Grein

Ingi Þór Ágústsson.
Ingi Þór Ágústsson.

Ingi Þór Ágústsson | 20.07.2004 | 16:28Með höfuðið hátt!

Um síðastliðna helgi var framsækin ráðstefna á Ísafirði sem bar yfirheitið „Með höfuðið hátt“. Að þessari ráðstefnu stóð ungt fólk úr allri pólitískri flóru Ísafjarðarbæjar og stóð sig frábærlega vel í undirbúningi og framkvæmd hennar. Dagskrá ráðstefnunnar var virkilega vel samsett og fróðleg á allan máta. Ég sat alla ráðstefnuna og sökkti mér í allskonar hugmyndir um bætta byggð í mínu heimahéraði, henni til heilla í framtíðinni. Markmið þessarar ráðstefnu var að mínu viti einmitt það, að hvetja menn til dáða, hvetja menn til framkvæmda, hvetja menn til að standa upp og bera höfuðið hátt – við erum Vestfirðingar og erum stolt af því.

Það sem mér fannst standa upp úr eftir helgina er hvað margt er hægt að taka sér fyrir hendur hér fyrir vestan – allt sem þarf er bjartsýnin á framtíðina. Það þarf að vera bjartsýni á að sú framtíðarsýn sem við, Vestfirðingar allir, berum í brjósti okkar komi til með að rætast. Þeir einstaklingar sem voru með framsögu á þessari ráðstefnu eru allir með framtíðarsýn, hver á sínu sviði, sem virkilega gaman væri að koma að og þróa áfram.

Margir tala um hvað við hefðum í dag ef kvótinn væri til staðar – jú eflaust hefðum við það betur – allavega væri undirstaða atvinnulífs okkar til staðar og sú þjónusta sem henni væri tengt myndi skapa tugi starfa og fjármagn til handa einstaklingum í samfélaginu. Við verðum samt að sætta okkur við þá staðreynd, í bili að minnsta kosti, að þessi kvóti er ekki til staðar. Hvað ætlum við þá að gera, halda áfram að blóta kvótanum eða gera eitthvað í málunum, eitthvað annað en sitja með hendur í skauti og bíða eftir að hlutirnir breytist. Ég sjálfur verð að viðurkenna að ég er frekar þreyttur á umræðunni „ef kvótinn væri til staðar þá...“ Ég skil vel þessa umræðu en er ekki kominn tími til að eyða hluta af orkunni sem fer í að bölsótast yfir kvótaleysi í að huga að fyrir framtíðina.

Það er ungt fólk að alast upp í dag sem skilur ekki þessa umræðu um kvótamálin – ólst ekki upp við það að vinna í fiski allar stundir í fríum frá skóla. Þetta unga fólk er hluti af Y kynslóðinni – kynslóðinni sem veit hvað heimurinn er lítill og vill skoða tækifæri langt út fyrir sveitarmörkin, langt út fyrir landhelgina, vill skoða heiminn í víðu samhengi. Þetta unga fólk þarf skilning og tækifæri til að þroska sína hugsjón, sín tækifæri og sína framtíðarsýn sem það ber í brjósti sér – aðstoðum þau við það!

Takk fyrir mig – ég er miklu fróðari um tækifæri til framtíðar í minni heimabyggð – ég er bjartsýnn!

Berum höfuðið hátt – við erum Vestfirðingar!

Ingi Þór Ágústsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi