Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson.
Pétur Tryggvi Hjálmarsson.

Pétur Tryggvi Hjálmarsson | 30.08.2004 | 22:51Um lausnir og vandamál

Þegar litið er upp eftir hlíðinni ofan við Seljaland, þá má sjá hversu gríðarlega vel hefur tekist til við að verja manninn vá. En betur má ef duga skal. Þaulsetur á verkfræði-, náttúru-, hönnunar- og öðrum setustofum, fyrir atbeina hinna viti bornu ráðamanna, hafa það í för með sér að ekki skal látið hér við sitja. Núna þegar reistur hefur verið varnargarður þar sem hverfandi líkur eru á snjóflóði, þá verður að sjálfsögðu að gera varnargarða alls staðar þar sem möguleg hætta gæti fundist.

Þegar góðar lausnir finnast liggur fyrir að finna vandamálin sem þær leysa.

Næst á dagskrá er snjóflóðavörn undir Gleiðarhjalla og þar á eftir yfir Holtahverfi. Ekki virðist ósennilegt að aðferðafræði þeirra framkvæmda verði eitthvað á þessa leið: „Undirbúningsvinna er á lokastigi og hefur kostað hundruð milljóna.“ Þannig verður verknaðurinn kynntur bæjarbúum og ræddur á þeim grundvelli, að óviturlegt væri að kasta á glæ öllum þessum vandaða undirbúningi þaulsætinna manna á alls konar stofum og öllum þessum gríðarlega kostnaði með því að hætta við allt saman.

Áður en fleiri áfangar til eyðileggingar hefjast með þessu kroppi í hlíðarnar má benda á, að mögulegt er að stíga skrefið til fulls og skapa alvöru hættulaust umhverfi hér á Ísafirði. Það má gera með því að moka fjöllunum í kring út í fjörðinn. Þar með verður til stórt og öruggt byggingarsvæði með möguleika á „hönnun útivistarsvæða“. Enginn þyrfti að óttast fjöllin lengur, hættan af þeim væri komin út í sjó og engu skolpi væri hægt að hleypa út í hann heldur. Eyðingahvörf Funa sjá um rest. Virtar valdamannavænar þrýstihópastofur í Reykjavík standa í röðum til að fá að sanna gildi sitt á slíkum svæðum.

Athygliverð var frétt á fréttavefnum bb.is núna þann 26. ágúst en hún hófst á þessa leið:

„Enn er rýmingarskylda á Seljalandshverfi þrátt fyrir að framkvæmdum við snjóflóðavarnargarð þar sé lokið. Þó þýðir það ekki að hætta sé á snjóflóðum...“

Pétur Tryggvi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi