Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 20.08.2004 | 10:35Vestfirsk menningarvaka

Þegar komið var hér verst / í véum helgrar glóðar. /Vestfirðingar vörðu best / vígi lands og þjóðar. Þetta er þingvísa ort á Alþingi fyrir mörgum árum. Í tilefni Heimastjórnarhátíðar alþýðunnar datt mér þessi vísa í hug. Vestfirðingar eru sérstakur og skemmtilegur þjóðflokkur sem í gegnum tíðina hefur verið í fararbroddi á flestum sviðum mannlífs og þjóðlífs.

Það var engin tilviljun að fyrsta vél sett í róðrarbát var hér á Ísafirði. Það var heldur engin tilviljun að sjómannaskóli var stofnaður hér á Ísafirði árið 1852, fyrsti fagskóli á Íslandi. Áður voru skólar sniðnir aðeins til að útskrifa embættismenn. Landsstjórnin vildi ekki hlusta á rödd Ísfirðinga um nauðsyn þess að setja á stofn skóla til að kenna siglingafræði en þá kom Vestfirðingseðlið í ljós. „Við gerum þetta bara sjálfir“ og það gerðu þeir og sjómannaskóli var
stofnaður á Ísafirði 1852, einnig var fyrsta tryggingarfélagið stofnað á svipuðum tíma, „Sjóábyrgðarfélag Ísfirðinga.“ Hvílík framsýni.

Við höldum okkar Heimastjórnarhátíð sjálf, fyrst engir aðrir gerðu það. Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir er gott máltæki. Heimastjórnarhátíð alþýðunnar 2004 er orðin að veruleika. Það stefnir í stórhátíð, þar sem aðilar frá öllum þéttbýliskjörnum á svæðinu taka þátt í og sameinast í hjarta bæjarins, Silfurtorgi, til að fagna og skemmta sér. Hátíð sem þessi er komin til að vera árviss viðburður. Við getum kallað hana ýmsum nöfnum t.d. menningarkvöld, menningarvöku,menningaruppskeruhátíð eða jafnvel þjóðhátíð Vestfirðinga.

Hugvitsmanni á Dalvík datt í hug að gefa Dalvíkingum fisk einn dag á ári. Nú koma 30.000 manns til Dalvíkur þennan eina dag til að skemmta sér og borða fisk. Hvernig litist ykkur á ef 10-20 þúsund manns kæmu til Ísafjarðar eitt ágúskvöld ár hvert. Það er af nógu að taka á menningarsviðinu, menningin blómstrar alls staðar á Vestfjörðum og er fjölbreytt. Taka mætti brot af því besta frá sumrinu á slíka uppskeruhátíð menningarinnar, eins og reyndar er gert á hátíðinni á laugardaginn.

Nú hefur dagskrá hátíðarinnar verið send inn á þau 2000 heimili sem eru á svæðinu og vonandi verða margir undrandi þegar í ljós kemur hversu fjölbreytt og glæsileg þessi hátíð kemur til með að verða. Það er von okkar að sem flestir mæti á þessa menningarvöku og taki þátt í upphafinu að öðru meira. Góða skemmtun og gleðilega hátíð.

Jón Fanndal.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi