Grein

Gunnbjörn Óli Jóhannsson | 02.10.2004 | 19:42Er ekki lífið dásamlegt!

Ég fór að hugleiða stöðu Reykhólahrepps eftir á hafa lesið frétt á bb.is við Einar Thorlacius sveitarstjóra. Að því gefnu að tillaga Vegagerðarinnar á Ísafirði sé sú með stuðningi ráðherra, að vegurinn verði áfram fyrir Þorskafjörð, yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls og fyrir Gufufjörð í Skálanes. Það er að segja sama leið óbreytt í staðinn fyrir að fara yfir Þorskafjörð og yfir Djúpafjörð og Gufufjörð í Skálanes. Ég skil ekki þá stefnu Vegagerðarinnar að það megi ekki færa fjallvegi niður á láglendi, þvera firði og byggja brýr annars staðar en á þessari leið. Eins og til dæmis í Kolgrafarfirði og í Ísafjarðardjúpi.

Og miðað við nýjustu tillögu í sameiningarmálum sveitarfélaga held ég að það þurfi að fara að byrja á veg um Arnkötludal til Hólmavíkur hið fyrsta. Ég held að Vegagerðin á Ísafirði myndi styðja þá framkvæmd, því stytting á vegi milli Ísafjarðar og Reykjavíkur yrði veruleg og ráðherra samgöngumála gæti áfram farið með bátnum yfir Breiðafjörðinn! En þá yrði komin upp sú skondna staða, að Reykhólahreppur, Hólmavíkurhreppur og Dalabyggð gætu sameinast til dæmis og við í Reykhólahreppi ættum möguleika á tveimur heilsugæslusvæðum og þremur sýslumönnum! Er ekki lífið dásamlegt!

Kinnarstöðum 2. október 2004, Gunnbjörn Óli Jóhannsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi