Grein

Jóna Benediktsdóttir | 17.09.2004 | 14:36Heilsuefling í Grunnskólanum á Ísafirði

Nú, þegar unnið er að heilsueflingu í bæjarfélaginu, finnst mér við hæfi að segja frá því sem nú þegar er í gangi í meðal starfsfólks í Grunnskólanum á Ísafirði. Á stórum vinnustöðum er nauðsynlegt að huga með ýmsu móti að eflingu hópanda og samstöðu hjá starfsfólkinu. Grunnskólinn á Ísafirði er einn af stærstu vinnustöðum hér í bæ. Þar hefur um árabil ýmislegt verið gert til að skapa samstöðu meðal starfsmanna og ber þar hátt ýmiskonar gönguferðir sem starfsmannafélagið hefur staðið fyrir. Ferðirnar hafa verið skipulagðar með það fyrir augum að sem flestir geti tekið þátt í þeim. Ferðahraðinn er miðaður við að þeir sem óvanir eru geti unnið þá sigra sem felast í að sjá að þeir geti líka tekið þátt.

Við höfum gengið saman á mörg fjöll hér í nágrenninu, svo sem á Kaldbak, Barða, Straumnes og yfir Klofningsheiði. Einnig höfum við farið í lengri ferðir þar sem gist er eina eða tvær nætur, meðal annars í Hornvík og Furufjörð, og fleiri ferðir eru fyrirhugaðar á næstu árum. Nú í vor tókum við þátt í verkefni Í.S.Í., Hjólað í vinnuna, og náðum þar fyrsta sæti í okkar flokki. Keppnin þar fólst í því að sem flestir starfsmenn kæmu fyrir eigin vélarafli í vinnuna. Það sem gladdi okkur mest í því var að hjá okkur var ekki sérstakt átaksverkefni í gangi þá viku sem keppnin var í gangi heldur skráðum við það niður sem við gerum á venjulegum dögum. Hér á Ísafirði háttar þannig til að flestir geta farið gangandi eða hjólandi í vinnuna og hvet ég alla sem geta til að nýta sér þau forréttindi.

Það er bjargföst trú mín að útivera og hreyfing sé eitt af því besta sem hver maður getur gert fyrir sálarlíf sitt. Það þarf ekki endilega að hlaupa langar leiðir eða klífa hæstu fjallatinda. Það að fara í gönguferðir, einn síns liðs eða í góðum félagsskap, er ákaflega endurnærandi. Létt og hressandi ganga þar sem spjallað er um allt milli himins og jarðar, uppeldi, bókmenntir, pólitík og tekist á um heimsmálin, fyllir mann af krafti til að takast á við ný verkefni sem oft krefjast mikillar þolinmæði.

Ég er sannfærð um að aukin hreyfing leiðir til betri heilsu og meiri krafts til daglegra starfa og hefur þar með í för með sér virðisauka. Sá virðisauki skilar sér í öllu starfi viðkomandi og þá mest sem betra sjálfsmat.

– Jóna Benediktsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi