Grein

Jón F. Þórðarson.
Jón F. Þórðarson.

| 18.07.2001 | 14:35Umhverfi Funa

Það stingur óþægilega í augu að líta í áttina að Sorpbrennslunni Funa á Ísafirði. Hvort hún er staðsett á þeim heppilegasta stað sem völ var á skal ekki lagður á dómur en sorpbrennslan er þarna og verður um ókomna framtíð. Einhvers staðar verða vondir að vera, sagði tröllskessan í Drangey þá Guðmundur hinn góði Hólabiskup vígði eyna.
Fjarðarbotninn er útivistarsvæði okkar Ísfirðinga, vinsæll skokkstaður með meiru. Þarna beint á móti sorphaugunum er grafreitur Ísfirðinga og er leitt að hafa þessa sjón fyrir augum þá vinir og vandamenn eru kvaddir hinstu kveðju. Ekki meira um það.

Ég hef tillögu til útbóta, sem er fljótvirk og kostar ekki stóran pening og þetta mætti gera strax. Það þarf að setja timburvegg neðan við svæðið, það háan að ekki sjáist inn fyrir úr nágrenninu. Síðan þyrfti að planta framan við timburvegginn limgerði úr Alaskavíði, sem er fljótvaxnasta trjátegund sem völ er á og hentar vel á þessum stað. Ef einhver er í vafa, þá skoði hann limgerðið sem einhver framsýnn plantaði bak við fyrrverandi Vélsmiðjuna Þór og er dæmi um það hvað hægt er að gera á stöðum sem ekki eru fýsilegir til trjáræktar við fyrstu sýn. Limgerðið myndi ná hæð veggjarins á ca. fimm árum og er kostnaður við plöntukaup óverulegur.

Ástandið eins og það er í dag er ekki viðunnandi og okkur til vansa. Við verðum að hefjast handa strax. Vilji er allt sem þarf og skilningur á ástandinu. Undirritaður býður hér með fram aðstoð sína og leiðbeiningar um garðyrkjuþáttinn án endurgjalds.

Hnífsdal 8. júlí 2001.
Jón Fanndal Þórðarson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi