Grein

Halldór Hermannsson.
Halldór Hermannsson.

| 29.03.2000 | 13:48Læðupoki vegur úr launsátri

Tíðkast hefur í nokkrum dagblöðum að vera með einn greinarflokk eða svo, sem skrifaður er undir dulnefni. Í flestum tilfellum eru þetta greinar í gamansömum dúr, sem eru lesnar sem slíkar. Í Bæjarins besta er einn dálkur skrifaður undir dulnefninu Stakkur, þarna er oft um hápólitískar greinar að ræða sem varla getur talist stórmannlegt af þeim sem skrifa nafnlaust.
Í síðasta tölublaði Bæjarins besta var því veitt eftirtekt að forvígismenn blaðsins voru hálft í hvoru að biðjast afsökunar á greinarstúf Stakks.

Það var í sjálfu sér ekkert undarlegt, þar sem hinn pólitíski læðupoki, Stakkur, kastaði skít á báða bóga. Þar veittist hann að Hornstrendingum fyrri tíðar, sem hann telur að hafi verið siðleysingjar, bæði lagalega og trúarlega og þess vegna hafi Hornstrandir farið í eyði. Líkir hann hann núlifandi Vestfirðingum við þessa ólánsmenn eins og hann telur þá hafa verið.

Það er löngu vitað hverjum litla hjartað í Stakki slær. Það slær fyrir ofstækisfulla markaðshyggjumenn, sem vinna hörðum höndum að því að koma öllum auðlindum þessa lands í eigu 4-5% þjóðarinnar. Það hefur nú að mestu tekist með því að síðastliðna tvo áratugi hefur meirihluti Alþingismanna látið ofstækismennina ríða sér neðanjarðar sem áburðarklárar væru með stjórnarskrána í hnakkpúddunni. Fyrrverandi dóms- og sjávarútvegsráðherra Þorsteinn Pálsson komst einu sinni svo að orði í stjórnartíð sinni að réttlætið væri afstætt hugtak sem finna mætti stað með ýmsum hætti. Getur verið að Stakkur sé skilgetið pólitískt afkvæmi þessa manns?
Halldór Hermannsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi