Grein

Gunnlaugur Finnbogason | 23.09.2004 | 10:33„Allir eru að gera það gott nema ég”

„Allir eru að gera það gott nema ég” er yfirskriftin á þeim söng sem Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins – Gunnvarar hefur boðið okkur upp á hvar sem tekið er við hann viðtal, en ávallt rekur hann upp sama ramakveinið, að trillur séu að taka allar aflaheimildir frá HG. Nú er ástandið orðið svo slæmt að hann virðist kyrja sama sorgarsönginn daga og nætur, sama er hvort rætt er við Einar um fiskveiðikerfið eða áætlun Eimskips, alltaf kemur sama tuggan, trillurnar eru að taka allan fisk frá HG og öllum er sama um Einar.

Ég er seinþreyttur til vandræða, en nú hef ég fengið mig fullsaddan af þessu væli. Af viðtölum við Einar Val mætti ætla að trilluflotinn lifi eins og blómi í eggi, á endalausum styrkjum, en það er alls ekki svo. Eini bónusinn sem t.d. mín útgerð fær er línuívilnunin sem er 13% af afla í steinbít og ýsu og 13% hluta úr ári í þorski. Þetta er mjög góð aðgerð til að efla línuveiðar sem skila hágæðahráefni sem hentar á dýrustu saltfisk- og flugfiskmarkaðina og er þessi aðgerð því mjög hagstæð fyrir Vestfirði og þjóðarbúið. Í þessu geta falist mikil tækifæri fyrir HG , að nýta sér sem mest af þeim línufiski sem hér kemur á land, og færa sig úr almennri matvælavinnslu yfir í hágæða matvælavinnslu úr línufiski.

Trúlega halda margir að Einar Valur og HG séu algerlega afskipt, og skilin eftir úti í kuldanum, en svo er nú aldeilis ekki. Vil ég hér tíunda ýmsa bónusa sem þeir hafa, ekki vegna þess að ég sjái svo eftir því, heldur til að benda á að HG og Einar Valur eru ekki eins afskipt og hann vill vera láta.

Á sama tíma og mín útgerð var sett í kvóta, gegn vilja okkar eigendanna, fékk Einar Valur einnig krókakvóta á Patton ÍS. Ekki heyrði ég þá mótmæli frá Einari vegna þess að Patton fengi kvóta sem skerti kvóta HG.

Þá hefur HG endurvigtunarleyfi, og þarf aðeins að senda inn hvað ís er mörg prósent af afla ísfisktogara þeirra , þetta tel ég vera hátt í að jafnast á við línuívilnunina.

Þá hefur HG frystitogaraívilnun, kvótinn er reiknaður eftir á út frá umdeildum nýtingarstuðlum sem margir telja að sé meiri ívilnun en línuívilnunin nokkru sinni.

Þá hefur HG verið með leyfi til þorskseiðaveiða í Ísafjarðardjúpi. Ef lítilsháttar seiðaprósenta hefur verið í afla innfjarðarrækjubáta, hafa þeir ekki fengið að stunda veiðar. En HG má stunda hreinar seiðaveiðar í troll marga mánuði á ári.

Þá hefur HG leyfi til að stunda veiðar á undirmálsþorski við Vestfirði til að setja í kvíar, en ef t.d. línu eða handfærabátur fær undirmál með í sínum afla er veiðisvæðinu lokað.

Þá hefur HG einnig fengið hundruð tonna í eldiskvóta sem er frá öðrum tekið (kannski þeim sterka?).

Þá hefur Einari Val orðið tíðrætt um byggðakvóta, en staðreyndin er sú að hann hefur fengið meginhlutann af þeim byggðakvóta sem komið hefur á Ísafjörð sjálfur, fyrir HG og er það væntanlega af öðrum tekið.

Vona ég nú að Einar Valur, sem talar um að ekki gangi að styrkja þann veika með því að veikja þann sterka, átti sig nú á því að hann er sá veiki sem hefur þegið flesta styrkina frá okkur þeim sterku sem höfum verið að reyna að rétta hjálpandi hönd.

Vona ég nú að Einar Valur hætti þessum eilífa grát og leggist á árar með öðrum útgerðarmönnum að styrkja stöðu greinarinnar á Vestfjörðum í stað þess að huga eingöngu að eigin útgerð og rakka aðra niður. Mönnum ber að sýna þakklæti þegar þeim eru stöðugt færðar gjafir hvort sem það er á kostnað annarra eða ekki. En ég minni á að Palli varð ekki hamingjusamur þegar hann var einn eftir í heiminum.

Að lokum óska ég Einari Val og HG góðs gengis í framtíðinni.

Höfundur er trillukarl.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi