Grein

Karl V. Matthíasson.
Karl V. Matthíasson.

Karl V. Matthíasson | 09.08.2004 | 13:19Eyrir ekkjunnar

Flest þekkjum við söguna um eyri ekkjunnar. Hún var kona sem gaf einn eyri í samskotabaukinn. Það var allt sem hún átti. Jesús hélt því fram að hún hefði gefið mest vegna þess að hún gaf af skorti sínum en hinir gáfu af gnægðum sínum. Við hljótum að rifja þessa sögu upp nú um mundir þegar álagningarseðlarnir birtast og við sjáum hvernig skattbyrðin leggst misjafnlega á fólk. Það er nefnilega ekki sama hvernig maður fær tekjurnar sínar.

Flest veski eru þannig gerð að hægt er að brjóta þau saman og þegar maður opnar þau eru í þeim hólf vinstra megin og hægra megin. Við getum hugsað okkur, að þær tekjur sem við fáum fyrir venjulega vinnu fari í vinstra hólfið, en tekjurnar sem við fáum af vöxtum, arði hlutabréfa og fyrir að leigja íbúðir sem við eigum o.s.frv. fari í hægra hólfið. Tekjurnar í hægra hólfinu heita fjármagnstekjur. Skattur á þær er 10%, en skattur á hinar tekjurnar er tæp 40%. Það munar því miklu hvort aurarnir, sem koma í veskið séu af fjármagni eða venjulegri vinnu.

Sum þeirra raka sem lögð voru fram þegar lögin um fjármagnstekjur voru samþykkt voru skiljanleg. En engu að síður bentu margir á ýmsar hættur sem fylgt gætu í kjölfar lagasetningarinnar. Samtök sveitarfélaga og fulltrúar þeirra sem flestir beygja sig og bugta fyrir ríkisstjórninni, bentu á (með mikilli kurteisi) að tekjur sveitarfélaganna myndu stórminnka með þessari lagasetningu því menn færu að greiða sjálfum sér laun sem fjármagnstekjur í stað venjulegra launatekna. Við höfum nú séð árangurinn af þessari ranglátu lagasetningu. Kannske ætti verkafólk, sjómenn og opinberir starfsmenn að stofna líka til hlutafélaga um sörf sín og fá launin sem fjármagnstekjur. Ráðherrar gætu til dæmis stofnað ráðgjafafyrirtæki í kring um ráðherradóminn og fengið laun sín greidd sem arð af hlutabréfunum sínum í staðinn fyrir að þurfa að borga svona mikla skatta og þannig mætti lengi telja. Prestar, kennarar og fleiri og fleiri gætu þetta líka.

Þegar við förum að hugsa með þessum hætti og byrjum að „fantasera“ kannske meira í gríni en alvöru þá gleymum við að hugsa um það hvernig samfélag okkar á að vera og byggjast upp.

Eiga börnin okkar og almenningur allur að hafa frjálsan aðgang að mestu auðlind þjóðarinnar sem er þekking hennar og menntun? Eiga börnin okkar að hafa frjálsan aðgang að læknisþjónustu, sjúkrahúsum, lyfjum og alls konar almennri þjónustu sem nauðsynleg er til þess að samfélag okkar geti kallast velferðarsamfélag? Eiga þeir sem búa við geðtruflanir og þjást vegna þeirra að njóta góðarar læknisþjónusutu og aðhlynningar? Eiga þeir sem hafa lenti í feni eitulyfja og áfengis að njóta stuðnings og styrks? Eiga sjómennirnir okkar að hafa aðgang að björgunarþyrlu þegar sjávarháska ber að? Og þannig getum við spurt okkur áfram. Já, hvernig á samfélag okkar að vera? Á það ekki að vera frjálst og réttlátt?

Ég er sannfærður um það að margir þeirra sem greiddu aðeins 10% eru reiðubúnir til að greiða hærri skatta til þess að viðhalda og verja velferðarsamfélagið sem afar okkar og ömmur og foreldrar byggðu upp. Ég trúi því að allir íslenskir auðmenn, a.m.k. langsamlega flestir, láti sig haga samborgara sinna varða, þeir verða bara að fá tækifæri til þess að taka þátt í því. Það er gert með því að breyta lögunum.

Við ættum alvarlega að hugsa um það hvort ekki sé rétt að hafa bara sömu álagningu á allar tekjur, hvort heldur um fjármagnstekjur eða launatekjur er að ræða, að minnsta kosti ætti bilið þarna á milli að lækka verulega. Við verðum alltaf að hugsa þannig að skattaálagningin sé sanngjörn og bregðast skjótt við þegar augljósir og fáránlegir vankantar koma í ljós á henni eins og nú er orðið. Því ef skattlagningin verður ranglát þá taka varnargarðar velferðarkerfisins að bresta og þá er mikil vá fyrir dyrum. Þá lendum við í þeirri stöðu, ef við erum ekki þegar í henni, að fátæka ekkjan, sú sem síst skyldi verður að borga læknisþjónustuna, menntuninna, björgunarþyrluna og allt hitt fyrir hina sem hafa meira á milli handanna.

Karl V. Matthíasson, prestur.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi