Grein

Jón Fanndal Þórðarson | 28.09.2004 | 14:09Björgum hæstarétti

Fyrr á öldum var 16 ára unglingur dæmdur til lífstíðar Brimahólmsvistar af íslenskum valdsmönnum fyrir að stela nokkrum þorskhausum úr hjalli á Eyrarbakka þegar hungrið var að drepa hann. Hann var sýknaður af hæstarétti Dana. Annar hagleiksunglingur falsaði bankaseðil. Hann var dæmdur til dauða af íslenskum valdsmönnum. Hæstiréttur Danmerkur sýknaði hann líka. Jón Hreggviðsson var dæmdur til húðláts, eins og það var kallað, fyrir að stela snæri svo hann gæti róið til fiskjar og veitt í soðið fyrir sig og sína fjölskyldu. Síðar var hann dæmdur til dauða fyrir að hafa myrt kvalara sinn kóngsins böðul, en morðið var aldrei sannað á hann. Þaðan er komin þessi skemmtilega setning: „Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann.” Hæstiréttur Danmerkur sýknaði Jón að lokum eftir áratuga stapp og útlegð frá sinni fjölskyldu. Danir voru ekki alvondir. Hæstiréttur Danmerkur var eina vonin fyrir lítilmagnann þegar hann var órétti beittur af íslenskum valdahroka og mannúðarleysi.

Íslenskur hæstiréttur

17. febrúar 1920 fengu Íslendingar í hendur æðsta dómsvald í eigin málum. Hæstiréttur var settur í fyrsta sinn. Sveinn Björnsson, síðar forseti, sagði við það tækifæri: „Þessi stund mun jafnan talin merkisstund í sögu þjóðarinnar. Sú stund er æðstu dómendur í íslenskum málum taka aftur sæti til dóma á fósturjörð vorri. Þessi atburður, sem hér á sér stað nú í dag, hlýtur að vekja fögnuð í hjörtum allra Íslendinga. Hann er einn af áþreifanlegu vottunum um að vér höfum aftur fengið fullveldi um öll vor mál.”

Nú gustar um hæstarétt, hvers vegna?

Nú gustar um hæstarétt. Það er búið að draga þessa stofnun sem við almúginn töldum okkar einu von til réttlætis, niður í svaðið. Forsetaembættið hefur átt undir högg að sækja og sumir vilja leggja það niður. Nú er það hæstiréttur, brimvörn þeirra sem telja sig órétti beitta. Ákveðinn hópur lögfræðinga hefur hafið undirskriftasöfnun til stuðnings einum aðila um embætti hæstaréttardómara. Mér finnst lögfræðingastéttin setja niður með svona vinnubrögðum og hún ætti að mótmæla þeim harðlega ef þeir vilja halda andlitinu. Ég vil ekki trúa öðru en að þeir geri það. Við Vestfirðingar lögðum okkar að mörkum þegar forsetaembættið var lítilsvirt. Nú vil ég hvetja grasrót þessa lands í öllum landsfjórðungum til að gera slíkt hið sama hvað hæstarétt Íslands varðar. Látum ekki troða þessar mikilvægu stofnanir niður í svaðið. Alþýða þessa lands hefur gert þetta land að því sem það er. Hún má ekki sofna á verðinum.

Með samstöðu nást sigrar.

Jón Fanndal Þórðarson


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi