækja skóla. Ég spyr: Er ekki verið að brjóta þessa 1. grein grunnskólalaganna með verkfalli grunnskólakennara?

Ef samninganefndin metur það svo fyrir hönd umbjóðenda sinna, sveitarfélaganna, að engin leið sé að verða við kröfum kennara vegna fjárskorts. Því verður að spyrja; verður þá ekki að fara að krefjast upptöku og endurskoðunar á samningnum sem gerður var við ríkið um yfirtöku skólanna á sínum tíma? Er ekki rétt að fara að huga að því svona á meðan ekkert gengur í hinu.

Nú er að koma í ljós hvað það þýðir í raun þegar einn setur reglurnar en annar á að framkvæma og greiða. Ríkið setur reglurnar um starf skóla en sveitarfélögin eiga að framkvæma og greiða. Öll eru sveitarfélögin sett undir sama hatt þrátt fyrir að fjárhagsleg staða þeirra sé afar mismunandi. Í umræðum ríkisvaldsins um sameiningarmál sveitarfélaga eru jafnvel kaup og kjör kennara notuð til að þrýsta á sameiningarviðræður milli einstakra sveitarfélaga til að spara.

Ég sagði áðan; einn setur reglurnar en annar á að framkvæma og greiða. Ríkisvaldið setur fram námskrár um starfsemi allra skólastiga. Þar á meðal grunnskólans. Samkvæmt þeim námskrám er grunnskólanum ætlað ítarlegt hlutverk á fjölmörgum náms- og uppeldissviðum barna og unglinga. Ekki verða þau öll rakin hér, en bent er á að leiðir að markmiðunum eru hverjum skóla nokkuð í sjálfsvald settar. Eins og flestum er kunnugt eru sveitarfélög afar mismunandi stödd hvað varðar fjárhagslega getu. Það mætti með rökum segja að einhver sveitarfélög gætu verið löngu búin að semja við sína kennara ef mennta- og uppeldisstefna þeirra væri sett framar öðrum málaflokkum í sveitarfélaginu og fjárhagsleg geta þeirra væri til staðar. Þau gætu þá gert betur við sína kennara og gert betur við sína nemendur. Í þessu sambandi hefði ég viljað sjá fleiri sveitarfélög vera miklu djarfari að gera tilraunir með að laga skólastarfið að sínu samfélagi eftir að þau tóku reksturinn yfir, í stað þess að „gera alltaf eins og hinir”.

En í kjaradeilunni halda öll sveitarfélög landsins halda að sér höndum og bíða. Þau bíða eftir niðurstöðum samninganefndar. Rétt eins og málið sé ekki þeirra. Á meðan valsa þúsundir nemenda, margir eftirlitslausir um hús, stræti og torg og bíða eftir að fá að fara að vinna aftur. Að fá reglu á líf sitt. Foreldrar eru í mikilli klemmu og áhyggjur þeirra vaxa dag frá degi.

Á dögunum var varpað fram tölum um stórkostlega starfsaukningu kennara og starfsfólks innan grunnskólans sem var ekki neinu samræmi við aukningu nemenda. Þetta er enn eitt dæmið um að að ríkið setur reglurnar en sveitarfélögin verða að framkvæma og greiða. Ástæðan fyrir fjölgun starfsfólks eru m.a. reglur sem alþingi og ríkisvaldið hafa sett. Alls kyns reglur um réttindi nemenda um sérþjónustu sem skólunum ber skylda til að verða við. Það er margt í skólunum sem hefur breyst og í raun ekki hægt að bera skólastarf í dag saman við það starf sem þar fór fram fyrir 20 árum síðan og jafnvel skemur. Kröfur foreldra um persónulega þjónustu við börn sín innan grunnskólans eins vel og mögulegt er tek ég heils hugar undir. En það kostar peninga!

En aftur að þeim sem þiggja þjónustuna; börnunum. Það er orðið algerlega óþolandi að þurfa að kyngja því hvað eftir annað að saklaus börn og unglingar séu notuð í kjarabaráttu. Til eru starfsgreinar (eins og lögreglan) sem samkvæmt lögum mega ekki fara í verkfall vegna þess að það er talið stefna öryggi samfélagsins í hættu. Er það ekki hættulegt fyrir samfélagið að þúsundir barna og unglinga séu, vegna launabaráttu einnar starfsstéttar, stöðvuð í námsferli sínu? Er það ekki hættulegt að upplausn verður hjá þúsundum íslenskra fjölskyldna á meðan skólastarfið er stopp? Jú, - af því stafar samfélagsleg hætta að mínu mati. Við þessar aðstæður getur líf margra viðkvæmra barna farið úr skorðum.

Í flestum löndum Evrópu er kennurum bannað samkvæmt lögum að fara í verkfall. Eftir þessa tilraun sveitarfélaganna til að reka grunnskólanna, má þá ekki segja að hún hafi ekki gengið upp? Eiga þeir ekki að vera í höndum ríkisins? Samfélagsþjónusta eins og skólastarf á að vera varin þannig að rekstur hennar geti ekki stöðvast. Til þess að svo megi verða verður annað hvort að binda það í lög, eða - sem er auðvitað miklu farsælla, að tryggðir verði tekjustofnar sem duga fyrir henni miðað við þær lagasetningar sem hún er byggð á.

Sjálf á ég fimm börn. Þau hafa ekki farið varhluta af verkföllum kennara og síðasta verkfall framhaldsskólakennara hafði veruleg áhrif á námsframvindu eins af eldri börnum mínum. Ég er kennari (þó ekki starfandi sem stendur) og styð auðvitað kröfur kollega minna heilshugar um betri kjör, - einkum um hækkun grunnlaunanna. Hins vegar hef ég sett spurningar við kröfur þeirra um styttingu vinnutímans. Ég hef fremur verið hlynnt því að taka upp viðræðurnar um fastan vinnutíma frá klukkan átta til fjögur á daginn og að greidd verði fyrir það mannsæmandi laun.

Ekki ætla ég að fara meira út í þá skoðun mína hér heldur vil ég draga varpa fram þeirri spurningu hvort flutningur grunnskólanna yfir á sveitarfélögin hafi verið réttur. Eru menn sáttir með stöðuna? Eru foreldrar sáttir? Eru kennarar sáttir? Eru sveitarstjórnarmenn sáttir? Öllum þessum hópum get ég tilheyrt og í engum þeirra er ég sátt.

En ríkið er sátt. Laust við pakkann. Hæstvirtur menntamálaráðherra lýsir leiða sínum á stöðu mála en fyrrar sig um leið allri ábyrgð á því hvernig komið er. Samningurinn við sveitarfélögin var kláraður á sínum tíma með nægu fjármagni að hennar mati og því er það ekki á ábyrgð ríkisins hvernig komið er. Samningsaðilar verða að sjá um þetta sjálfir segir hún.

Ég vil nú hvetja sveitar- og bæjarstjórnir landsins til funda strax, sérstaklega um stöðuna. Ræða það sín á milli hvort einhversstaðar sé smuga til að forgangsraða að nýju, -setja fræðslumálin, og þar með kjaramál kennara ofar á forgangslistann. Taka síðan upp þá umræðu og horfa til framtíðar, hvort þetta er það sem við viljum; að á nokkurra ára fresti stöðvist skólastarf á hinum ýmsu skólastigum um mislangan tíma vegna þess að kjaradeila stendur yfir. Þetta er að mínu mati algjörlega óviðunandi staða sem hefur haft, fullyrði ég, óbætanleg áhrif á mörg börn og unglinga á námsferli sínum.

Það hlýtur einhver að bera ábyrgð á því hvernig komið er. Allavega eru það ekki blessuð börnin! Nei, það erum við sveitarstjórnarmenn gerum það. Við erum í kjaradeilu við kennara og okkur BER að leysa hana nú þegar!

– Soffía Vagnsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi