Grein

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnsson | 24.08.2004 | 21:49Opinbert íbúðalánakerfi fest betur í sessi

Þær fréttir að stærsti banki á Íslandi, KB bankinn, bjóði nýja tegund íbúðalána með lágum vöxtum hafa vakið verðskuldaða athygli. Mestan part eru þetta ánægjuleg tíðindi sem boða aukna samkeppni á lánamarkaði. Samkeppni er af hinu góða. Hún mun stuðla að bættum kjörum fólks og leiða til lækkunar á viðskiptakostnaði almennings sem lánin tekur. Því ber sannarlega að fagna.

Það er hins vegar einn ljótur ljóður á þessu ráði bankans. Í augum bankans eru ekki allir jafnir. Fólkið á landsbyggðinni fær aðra og verri meðferð en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu eða á Akureyri. Fyrir vikið mun þessi ákvörðun bankans augljóslega festa betur í sessi opinbert íbúðalánakerfi með ríkisábyrgð.

Samkeppnin kemur til skjalanna - eða hvað?

Fyrir skilvíst fólk á landsbyggðinni eru þetta vitaskuld vonbrigði. Einnig vegna þess að bankinn hefur af sögulegum ástæðum átt svo sterkan bakgrunn í viðskiptum við dreifbýli. Búnaðarbankinn - þaðan sem KB bankinn er sprottinn að hálfu - er uppruninn í viðskiptum við bændur og dreifbýlið.

Um þetta stoðar hins vegar ekki að tjóa. Hér kemur samkeppnin til skjalanna. Það eru fleiri bankar á vettvangi og vart verður því trúað að þeir láti tækifærið ónotað og reyni ekki fyrir sér með viðskiptum á meðal íbúa þeirra svæði sem enn eiga bara kost á 60 prósent láni á hinum frjálsa markaði. Hér hljóta menn að horfa til allra þeirra lánastofnana sem starfa á landsbyggðinni.

Opinbera lánakerfið tryggt í sessi

Hornsteinn íslenskrar húsnæðisstefnu hefur verið að tryggja jafnræði. Meðal annars án hliðsjónar af búsetu manna. Íbúðalánasjóður og forveri hans Húsnæðisstofnun hafa átt áratuga löng viðskipti við fólk um allt land, oftast án alvarlegra affalla. Þannig hefur séreignastefnan í húsnæðismálum - eitt höfuðeinkenni íslensks samfélags - ekki síður verið staðreynd á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Ein af röksemdunum fyrir opinberum afskiptum af íbúðalánum hefur verið að ella stæði landsbyggðin höllum fæti; fengi ekki sambærileg lánskjör og höfuðbogarsvæðið. Nú hafa þær grunsemdir ræst. Þess vegna hefur ákvörðun KB banka - og samkvæmt nýjustu fréttum fleiri lánastofnana - tryggt hið opinbera lánakerfi í sessi. Það verður nefnilega einfaldlega ekki liðið að fólk á landsbyggðinni hafi að þessu leyti ekki sömu möguleika og fólk á höfuðborgarsvæðinu. Ríkið mun því enn um sinn halda áfram að lána húsnæðiskaupendum, til þess að vernda séreignastefnu um land allt ; þennan hornstein í íslensku samfélagi.

Þetta er sannarlega óvæntur vinkill á djarfri og nauðsynlegri innkomu á íbúðalánamarkaðinn og aukinni samkeppni, en staðreynd engu að síður.

Einar K. Guðfinnsson - ekg.is


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi